Veiting ríkisborgararéttar
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. frsm. allshn. fer þeim mjög fjölgandi sem sækja um ríkisborgararétt hér á landi. Víða erlendis er það haft fyrir sið að ræða á einn eða annan hátt við umsækjendur um slík réttindi eins og ríkisborgararéttur óneitanlega er hjá þjóð eins og við Íslendingar erum, ekki síst með tilliti til þeirra breyttu viðhorfa sem eru í veröldinni að ýmsu leyti, af pólitískum eða öðrum ástæðum. Sums staðar er meira að segja gerð krafa um að fólk mæti á námskeið og fullnægi vissum kröfum í námi, tungumálakunnáttu og fleiru.
    Ég vakti máls á því á fundi í allshn., og ég hygg að nefndarmenn séu því nokkuð sammála, að taka það til athugunar sem frsm. minntist á, að ástæða væri til þess að t.d. formenn allsherjarnefnda Ed. og Nd. ættu viðræður við alla þá umsækjendur sem tök eru á. Þá á ég að sjálfsögðu ekki við börn eða önnur slík tilfelli þar sem ekki er hægt að koma því við, þó ekki væri til annars en að gera viðkomandi umsækjendum fyllilega grein fyrir því hvaða réttindi þeir eru að fá og líka hitt að menn hafi séð umsækjendur. Ég var formaður nefndarinnar eitt árið og voru þá 3--4 beiðnir um viðræður við mig sem formann nefndarinnar. Ég held að ég hafi fyrir bragðið verið betur í stakk búinn til að skýra fyrir nefndarmönnum viðhorf mitt til þeirra vandamála sem þeir gerðu mér grein fyrir.
    Eftir að við tókum upp þann sið að vera með slík frv. tvisvar á ári höfum við í fyrra skiptið, fyrir jólin, yfirleitt reynt að vera einungis með þá umsækjendur sem fullnægja öllum þeim skilyrðum sem við setjum. Á vorþinginu höfum við aftur rætt um þá aðila sem kannski eru svona, ef ég má orða það svo, landamæratilfelli eða tilfelli sem vert er að velta vöngum yfir. En ég vil ítreka það sem kom fram hjá formanni og frsm. nefndarinnar að það er ástæða fyrir okkur að hugleiða það að taka upp meiri festu í þessum hlutum og eiga t.d. viðræður eða á annan hátt að gera mönnum betur grein fyrir því sem er á seyði þegar menn fá ríkisborgararétt í nýju landi.