Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Ég er undrandi á viðhorfum hæstv. fjmrh., og raunar er ég meira og líka undrandi á viðbrögðum ýmissa annarra ráðherra í hæstv. ríkisstjórn þegar talað er um launamál. Það kann vel að vera að í þessu tilviki hafi ekki verið skoðuð sérstaklega þessi áhrif við lagasetninguna. Það er nú einu sinni svo að ríkisstjórnir, hverjar sem þær eru, reka svo á eftir málum hér á Alþingi á vissum tímabilum að nánast enginn þingmaður fær tíma til þess að skoða þau. Og í þessu tilviki langar mig til að minna á eitt stóra málið sem hér á að fara að keyra í gegn sem er virðisaukaskatturinn. Ætli menn séu búnir að skoða hann til hlítar og hvað hann kann að leiða af sér? Ég bið menn að vera ekki að egna launafólk að óþörfu gegn ríkisstjórn. Nógu slæma útreið hefur hún fengið í augum almennings í landinu, æðilengi, og ég hygg að það sé ekki rétt af hæstv. ráðherrum að egna frekar til upphlaupa því að enginn efast um að fari mál svona fram verður því harðlega mótmælt og það fara í hönd kjarasamningar við komandi áramót.