Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram í umræðum er ljóst að þegar breytingar voru gerðar á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafði hvorki Alþingi né sveitarstjórnirnar hugað nægilega vel að fjölmörgum þáttum þessa máls. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þótt umræða um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafi staðið í mörg ár. Það er þess vegna ljóst að þeir ráðherrar, sem hafa á undanförnum mánuðum verið að vinna að framkvæmd þessara laga, hafa þurft að vinna upp verk sem eðlilegra hefði verið að bæði sveitarstjórnirnar sjálfar og hv. Alþingi hefðu hugað nægilega vel að og betur en gert var þegar lögin voru samþykkt.
    Það er t.d. mjög fróðlegt að fara í gegnum umræður hér á Alþingi um þetta mikilvæga mál. Þær voru miklar og langar, en í þeim er varla að finna nokkra tilvísun frá þingmönnum eða öðrum um það mikla vandaverk að flytja starfsfólk stofnana til þegar verið er að flytja stofnanirnar frá ríki til sveitarfélaga eða öfugt. Þess vegna ákvað fjmrn. á miðju sumri að fela Guðmundi Björnssyni, skrifstofustjóra í fjmrn., að sinna sérstaklega þessu verkefni og hefur hann nær eingöngu helgað sig því síðan á miðju sumri. Hann hefur átt fjölda viðræðufunda með forsvarsmönnum félaga opinberra starfsmanna og það hafa farið fram ítarlegar viðræður við forsvarsmenn opinberra starfsmanna og forsvarsmenn sveitarfélaganna um þetta efni.
    Ég hef því sem fjármálaráðherra, í samráði við BSRB, mótað ákveðnar reglur sem taka til þeirra sem flytjast til ríkisins og skal ég hér á örstuttum tíma rekja nokkrar þeirra.
    Í fyrsta lagi hvað snertir félagsaðild þessara starfsmanna. Þrátt fyrir þær breytingar sem lögin nr. 87/1989 fela í sér mun fjmrn. fyrir sitt leyti vinna að því að starfsmenn eigi þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi og þeir voru áður þótt þar sé um að ræða stéttarfélag starfsmanna sveitarstjórna.
Starfsmenn sem koma til starfa eftir 1. jan. 1990 skulu eiga val um hvort þeir óska að tilheyra hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða hvort þeir óska að tilheyra því félagi ríkisstarfsmanna sem ætti samkvæmt núgildandi lögum, nr. 94/1986, að hafa samningsumboð á þessu tiltekna sviði.
    Í öðru lagi hvað samningsréttinn snertir skuli hann vera áfram hjá viðkomandi starfsmannafélagi. Það hefur hins vegar verið lögð áhersla á það af hálfu fjmrn., í samræmi við samþykkt á fundi bæjarstarfsmanna frá 19. okt. sl., að víðtækt samflot starfsmannafélaganna náist við slíka samningagerð.
    Í þriðja lagi hvað snertir launakjörin hefur verið mótuð sú niðurstaða að starfsmenn þeirra stofnana sem lagðar verða niður -- og á það ber að leggja ríka áherslu að það er verið að leggja niður samkvæmt lögum frá Alþingi tilteknar stofnanir, sérstaklega er þar um að ræða sjúkrasamlögin --- verða ráðnir til ríkisins ef þeir kjósa svo. Þá gangi þeir í meginatriðum inn í þá kjarasamninga sem gilda á

hinum nýja vinnustað, þannig að starfsmennirnir hafa frjálst val um það hvort þeir vilja ganga inn á hinn nýja starfsvettvang og ganga þá inn í þá kjarasamninga sem þar eru gildandi.
    Hins vegar hjá stofnunum sem starfa óbreyttar áfram en færast að fullu til ríkisins skulu launakjör sem verið hafa bundin í kjarasamningum við hlutaðeigandi séttarfélag, þ.e. kjarasamningabundin kjör, haldast óbreytt hjá viðkomandi einstaklingi þar til um annað semst við það stéttarfélag sem fer með samningsumboð fyrir hann.
    Ég skal, virðulegur forseti, á örskömmum tíma nefna hér fáein önnur atriði. Hvað snertir starfsaldur verður allur sá starfsaldur sem viðurkenndur hefur verið af sveitarfélögunum eða af stofnunum í samrekstri ríkis og sveitarfélaga fluttur óbreyttur með einstaklingum yfir til ríkisins. Sama gildir um þjónustualdur og það sem honum tengist. Fjmrn. mun ábyrgjast áunninn orlofsrétt frá 1. maí til 31. des. 1989. Hins vegar er ljóst að lífeyrissjóðamálin eru nokkuð flókin í þessum efnum og verið er að vinna að niðurstöðu í því máli. Markmið ráðuneytisins er að tryggja að réttur einstaklinganna sem færast til verði ekki fyrir borð borinn, þannig að flutningur þeirra yfir á nýjan starfsvettvang muni ekki hafa neikvæð áhrif á lífeyrisréttindi þeirra.
    Virðulegi forseti. Hér er um flókið mál að ræða en ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir þeim meginniðurstöðum sem náðst hafa í viðræðum fjmrn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þetta efni.