Virkjun við Búrfell
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég fer fram á það við forseta og þingheim að ég fái að lesa upp þrjár línur til þess að svara hv. 1. þm. Norðurl. v. (Gripið fram í.) til að bera af mér sakir ef menn vilja kalla það svo. ( Forseti: Forseti fellst á það ef þetta eru einungis þrjár línur og leyfir hæstv. iðnrh. að bera af sér sakir.)
    Virðulegi forseti. Ég þakka tillitssemina. Ég sagði í svari mínu: Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt áætlanir og fjárveitingar til undirbúnings stækkunar Búrfellsvirkjunar. Það er rétt. Þær samþykktir hef ég séð og ekki gert athugasemdir við. Þær samþykktir hef ég líka kynnt í ríkisstjórninni. Landsvirkjun ákvað síðan að senda útboðsgögn í vélar og rafbúnað til valinna fyrirtækja.