Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Þeirri fsp. sem ég lagði hér fram hefur alls ekki verið svarað og ég vil mjög leita eftir því við forseta að málinu verði frestað og að landbrh. verði gefinn kostur á að svara fsp. Það er að sjálfsögðu alveg með öllu óþolandi og vanvirða við þingið að ráðherrar skuli koma upp með þeim hætti sem hér hefur verið gert og ekki síst þegar um það er að ræða að fsp. fjallar um og er tilkomin vegna sérstakra málefna ríkisstjórnarinnar.
    Nú vill svo til að það hafa fleiri spurst fyrir um þetta en ég. M.a. hefur viðskrn. gert það sjálft og vil ég nú biðja hæstv. fjmrh. að fylgjast með umræðunni. Í minnispunktum sem viðskrn. hefur lagt fram í fjvn. segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í frv. til fjárlaga vegna ársins 1989 var gert ráð fyrir sérstakri niðurgreiðslu á matvælum, óskiptri, að upphæð 120 millj. kr.`` Og svo segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Í frv. til fjárlaga vegna ársins 1990 er engin slík óskipt niðurgreiðsla. Þegar Fjárlaga- og hagsýslustofnun var tilkynnt að ráðuneytið óskaði eftir fjárhæð til þess að setja í söluaukandi aðgerðir var því svarað til að fjmrn. hefði ákveðið að Framleiðnisjóður landbúnaðarins mundi fjármagna slíkt á árinu 1990.``
    Viðskrn. fær þau svör hjá fjmrn. að Framleiðnisjóður eigi að fjármagna þessa niðurgreiðslu 600 tonna af dilkakjöti, og það muni kosta 150 millj. kr. Svo kemur hæstv. landbrh. hér og segir að hann skilji þessi mál bara allt öðruvísi, þó að flokksbróðir hans svari þriðja ráðherranum þannig að þessar greiðslur eigi að fara fram úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins að upphæð 150 millj. kr. til þess að ná umsömdu söluátaki á dilkakjöti á þessu ári.
    Ég ítreka ósk mína, virðulegi forseti, um að þessari fsp. verði svarað með skýrari hætti og ráðherra taki hana aftur með sér til baka upp í landbrn. og svari þannig að skiljanlegt sé hver skoðun ráðherrans á þessu máli er.