Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu. Hér er þetta sem stjfrv. og svo kann að vera að sé, en í a.m.k. þingflokki Alþfl. er þetta mál afgreitt með fyrirvörum einstakra þingmanna um að þeir mundu flytja eða styðja brtt. sem fram kynnu að koma við þetta frv. ( EgJ: Þetta er stjfrv. fyrir því.) Það kann að vera, hv. skrifari Egill Jónsson, að þetta sé stjfrv. fyrir því, en það er rétt að þetta komi fram við 1. umr. frv., að fyrirvarar eru að því er varðar stuðning við frv. eins og það er.
    Ég skal ekki eyða löngum tíma í að ræða þetta frv. en ég óttast, ég vil ekki fullyrða neitt, ég óttast að hér sé enn eina ferðina verið að vega að dreifbýlislandshlutunum. Nóg hefur verið um slíkt að mínu viti og ég óttast líka að hér sé verið að draga valdið á færri hendur en verið hefur. A.m.k. sýnist mér það að því er það kjördæmi varðar sem ég er fulltrúi fyrir sem er Vestfjarðakjördæmi.
    Í 3. gr. frv. stendur: ,,Ráðherra skipar héraðslækni í Reykjavík, í Norðurlandshéraði eystra og Reykjaneshéraði.`` Samkvæmt þessu eiga einvörðungu að vera þrír héraðslæknar í þremur héruðum eða kjördæmum. Ég man eftir því allt frá 1972 líklega, ef ég man rétt, þegar heilbrrh. var Magnús heitinn Kjartansson, að þá var lögð mikil áhersla á það að hafa héraðslækna í öllum héruðum landsins og ég tel það nauðsyn. Ég tel að hér sé verið --- að mér sýnist, ég vil ekki fullyrða fyrr en ég hef skoðað það sérstaklega og þá nefnd sem þetta mál fær --- að hér sé verið að draga ákvörðunarvaldið úr höndum heimamanna í miðstýringarvaldið hér á suðursvæðinu, ef það má orða það svo. Ef svo er þá er það að mínu viti mjög rangt því að auðvitað á að færa valdið til heimahéraðanna en ekki draga það frá þeim.
    Ég vildi því nú við 1. umr. lýsa minni skoðun á þessu, að ég hef alla fyrirvara að því er varðar þetta mál um flutning á brtt. og stuðning við hugsanlegar brtt. einstakra þingmanna og það er í ljósi þess að ég tel og óttast að hér sé verið að draga vald frekar á eina hendi heldur en verið hefur og hér sé verið að breyta grundvallarreglum þess sem verið hefur í heilbrigðisþjónustunni allt til þessa, a.m.k. í sumum læknishéruðum. Mín spurning er kannski fyrst og fremst til hæstv. heilbrrh.: Hvers vegna? Hver eru rökin fyrir því að það er verið að skipa héraðslækna í þremur tilteknum héruðum en önnur skilin eftir? Hver eru rök fyrir slíku?
    Ég hef heyrt að menn segi: Ja, þetta eru svo fámenn héruð að það tekur því ekki að hafa sérstaklega skipaðan héraðslækni í þeim hinum héruðum sem ekki eru talin hér upp. Ég hafna slíku. Ég tel að það sé full nauðsyn á því að hafa héraðslækna í öllum læknishéruðum landsins og eins og það er núna, þá var því skipt á sínum tíma og ég tel að slíkri skipan eigi að halda. Vera kann að menn hafi rök og skýringar fyrir því að þetta sé réttlætanlegt. Ég sé þau ekki og óska þess vegna eftir

því að hæstv. ráðherra eða þá nefndin sem fær þetta mál til umfjöllunar kanni þetta mál mjög ítarlega og sjái svo um að hér sé ekki verið að draga ákvörðunarvald úr höndum heimamanna því að ég tel fyllilega að það sé frekar þörf á því að menn hlúi að því að völdin séu í héruðunum en ekki dregin hér á einn bát á Reykjavíkursvæðinu.