Sjúkrasamlög
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Aðeins þetta, hæstv. forseti, þar sem ég er með fleiri fsp. Það sem mér sýnist vera hér að er það að við undirbúning þessa máls, sem engan veginn er nógu langt kominn þegar tekið er tillit til þess að lögin taka gildi um áramót, hefur ekkert samstarf verið haft við það fólk sem best þekkir til þesara mála hér í Reykjavík. Og er þá alveg sama hvort um er að ræða starfsfólk sjúkrasamlagsins, heimilislækna í Reykjavík eða sérfræðinga. Þetta mál virðist eingöngu hafa verið undirbúið í heilbrrn. og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Ég minnist þess að þegar núv. hæstv. menntmrh. var heilbr.- og trmrh. kom það aldrei fyrir að breyting væri gerð á heilbrigðiskerfinu nema í það væru skipaðar nefndir sérfræðinga og fagmanna sem til þeirra mála þekkja. Það er ómögulegt að sjá af þeim málum sem hæstv. ráðherra ber nú fram, svo sem eins og breytingu á heilbrigðislögum, að nálægt þessu hafi komið menn sem þekkingu hafa á málinu.
    En ég læt þessu lokið, virðulegur forseti, vegna þess að við snúum okkur að sama máli í næstu spurningu.