Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings í máli hæstv. heilbrrh. þar sem hann vitnaði til orðræðu minnar. Ég minntist á erindi læknanna, sem forseti greindi okkur frá að hefði verið lagt fram hér á lestrarsal, í því samhengi að mikilvægt væri að láta alla hagsmunaaðila fylgjast með afgreiðslu þessa máls vegna þess að það hefði ekki verið gert nógu ítarlega þegar verkaskiptingarfrv. var til umræðu hér. Læknarnir sem nú eru að senda okkur erindi eru nefnilega að bregðast fyrst og fremst við verkaskiptafrv. en þeir vissu ekkert um þær breytingar sem þá lágu fyrir og eiga að verða núna um áramótin varðandi sjúkrasamlögin. Læknafélag Íslands var ekki umsagnaraðili um verkaskiptafrv. að neinu leyti þrátt fyrir breytingar í heilbrigðismálum. Ég hringdi og kannaði það. Þeir læknar sem nú eru að bregðast við eru að bregðast við frv. sem við afgreiddum hér á síðasta þingi. Þess vegna var ég að segja að það er svo mikilvægt að allir aðilar sem málið snertir að einhverju leyti hafi tök á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri meðan málið er í vinnslu og lagði ríka áherslu á það að það yrði sent sem víðast. Síðan er það annað mál eftir hvaða óskum verður farið og hvernig þessu verður breytt ef því verður breytt. En þetta var bara það sem ég vildi leggja áherslu á. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það á ekki við þetta mál sem hér er til umfjöllunar núna.