Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að mér þótti gæta nokkurrar ónákvæmni í svari hæstv. iðnrh. þar sem ég skildi svo hans upphafsræðu að útboð hefði verið gert á vélum, lokað útboð til valinna fyrirtækja á vélabúnaði til Búrfellsvirkjunar, samkvæmt samþykkt stjórnar Landsvirkjunar. Ég kannast ekki við þessa stjórnarsamþykkt og hún mun ekki vera fyrir hendi. Þetta vil ég að komi hér fram.
    Hitt er svo annað mál að ég er ekki þar með að segja að það hafi verið óskynsamlega að verki staðið, að hefja undirbúning virkjunar við Búrfell. Það er tvímælalaust ódýrasti virkjunarkostur sem við eigum völ á, var reyndar ódýrasti virkjunarkostur allt frá 1980. Landsvirkjun starfar samkvæmt lögum um Landsvirkjun þannig að gjaldskrárhækkanir þurfa ekki að fara fyrir ríkisstjórn. Við breyttum hér lögum fyrir mörgum árum síðan, hæstv. menntmrh., þannig að Landsvirkjun þarf einungis að leita álits Þjóðhagsstofnunar á gjaldskrárbreytingum. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að það hafi verið röng ákvörðun, en það var ákvörðun Alþingis á sínum tíma.