Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín spurningum um lántökugjald af lánum vegna innlendra skipaviðgerða og innti eftir því hvort staðið hefði verið við fyrirheit sem ég gaf hér í umræðum í þinginu í fyrravor, að ekki yrði tekið slíkt gjald af lánum vegna skipaviðgerða á Íslandi. Svarið er að sjálfsögðu: Það var fyllilega við þetta staðið því gjaldið var lagt af í heilu lagi, eins og þm. er kunnugt, í fyrravor. Hins vegar er rétt að það eru enn þá nokkur vafamál um fyrri lán skv. þessari skipan, hvort af þeim eigi að greiða eða hafi verið greitt lántökugjald. Þau mál eru í athugun og meðan sú athugun fer fram vil ég ekki taka afstöðu til síðari spurningar þm. sem var um afstöðu til frv. sem hann hefur sjálfur flutt um þetta málefni. Ég vinn að málinu í þeim anda að þetta gjald verði ekki tekið af þeim sem gátu vænst þess að njóta réttar skv. yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar þess efnis að slíkt gjald yrði ekki lagt á lánaráðstafanir vegna útflutningsatvinnuveganna sem samþykktar hefðu verið af ríkisstjórninni.