Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum, nr. 29/1986, eins og það kemur frá hv. Ed.
    Núgildandi lög um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum öðluðust gildi þann 1. júlí 1986. Í 1. gr. þeirra laga er svo kveðið á að fyrir þeim dómstóli skuli reka og dæma opinber mál vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65 frá 1974, vegna brota á 173. gr. a almennra hegningarlaga.
    Málum sem komið hafa til meðferðar dómstólsins á undanförnum missirum hefur ekki einvörðungu fjölgað, heldur hefur umfang þeirra vaxið verulega. Á þetta einkum við um nokkur mjög umfangsmikil fíkniefnamál þar sem um hefur verið að ræða innflutning og dreifingu á kókaíni en við slíkum brotum liggja þung viðurlög.
    Eigi verður talið svo að óyggjandi sé að heimilt sé samkvæmt núgildandi lögum að fleiri en einn dómari dæmi mál sem rekin eru fyrir sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum og flyt ég því frv. þetta. Það er í samræmi við stefnu stjórnvalda um samfellda, hraða og vandaða málsmeðferð þegar í 1. gr. frv. er lagt til að þegar vafi þyki vera um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði geti dómarinn að fengnu samþykki dómsmrn. ákveðið að slík mál séu dæmd af þriggja manna dómi. Sú breyting varð á meðförum frv. í Ed. að heimild dómarans til að kveðja til setu í dómi með sér tvo dómendur sé háð samþykki dómsmrn. Sambærileg lagaheimild er varðandi Sakadóm Reykjavíkur og skal það skýrt nokkru nánar.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, getur ríkissaksóknari kveðið svo á að rannsókn máls og meðferð annaðhvort eða hvort tveggja skuli fara fram í Reykjavík eða annars staðar á landinu þar sem honum þykir best við eiga, enda þótt það skyldi annars sæta rannsókn og meðferð dómara í öðru lögsagnarumdæmi, ef mál er vandasamt eða umfangsmikið. Mál vegna meiri háttar skatta- og efnahagsbrota skulu að jafnaði sæta meðferð í Reykjavík. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að í Reykjavík geti þrír sakadómarar, annaðhvort eftir ákvörðun yfirsakadómara eða eftir boði dómsmrh., farið með mál eftir rannsókn þess og dæmt það í sameiningu, enda þyki vafi vera um mikilsverð sönnunar- og lagaatriði.
    Í 2. málsl. 1. gr. frv. er fjallað um hæfi þeirra sem kvaddir eru til setu í dómi. Þar er lagt til að viðkomandi sé embættisdómari. Í frv. sem lagt var fyrir Ed. var gert ráð fyrir að auk embættisdómara væri unnt að kveðja til setu í dómi menn sem uppfylltu skilyrði 2. mgr. 2. gr. núgildandi laga, þ.e. til skipunar sem dómari í sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum, en í meðförum Ed. var sá hluti ákvæðisins felldur brott.
    Þá er að lokum í 2. gr. frv. m.a. lagt til að umrædd lagabreyting taki til mála sem þegar eru til

meðferðar hjá dómstólnum.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.