Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni, ekki síst eftir þá ræðu sem hæstv. iðnrh. hefur hér flutt. Hæstv. ráðherra upplýsir það að hann hafi fylgst með þeim aðgerðum, þeim framkvæmdum sem farið hafa fram vegna nýrrar virkjunar við Búrfell og ekki gert athugasemdir við þær þótt ráðherranum sé ljóst að engin lagaheimild liggur fyrir vegna þessarar virkjunar og engin samþykkt af hálfu Alþingis um það að ný virkjun við Búrfell verði reist.
    Það sem hæstv. ráðherra er hér að segja og vitna til er varðandi stækkun Búrfellsvirkjunar og fleiri orkuöflunarframkvæmdir á Þjórsársvæðinu í þáltill. frá 1982. Sú þáltill. varðar ekki byggingu nýrrar virkjunar við Búrfell. Iðnrh. eftir iðnrh. hafa hafnað óskum Landsvirkjunar um að leita eftir heimild fyrir slíkri virkjun, þar á meðal Sverrir Hermannsson sem iðnrh., og e.t.v. fleiri iðnrh. Sjálfstfl. á sínum tíma, sem og ég 1982, þegar tilmæli bárust þar að lútandi.
    Þetta er að sjálfsögðu einnig alvarlegt að því er varðar stjórn Landsvirkjunar en í henni sitja þingkjörnir fulltrúar og ríkið er aðili að 50% hlutum að þessu stóra fyrirtæki. Hér er með ljósum hætti verið að brjóta lög í landinu og samþykktir Alþingis, og það af sjálfu framkvæmdarvaldinu, hæstv. iðnrh., sem heimilar og er vitni að því að ákveðið sé að verja fjármunum almennings í landinu, fjármunum þessa almannafyrirtækis, til þess að ráðast í virkjunarframkvæmdir sem allsendis er óvíst að nýtist og engar heimildir eru til um. Þvert á móti liggja fyrir samþykktir frá Alþingi, frá árinu 1982, sem vísa í gagnstæða átt varðandi nýjar virkjanir í landinu.
    Þetta er svo alvarlegt mál, virðulegur forseti, að það hlýtur að koma frekar til kasta löggjafarvaldsins hér og til sérstakrar athugunar. Og ég verð að lýsa undrun minni á þeirri óskammfeilni af hálfu hæstv. iðnrh. að skjóta hér skildi fyrir þær aðgerðir sem Landsvirkjun hefur staðið fyrir til þessa í trássi við samþykktir Alþingis og án nokkurrar heimildar löggjafans.