Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Hv. 13. þm. Reykv. er satt að segja steinhissa. Það hefur ekkert verið lagt niður. Menn hafa lagt niður stofnanir, en menn hafa ekki lagt niður störf. Þetta fólk heldur áfram að vinna sömu störf og það hefur unnið og fyrir það á það auðvitað að fá þau laun sem það hefur áunnið sér. Það er ekkert sem Alþingi ákveður. Það er bara mesti misskilningur. Það sem stjórnvöld þurfa að gera, séu þau vinveitt landsmönnum og launþegum í þessu landi, er að semja um þessa hluti til að tryggja rétt þessa fólks sem hefur ekkert fyrir sér gert annað en að verða fyrir því að við höfum ákveðið að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það hefur aldrei nokkur einasti alþingismaður jafnframt tekið ákvörðun um það að fólk lækki í launum. Þetta er bara fjarstæða.
    Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka þessi mál grafalvarlega og setjast nú þegar niður og reyna að leysa þetta því að ég held að ég þori alveg að fullvissa menn um að þessu verður ekki unað. Og það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að vita hverjir verða harðast úti. Það verða að sjálfsögðu konurnar. Það verður fundin einhver leið til að tryggja það að karlmennirnir haldi sínum launum og einhverra leiða leitað. En trú mín er sú að menn hafi minni áhyggjur af því þótt konurnar missi frá einum og upp í átta launaflokka, ef það er ekki meira. Og ég bið menn að hugsa þetta mál mjög vel og vandlega og ekki bera það á alþingismenn að við höfum samþykkt annað eins og þetta.