Sjúkrasamlög
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi, 13. þm. Reykv., hefur rakið í sínu máli er hér á ferðinni mál sem ýmsir hafa verulegar áhyggjur út af. Það fólk sem starfað hefur við Sjúkrasamlag Reykjavíkur hefur áhyggjur. Þeir læknar sem skipta hundruðum hér í Reykjavík og hafa haft samskipti við Sjúkrasamlag Reykjavíkur hafa áhyggjur og stór hluti borgarbúa sem hefur haft skipti við sjúkrasamlagið hefur áhyggjur, ekki síst vegna þess að öll samskipti bæði borgarbúa og lækna við sjúkrasamlagið eins og það hefur verið rekið á undanförnum árum hafa verið mjög góð. Menn horfa með nokkrum kvíða til þeirrar óvissu sem þarna kemur til með að verða. Þess vegna vil ég mjög eindregið taka undir þau orð hv. fyrirspyrjanda og fara þess á leit við hæstv. heilbrrh. að hann hugsi það mjög rækilega og taki það mál sérstaklega upp við stjórn Tryggingastofnunar ríkisins hvort ekki sé skynsamlegt að breyta frá fyrirhuguðum áætlunum og reka, a.m.k. fyrst um sinn í eitt ár meðan menn eru aðeins að huga sinn gang, þá sérstöku einingu sem verið hefur í Tryggvagötunni sem útibú frá Tryggingastofnuninni. Ég held að menn séu að kasta sér dálítið mikið út í óvissu þarna. Þarna eru vissulega verðmæti eins og hv. fyrirspyrjandi vakti athygli á, tölvukerfi og fleira sem væntanlega mun fara forgörðum og þess vegna beini ég þessu eindregið til hæstv. heilbrrh.