Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að þau tíðindi sem hér eru flutt af hæstv. iðnrh. koma nokkuð á óvart. Mér var reyndar kunnugt um að það hefði verið skolað burtu jarðvegi við Búrfell síðan 1982 og það eru í sjálfu sér búhyggindi sem ekki er hægt að hafa á móti. Hins vegar að það sé búið að bjóða út vélbúnað virkjunarinnar, þó að með fyrirvara sé, án þess að leita heimildar Alþingis þar um eða ræða slík mál hér á þessum vettvangi, það eru vissulega tíðindi sem koma á óvart, og ég verð að segja að það er nokkuð langt gengið. Ég held að þörf sé á að ræða þessi mál frekar hér á Alþingi og taka til þess betri tíma síðar.