Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þau skoðanaskipti sem hér hafa orðið sýna glöggt að það er þörf fyrir frekari umfjöllun Alþingis um virkjanamálin, og ég tek undir það. Sannleikurinn er sá og það er efniskjarni þessa máls að það er engin þörf fyrir nýjar stórvirkjanir á Íslandi fyrr en eftir árið 2015 nema til komi aukin stóriðja, aukin málmbræðsla í landinu, sem er nærtækasti og besti kostur eins og nú stendur á. Það er þetta sem menn þurfa að hafa fast fyrir sínum hugskotssjónum þegar þeir ræða virkjanamálin. Við virkjum ekki bara til að virkja.
    Ég tek það fram að ég hef í hyggju að leggja fram hér í þinginu, þegar efnisundirstaða er fengin, þáltill. um atvinnuuppbyggingu á grundvelli orkulindanna. Þá verður líka greint hver muni hagkvæmasta virkjanaröð eftir því sem menn nú sjá miðað við röð þeirra iðnaðaráforma og stærð sem þá virðast í sjónmáli. En fyrr en sú röð er þekkt er heldur ekki hægt að raða virkjunum. Það er heldur ekki hægt að segja nú hver er hagkvæmasti næsti kostur. Það er þess vegna sem ég hef dregið að leggja þetta fram í þinginu en það mun ekki dragast öllu lengur, og ég mótmæli því að í þessu máli hafi verið farið lengra en liggur í gerðum samþykktum þingsins.