Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þetta mál er í reynd mjög einfalt. Annars vegar tók Alþingi ákvörðun um það að flytja stofnanir frá sveitarfélögum til ríkisins. Það er alveg ljóst að það fólk sem starfar við þessar stofnanir lækkar ekki neitt í launum. Það er alveg ljóst, það lækkar ekki neitt í launum. Þótt fólk sem áður starfaði við stofnanir á vegum sveitarfélaga starfi áfram á þeim vettvangi þegar þær stofnanir eru fluttar í heild sinni yfir til ríkisins breytast launakjörin ekkert.
    Í öðru lagi, og mér finnst nokkuð skorta á að hv. alþingismönnum sé það ljóst hér í umræðunni, tók hæstv. Alþingi ákvörðun um að leggja stofnanir niður. Það var hæstv. Alþingi sem tók ákvarðanir um að leggja þessar stofnanir niður. Þær eiga ekki að vera lengur til. Og hæstv. Alþingi setti engin tryggingarákvæði um það hvað ætti að verða um starfsfólk stofnana sem hæstv. Alþingi ákvað að leggja niður. Það er þess vegna hæstv. Alþingi sem hefur ákveðið það að starfsvettvangur þessa fólks verði ekki lengur til eftir næstu áramót. Það eru ekki ráðuneytin eða ráðherrarnir. Það er hæstv. Alþingi sem hefur ákveðið það. Hins vegar hefur af hálfu ráðuneytisins verið tekin ákvörðun um það að bjóða starfsfólki þeirra stofnana sem Alþingi hefur ákveðið að verði ekki lengur til 1. jan. störf inni í öðrum ríkisstofnunum. Og þá vona ég að hv. alþm. skilji það að þá hljóta að gilda þeir kjarasamningar sem samið hefur verið um í þeim ríkisstofnunum. Annað væri varla sanngjarnt gagnvart því starfsfólki sem þar hefur starfað árum og áratugum saman.
    Ég bið þess vegna hv. alþingismenn að gera sér skýra grein fyrir þessum mun sem annars vegar er á stofnunum sem starfa áfram, hafa ekki verið lagðar niður, þar verður engin lækkun launa hjá fólki, og svo hins vegar stofnunum sem Alþingi hefur ákveðið að starfi ekki lengur.
    Vandinn við sjúkrasamlögin er sá að starfsmannaskipan þeirra hefur verið með mjög mismunandi hætti. Starfsmenn sjúkrasamlaga hafa ýmist verið ríkisstarfsmenn, starfsmenn sveitarfélaga eða starfsmenn viðkomandi sjúkrasamlaga. Og það er alveg greinilegt að það hafa þróast mismunandi reglur, mismunandi venjur og mismunandi sjónarmið á þessum vettvangi vegna þess að ekki hefur verið um að ræða neinn einn sérstakan kjarasamning fyrir starfsfólk sjúkrasamlaga í landinu. Öll þessi sjúkrasamlög verða lögð niður. Sú ákvörðun sem ráðuneytin hafa tekið er að bjóða starfsfólki sjúkrasamlaganna störf á vettvangi ríkisins, bjóða full biðlaun á þeim launum sem fólkið hefur haft ef það kýs að fara inn á annan starfsvettvang, en ráðuneytin geta ekki breytt þeirri ákvörðun hæstv. Alþingis að stofnanir þar sem þetta fólk hefur starfað áratugum saman verði ekki lengur til um næstu áramót.