Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það vekur athygli hvernig talsmenn Alþb. hér við þessa umræðu tala. Helsti talsmaður Alþb. í orku- og iðnaðarmálum færir hér fram þau viðhorf beinlínis að það sé óeðlilegt að hefja undirbúning þessarar virkjunar. Það liggur þó fyrir að þetta er hagkvæmasti virkjunarkosturinn og óhjákvæmilegt að ráðast í þessa virkjun ef hér á að hefja á ný stóriðju og orkusölu til stóriðju. Það vekur líka athygli að hæstv. menntmrh. skuli bera fram þá gagnrýni sem hann gerði hér því að hæstv. iðnrh. hafði rétt áður í þessari umræðu upplýst að hann hafði sjálfur, persónulega, samþykkt allar þær ráðstafanir sem Landsvirkjun hafði gert í þessu efni. Ásakanir hæstv. menntmrh. eru þess vegna ásakanir á iðnaðarráðherrann í ríkisstjórninni sem hann sjálfur situr í og lýsir það býsna vel því ástandi og því samkomulagi eða þeim skorti á samkomulagi, öllu heldur, sem er innan þessarar ríkisstjórnar í stefnumörkun í mjög viðamiklu máli. En aðalatriðið er þetta: Til þess að halda áfram eðlilegum og nauðsynlegum undirbúningi að þessari virkjun, sem er hagkvæmasti virkjunarkosturinn sem landsmenn eiga nú völ á þarf lagaheimildir. Landsvirkjun hefur óskað eftir þeim heimildum og það er ástæða til þess og nauðsynlegt að ítreka þessa spurningu til hæstv. iðnrh.: Hvað dvelur hann í því að færa hér inn á Alþingi frv. um heimild til þess að halda þessum undirbúningi áfram og ráðast í þessa virkjun? Hvað veldur því að sá seinagangur er af hans hálfu í því að bera málið hér inn á Alþingi?