Sjúkrasamlög
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég held hins vegar að málið sé ekki eins langt komið og hæstv. ráðherra vill halda fram. Ég held að það séu ýmsir endar óhnýttir. Það er ljóst að nú er ekki fyrir hendi húsnæði til þess að flytja samlagið í Tryggingastofnun ríkisins og eftir því sem hæstv. ráðherra upplýsti sýnist mér að það eigi að fara að skipta upp stofnuninni og einhver hluti starfseminnar fari í Tryggingastofnunina en eitthvað verði eftir niðri í Tryggvagötu.
    Ég held að hér ættu menn aðeins að doka við. Stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur hefur sent okkur þingmönnum Reykjavíkur bréf þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í ljósi ofangreindra atriða [en þar er talað um áður nefnda tölvuvæðingu og fleira] fer stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur þess á leit við þingmenn Reykjavíkur að þeir beiti sér fyrir því að veittur verði frestur í eitt ár á gildistöku þessa þáttar umræddra laga þannig að Sjúkrasamlag Reykjavíkur verði rekið sem sjálfstætt útibú Tryggingastofnunar ríkisins í óbreyttu formi.``
    Hér hafa allir heimilislæknar sem vinna utan heilsugæslustöðva ritað bréf og í því segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í tilefni af væntanlegri breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga viljum við undirritaðir heimilislæknar í Reykjavík taka fram eftirfarandi:
    Við höfum um árabil átt gott samstarf við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Starfsfólk sjúkrasamlagsins hefur leyst vel og lipurlega úr þeim viðfangsefnum sem við höfum leitað til þess með. Jafnframt höfum við heyrt á samlagsmönnum okkar að þeir eru almennt mjög ánægðir með sjúkrasamlag sitt og persónulega þjónustu sem þar er veitt. Við teljum það Reykvíkingum til hagsbóta að áfram verði starfrækt umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins í núverandi húsnæði samlagsins að Tryggvagötu 28.``
    Og við sama tón kveður í sams konar áskorun frá öllum sérfræðingum sem hafa viðskipti við Sjúkrasamlag Reykjavíkur.
    Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann talar á sama hátt um þessa þjónustu utan Reykjavíkur og í Reykjavík. Sannleikurinn er bara sá að þarna er um tvennt ólíkt að ræða. Ég get fallist á og tel ekkert óeðlilegt við það að sjúkrasamlögin séu sett undir Tryggingastofnun ríkisins. En af hverju, og ég vil leyfa mér að spyrja, hæstv. forseti, af hverju má ekki Sjúkrasamlag Reykjavíkur vera þar sem það er sem umboðsskrifstofa Tryggingastofnunar ríkisins? Það kostar ekkert. Með því að fara að flytja stofnunina kemur auðvitað kostnaður sem við öll þekkjum, innréttingar á húsnæði og annað slíkt og það eru engin rök að ekki sé hægt að stjórna eða hafa yfirumsjón með starfseminni þó að umboðsskrifstofan sé þar sem hún er. Þess vegna vil ég biðja hæstv. ráðherra að hugsa þetta mál mjög vel áður en farið verður að setja allt á annan endann, kasta á glæ

miklum verðmætum og gera starfsfólkinu erfitt fyrir, svo vægt sé til orða tekið.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.