Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Þessi umræða hefur tekið nokkuð langan tíma og auðvitað eins og kom fram hjá hv. þm. áðan ekki ástæða til annars en að gefa sér góðan tíma í umræðuna, en það er ástæðulaust líka að lengja hana mjög.
    Fyrst út af ummælum hv. 3. þm. Vestf. vil ég aftur undirstrika það að ég hef hugsað mér það að ekki verði dregið úr starfssviði og vettvangi héraðslæknanna heldur þvert á móti tel ég að það beri að fela þeim fleiri verkefni og skilgreina störf þeirra betur og ef Alþingi vill ganga lengra í því heldur en ég hef treyst mér til að gera og ná um það samstöðu þá fagna ég því.
    Varðandi kjaramál sem hann spurði sérstaklega um hér í sambandi við 18. gr. frv. þar sem fjallað er um að stjórnir --- og ég ræddi nú aðeins um áðan --- að stjórnir heilsugæslustöðvanna ráði starfslið stöðvanna og um laun þeirra fari samkvæmt kjarasamningum við opinbera starfsmenn, þá vil ég undirstrika það að þarna er verið að fela stöðvunum verkefni og þar með færa verkefni frá ráðuneyti út til stjórnanna frá því sem er í dag. Ég veit ekki hvernig ætti að kveða á um kjarasamninga þeirra eða kjaramál þeirra ef ekki samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Ég kann enga aðra leið við því. Þetta eru opinberir starfsmenn, starfsmenn heilbrigðisyfirvalda og hljóta að þiggja laun svona. En ég vil líka árétta það að við erum að reyna að færa út úr lögum um heilbrigðisþjónustu ákvæði um kjaramál þannig að ekki sé verið að fjalla um það hér í þessum lögum eins og er núna varðandi kjarasamninga við lækna í 22. gr. og ég las áðan og ætla ekki að lesa aftur, þar sem fjallað er um það að ákvæði um það hvernig samningar þessara aðila skuli vera eru felld út úr lögum um heilbrigðisþjónustu, enda eiga þau ekki heima þar heldur hljóta að eiga heima annars staðar því að samningamál, kjaramál eru ekki í höndum heilbrrn. heldur fjmrn.
    Hv. 14. þm. Reykv. áréttaði aðeins spurningar sem ég reyndi að svara áðan. Auðvitað kann að vera að það hafi ekki verið nægjanlega skýrt frá greint, en vegna þess --- og það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að uppi er eins og ég sagði nokkur áherslumunur um það hvernig staðið skuli að málum hér í Reykjavík og hefur verið lengi og er sjálfsagt a.m.k. einhver enn. Þó gerði ég grein fyrir því að við erum núna að vinna að því að ræða við þá aðila sem í dag reka sjálfstætt starfandi heimilislæknastöðvar. Á bls. 11 í athugasemdum við 10. gr. frv. segir: ,,Hafa því í reynd verið rekin fjögur kerfi í Reykjavík, sem eru kerfi heilsugæslu samkvæmt gildandi lögum á nokkrum stöðum,,, þ.e. eins og er uppi í Breiðholti t.d. í Asparfellinu og reyndar nokkrar aðrar stöðvar og fleiri eru að koma í gagnið á næsta ári, ný stöð þar upp frá og önnur stöð hérna í Garðastrætinu. Síðan er talað um heimilislækningar samkvæmt samningum við

Tryggingastofnun ríkisins, það form sjálfstætt starfandi heimilislækna sem hv. þm. hafa gert hér að umtalsefni, Heilsugæslan í Álftamýri sem er eitt formið enn sem starfar með svolítið sérstökum hætti og í fjórða lagi hefur Heilsuverndarstöðin í Reykjavík annast ákveðna þætti heilsuverndar í samræmi við gömul lög um heilsuvernd.
    Ég hef fullan áhuga á því að samræma þessi form og tel að það sé nauðsynlegt og eðlilegt að við búum hér við nokkurn veginn, helst alveg eitt form, eins og ég gerði hér grein fyrir áðan, að við ætlum að reka hér heilsugæsluþjónustu eins og gerist um allt land annars staðar og í öllum öðrum byggðarlögum í dag. Nú síðast var sú breyting gerð í Garðabæ um síðustu áramót. Um það að hér er í grg. vitnað til samkomulags við Reykjavíkurborg, þá er hér fyrst og fremst vitnað til þess að sú hverfaskipting sem hér er lögð til sé í samræmi við áður gerðar samþykktir á vegum borgarinnar. Þær eru ekki dagsettar hér og ég verð því miður að segja það við hv. þm. að ég á ekki í fórum mínum öðruvísi en fá betri tíma til athugunar á því máli hvaða dagsetningar sé hér um að ræða og vafalaust er það eins og hér er vitnað til fyrr í grg. nokkuð um liðið. E.t.v. hefur það gerst á árunum 1979--1983 eins og hér er tekið fram, en þó kann að vera að þessar ályktanir um skiptingu borgarinnar í hverfi hafi verið áréttaðar og ítrekaðar síðar, um það þori ég alls ekki að fullyrða á þessu stigi. Ég hef ekki upplýsingar um það.
    Ég vona að ég hafi svarað því alveg skýrt hvert mitt sjónarmið er. Ég tel að hér eigi að koma á samræmdu heilsugæslukerfi, en ég áréttaði það líka áðan að við þyrftum að hafa í huga þennan áherslumun, hvernig sú breyting getur farið fram og hvort á henni verður samkomulag um einhverjar undantekningar. Ég held að sumt af þeim læknastöðvum sem í dag eru reknar af heimilislæknum sé með góðu samkomulagi hægt að gera að heilsugæslustöðvum og sú umræða er þegar í gangi og að þeir heimilislæknar sem nú starfa sjálfstætt geti fengið stöður við heilsugæslustöðvarnar eftir því sem þær rísa eða taka til starfa samkvæmt laganna hljóðan og vænti þess að um það þurfi ekki að verða ágreiningur. Og miðað við það sem ég sagði áðan, um það að menn hefðu möguleika á því að eiga áfram samskipti við sína heimilislækna sem þeir hafa haft áður þó að það sé í annarri heilsugæslustöð en við þá götu eða í því borgarhverfi sem þeir búa, þá
sýnist mér að þetta ætti að geta gengið auðveldlega fyrir sig og menn hefðu áfram samskipti við þá lækna sem þeir hafa áður leitað eftir þjónustu hjá.