Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Í framhaldi af umræddri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hef ég leyft mér að bera hér fram fsp. sem varðar starfskjör þeirra starfsmanna sem nú flytjast milli vinnuveitenda. Það hljóta að vakna spurningar um ýmislegt í því sambandi eins og hv. 3. þm. Vestf. virtist skilja hér áðan. Það hljóta að vakna spurningar um það hvernig áunnin laun og önnur starfskjör þeirra sem nú skipta um vinnuveitendur verða tryggð. Fólk sem hefur unnið á sama vinnustað í áratugi og með því hlotið umbun í launum og hvers kyns öðrum starfskjörum horfir nú fram á lækkun launa og rýrari starfsréttindi á nýjum vinnustað. Hingað til hefur það verið sjaldgæft að menn lækkuðu í launum eftir langa þjónustu í þágu hins opinbera, en þær raddir heyrast nú að svo kunni að fara um áramótin. Er vart að undra þó órói sæki að því fólki sem hér um ræðir eins og launakjör eru nú almennt í landinu um þessar mundir.
    Í raun og veru er hér hugsanlega um að ræða þrenns konar kjaraskerðingu: Lækkun launa, rýrari starfsréttindi sem unnist hafa í kjarasamningum og lakari lífeyrisréttindi. Svo að skýrt dæmi sé tekið um starfshóp sem til stendur nú að ráða til starfa í Tryggingastofnun ríkisins má nefna starfsfólk Sjúkrasamlags Reykjavíkur sem nú verður lagt niður. Þetta fólk sem margt hefur unnið í áratugi í sjúkrasamlaginu horfir nú til þess að lækka um nokkra launaflokka og ekki aðeins um fimm heldur upp í átta launaflokka. Síðan getur fólk misst ýmislegt sem áunnist hefur, eins og óunna yfirvinnu og fleira sem vinnuveitendur neyðast oft að bjóða fólki sínu til að halda í þjónustu sinni góðu starfsfólki þar sem laun fyrir dagvinnu eru ekki lífvænleg, því miður, í okkar landi.
    Það getur hver sagt sér sjálfur hvernig því fólki er innan brjósts um þessar mundir sem þessar þakkir fær fyrir langa þjónustu í þágu samfélagsins. Einhver kann að segja að enginn neyðist til að ráða sig í þjónustu Tryggingastofnunar, en slíkt er útúrsnúningur. Þessir starfsmenn kunna til verka á sínu sviði, vilja vinna þessi störf og eftir áratuga starf er ekki auðvelt að fá vinnu við allt önnur störf sem krefjast nýrrar starfsþjálfunar.
    Það er svo ekki erfitt að hugsa sér hvernig starfsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins muni koma til með að líka það að vinna e.t.v. við hlið fólks við svipuð störf sem hefði langtum hærri laun. Það er auðvitað hin hliðin á málinu.
    Virðulegi forseti. Ég skal mjög stytta mál mitt. En það eru ótal þættir sem hlýtur að verða að líta til sem áunnist hafa og eru breytilegir eftir kjarasamningum. Nægir að nefna veikindarétt, fæðingarorlof, orlof, orlofsheimilasjóð starfsmanna, starfsmenntunarsjóð og umsamda fasta yfirvinnu, jafnvel afnot af bifreið, vinnutímaákvæði o.fl., o.fl. Hvernig verður farið með þessi réttindi? Er þetta frágengið? Og loks má minna á að réttindi til lífeyris og lánakjara eru mjög ólík.

Loks væri ástæða til að spyrja hvort fólk sem hefur verið æviráðið hingað til missi nú æviráðningu sína.
    Ég held, virðulegur forseti, að þessum spurningum sé ekki svarað enn þá og eftir því sem mér hefur skilist hefur ekki allt of mikið samráð verið haft við stéttarfélögin varðandi þessi mál. Þess vegna hef ég leyft mér, hæstv. forseti, að bera fram fsp. á þskj. 155 sem er stutt og laggóð og er til hæstv. fjmrh.:
    ,,Hvernig verða starfskjör og réttindi þeirra tryggð sem flytjast milli ríkis og sveitarfélaga eftir að lög nr. 87/1989, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, taka gildi?``