Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég kem hér í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., bæði út af þeirri ræðu sem hann var að ljúka við hér í ræðustólnum og hinni fyrri. Það er svolítið sérstakt að þegar verið er að ræða hér um lánsfjáráætlun skuli hv. þm. nota tækifærið og fara að ræða um mál sem hann er með sjálfur hér í deildinni, hefur lagt fram hér til umræðu. Ég undrast hvað forseti okkar er lipur að benda ekki hv. þm. á að hann hefur þegar flutt þetta mál hér til umræðu og það er til umfjöllunar í nefnd, í fjh.- og viðskn. Þetta mál sem hann er að fjalla hér um í hverri ræðunni á fætur annarri. Það sýnir að hv. þm. hefur ekki mikið um hin almennu fjárhagsmál landsins að segja og vill kannski sem minnst um þau tala, fer um þau þannig löguðum orðum sem sýna fyrst og fremst að það er feimnismál Sjálfstfl. hvernig komið er með atvinnumálin hér á landi, um að það vanti meiri peninga í Atvinnutryggingarsjóð og um að það vanti meiri peninga til þess að lána smábátum.
    Ég skal taka undir það að eitt af því sem ég hef undrast nokkuð er að ríkisstjórnin, þegar hún er að ákveða aðgerðir í sambandi við vandamál atvinnuveganna, skuli ekki gera sér betri grein fyrir því hvernig ástandið er og hvernig Sjálfstfl. skilaði atvinnurekstri á Íslandi frá sér. ( EgJ: Um hvaða ríkisstjórn er ræðumaður að tala?) Ég er að ræða um ríkisstjórn Sjálfstfl., ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Vandamálin einmitt í kringum smábátana hrúguðust upp á þeim tíma, en fyrrv. ríkisstjórn, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ( StG: Sú fyrri.) sú fyrri, já, áætlaði þennan halla og þessi vandræði ekki meiri en 100 millj. Þegar farið var að skoða þessi mál kom í ljós að þessi vandi var meira en tvöfaldur eða eftir því sem búið er að upplýsa að til þessara hluta hafi þurft 250 millj. ( SalÞ: Var það á framsóknaráratugnum?) Það var á framsóknar- og íhaldsáratugnum. Og þess vegna er ósköp eðlilegt að hv. 2. þm. Norðurl. e. vilji raunverulega ekki tala um stöðu atvinnumála hér eða fjárhagsmál þegar verið er að ræða um lánsfjáráætlun, heldur er hann að tala um sitt eigið frv. sem liggur í nefnd og hefur verið vísað til umsagnar. ( EgJ: Áætlun um smábátana var nú komin fram í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar.)