Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess við þessa umræðu að þakka fyrir það að þetta frv. skuli hér flutt. Ég tel að það sé í raun og veru mjög mikilvægur áfangi í heilbrigðisþjónustunni í landinu sem verið er að marka með þessu frv. eins og það lítur út.
    Samkvæmt lögum um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá sl. ári var ákveðið að heilbrigðisþjónustan flyttist að verulegu leyti til ríkisins. Það var talið skynsamlegt að fara þá leið. Því geta auðvitað fylgt margvíslegir kostir, m.a. að því er varðar heilsugæsluumdæmin og rekstur sjúkrahúsanna þar sem hlutirnir hafa verið býsna flóknir og valdskipti milli ríkis og sveitarfélaga hafa verið ákaflega óljós. Þetta frv. skiptir þess vegna talsverðu máli varðandi stjórn heilbrigðisþjónustunnar yfirleitt og þó kannski alveg sérstaklega skiptir það okkur Reykvíkinga miklu máli vegna þess að það hefur ekki tekist enn þá, þrátt fyrir lögin sem sett voru 1973, lög um heilbrigðisþjónustu, að koma á eðlilegri heilsugæsluskipan hér í Reykjavík sambærilegri við það sem gerist annars staðar í landinu. Með þessu frv. er stigið skref í þá átt og það bráðabirgðafyrirkomulag sem gilt hefur um heilbrigðisþjónustu í Reykjavík í 16 ár mun samkvæmt þessu frv. falla niður og ég tel ástæðu til að lýsa ánægju með það.
    Varðandi skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi vil ég hins vegar segja að þar er alveg óhjákvæmilegt að haft verði samráð við þá aðila sem með þessi mál fara hér í Reykjavík. Mér er kunnugt um það að borgarlæknirinn í Reykjavík mun hafa gert tillögu um þessa skiptingu Reykjavíkur í heilsugæslusvæði samkvæmt 10. gr. frv. Hér þurfa menn að átta sig á bæði skiptingunni í svæði og eins samvinnu þessara 13 heilsugæslustöðva í Reykjavík sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv., samvinnu þeirra á milli, kannski nokkurra stöðva saman og eins allra stöðvanna. Í þeim efnum finnst mér að það mætti hugsanlega taka mið af þeim hugmyndum sem lágu fyrir hér í þessari virðulegu deild á síðasta þingi um breytingu á lögum um grunnskóla þar sem gert var ráð fyrir tiltekinni aðferð við stýringu á fræðsluumdæminu Reykjavík og skiptingu þess í svæði og aðild íbúanna að stjórnum skólanefndanna á viðkomandi svæðum.
    Ég vil sem sagt hvetja hæstv. ráðherra og hv. heilbr.- og trn. til að líta sérstaklega á þessi mál að því er Reykjavík varðar, bæði skiptinguna í svæði og samvinnumöguleika stöðvanna sín á milli og jafnvel allra saman.
    Varðandi ummæli hv. þm. Karvels Pálmasonar, þá er það auðvitað hæstv. heilbr.- og trmrh. sem svarar fyrir þennan málaflokk, en af því að hv. þm. vitnaði til laganna frá 1973 vil ég benda á að í þeim var ákvæði um að í öllum umdæmum skyldu vera héraðslæknar. Og það er gert ráð fyrir því líka í þessum lögum að í öllum umdæmum séu héraðslæknar. Munurinn er hins vegar sá að í gömlu

lögunum, sem enn eru í gildi, er gengið út frá því að það séu skipaðir heilsugæslulæknar sem gegni jafnframt störfum héraðslæknis. Ég veit að hv. 3. þm. Vestf. þekkir þetta úr sínu kjördæmi þannig t.d. að Pétur Pétursson var skipaður héraðslæknir Vestfjarða um leið og hann var heilsugæslulæknir í Bolungarvík. Pétur Pétursson var reyndar fyrsti héraðslæknir Vestfjarða samkvæmt lögunum frá 1973. Það tók tíu ár að skapa forsendur til þess að hægt væri að skipa héraðslækni á Vestfjörðum samkvæmt lögunum frá 1973. Það var ekki hægt að gera það fyrr en 1982 af því að til þess tíma hafði ekki verið neinn skipaður heilsugæslulæknir á Vestfjörðum, heldur voru menn ráðnir til mjög skamms tíma í senn í sínum heilsugæsluumdæmum. Þetta sýnir kannski betur en annað hvað þessar dreifðu byggðir eru illa settar að þessu leyti og erfitt að manna þær þannig að öruggt sé til einhvers tíma.
