Veiting ríkisborgararéttar
Miðvikudaginn 22. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 185.
    Í 1. gr. frv. eru talin upp nöfn 33 manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati dómsmrn. uppfylla þeir þær kröfur eða þau skilyrði sem Alþingi hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum.
    Í 2. gr. eru sömu ákvæði um nafnabreytingar og gilt hafa síðustu árin.
    Á tveimur síðustu þingum hefur verið afgreitt fyrir miðsvetrarhlé frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar og síðan hefur í lok þingsins um vorið einnig verið afgreitt frv. um veitingu ríkisborgararéttar. Þessi háttur á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt hefur reynst til mikilla þæginda. Bæði styttir það biðtíma umsækjenda og dreifir afgreiðsluálagi hjá ráðuneytinu.
    Ég legg því til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.