Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Í tilefni orða hv. 2. þm. Norðurl. e. og 6. þm. Reykv. út af því máli sem þau gerðu hér að spaugilegri sögu vil ég segja eftirfarandi: Þannig var að við í fjh.- og viðskn. fengum beiðni um það frá ríkisstjórninni og Byggðastofnun að Byggðastofnun fengi auknar heimildir til erlendrar lántöku upp á 350 millj. Bréf þess efnis kom fram um það að Byggðastofnun fengi þessa lántökuheimild. Um það er nú flutt frv.
    Það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Reykv. eru að fjalla um er tillaga sem kom fram frá fulltrúa í Fjárlaga- og hagsýslustofnun um hvernig ætti að fara með þetta, en ekki að nefnd innan ríkisstjórnarinnar ætlaði að fara að með öðrum hætti heldur en í bréfinu kom fram. Það er misskilningur að nefndin hafi ætlað að afgreiða þetta með öðrum hætti en þeim að Byggðastofnun tæki þetta lán, svo að ég vildi bara eyða þessum misskilningi.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal gerði hér að umtalsefni smábáta og hvernig ríkisstjórnin ætlar að fara með eigendur smábáta. Ég vil taka það sérstaklega fram að fyrrv. ríkisstjórn ákvað að eyða 100 millj. til að létta byrði smábátaeigenda og um það er rætt í þessu frv. Síðan kemur fram beiðni frá Byggðastofnun um að fá aukna heimild til erlendrar lántöku upp á 500 millj. Ríkisstjórnin ákveður að heimila 350 millj., ótiltekið, ekki það að í því fælist annað en samþykki á þessum hluta. Hins vegar kom fram í máli Guðmundar Malmquist að þetta hefði kostað Byggðastofnun 250 millj. og það er ekki hægt að álykta sem svo að þar sem Byggðastofnun vantar 150 millj., þá hafi sjálfkrafa verið dregnar 150 millj. af þeirri fjárlagabeiðni sem fram kom frá Byggðastofnun.
    Það er rétt sem fram kom hjá 6. þm. Reykv. að Byggðastofnun á við verulegan vanda að stríða einmitt vegna þess að hún hefur þurft að kaupa eignir á uppboðum og vegna loforða sem hún hefur gefið núna að undanförnu og áttu að vera komin til afgreiðslu, en vegna þess að það vantaði heimildir í lögum til að taka lán, þá hefur ekki komið til útborgunar.
    Það var annað sem fram kom í máli hv. þm. Halldórs Blöndals, að þær 900 millj. sem á að verja til Atvinnutryggingarsjóðs sýni vanda atvinnulífsins og hvernig þessi ríkisstjórn hafi komið atvinnulífinu illa. Ástæðan fyrir því að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina var settur á stofn var einmitt sú óstjórn sem var þegar Sjálfstfl. hélt um stjórnartaumana og núna í ár er búið að vera að reyna að bjarga útflutningsfyrirtækjum frá gjaldþroti. ( EgJ: Er ekki búið að því enn þá, hvað er þetta?)
    Það sem mér þótti skrýtið í málflutningi þessara tveggja þm. var að þau voru á móti frv. Þau kvarta undan því að það séu of litlar heimildir til t.d. Byggðastofnunar, en samt vilja þau greiða atkvæði á móti frv. ( EgJ: Sitja hjá, var sagt.) eða sitja hjá, ég þakka þér fyrir hv. þm., en ég held að hér sé einmitt

verið að reyna að svara kalli frá Byggðastofnun að því er hana varðar og þarna er um nauðsynlega heimild að ræða.
    Að síðustu vil ég minnast á það að hv. þm. Halldór Blöndal kvartaði undan því að ekki hafi verið lögð fram gögn í nefndinni um fjárlagahallann á þessu ári. Fyrir það fyrsta er árið ekki liðið og í annan stað eru þetta þær nýjustu tölur sem liggja fyrir og hann veit það jafn vel og ég að það var spurst fyrir um hvaða áætlun lægi fyrir um fjárlagahallann og það komu sömu tölurnar út.