    Ég skil frv. svo sem hér liggur fyrir og er til umræðu að það sé ætlunin að halda þessari skipun áfram að því er varðar önnur umdæmi, þ.e. Vesturland, Vestfirði, Norðurland vestra o.s.frv., að einhver af heilsugæslulæknunum í þeim héruðum sé jafnframt héraðslæknir viðkomandi umdæmis. Hins vegar sé ég í grg. að þau rök, sem eru flutt fram fyrir Reykjavík og einkum þó Norðurl. e. og Reykjanesi, eru þau að hér sé um að ræða svo fjölmenn umdæmi að þá sé fullt starf að vera embættislæknir í þessum byggðarlögum, bæði að sinna skipulagningu og skýrsluhaldi af margvíslegum toga.
    Ég minnist þess af því að ég nefndi Vestfirðina sérstaklega að þegar Pétur Pétursson fór með þetta starf á Vestfjörðum og byrjaði þessi störf á sínum tíma og var brautryðjandi í þeim að því leytinu til, þá tók þessi vinna mjög mikinn tíma. Mig minnir að við höfum þá haft aðstæður til þess í heilbrrn. að koma eitthvað aðeins til móts við lækninn að því er þessi embættisverk varðaði. Sjálfsagt getur hæstv. heilbr.- og trmrh. upplýst hvernig þessu er háttað í þessum byggðarlögum í einstökum atriðum núna.
    En ég stóð hér fyrst og fremst upp, herra forseti, til þess að víkja að málefnum Reykjavíkur og fagna því ef svo fer, ef þetta frv. yrði að lögum, að því bráðabirgðaástandi sem ríkt hefur í heilbrigðismálum í Reykjavík í 16 ár linni loksins. Það má svo auðvitað velta því fyrir sér hvort það hafi endilega verið skynsamlegt þegar lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga voru
sett að haga málum nákvæmlega eins og hér er gert, að haga málum nákvæmlega þannig að ríkið eitt komi að þessum málum með þeim hætti sem yfirleitt er hér gert ráð fyrir. Í þeim efnum held ég að sitt sýnist hverjum. En ég held satt að segja að það muni ekki líða mjög mörg þing þangað til menn komist að þeirri niðurstöðu að ýmislegt hefði betur mátt fara í þeim ákvörðunum sem teknar voru á síðasta þingi varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga ( EgJ: Sammála.), ekki aðeins að því er varðar uppeldis- og skólamál heldur líka að því er varðar heilbrigðismál. Að því er varðar heilbrigðismál fyrst og fremst vegna þess að

það er æskilegt að heimaaðilar finni hjá sér skyldu til að sinna málinu þó í litlu sé. Þó að þeir hafi í raun og veru mjög lítið fjárhagslegt bolmagn til þess að sinna málunum, þá er mjög æskilegt að þeir hafi einhvern möguleika, einhverja fótfestu í lögum eða reglum til þess að þeir finni sér skylt að sinna málunum. Og ég held satt að segja að slík stjórnunaraðferð sé alltaf til bóta þó að ríkið hjálpi til. Þess vegna tel ég að klisjan um hreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sé úrelt fyrir löngu. Ég hef mjög lengi verið stuðningsmaður ,,óhreinnar`` verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, á þann veg að ríkið og sveitarfélögin hjálpist að við að leysa hlutina. Þannig hlýtur það að gerast í landi þar sem sveitarfélögin eru 220 eða 210, sum þeirra fjarska lítil og vanmegnug og geta í rauninni lítið gert öðruvísi en að ríkið hjálpi til, en ættu þó auðvitað fyrir hönd sinna íbúa að geta haft áhrif á hina daglegu meðferð mála.