Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leiðrétta þann misskilning sem hér hefur komið fram að ekki hafi verið haft samráð við forsvarsmenn viðkomandi starfsmanna í þessum málum. Það hafa farið fram ítarlegar viðræður á undanförnum mánuðum við forustu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og forustu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja til þess að fjalla um þessi mál. Í lok síðustu viku átti ég fund með formanni Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og formanni BSRB þar sem við fórum yfir samkomulag og sameiginlegan skilning sem varð niðurstaða þessara viðræðna og ég staðfesti það svo með bréfi sem ég undirritaði og sendi forustu BSRB og Starfsmannafélagi ríkisstofnana fyrir síðustu helgi. Mér vitanlega hefur ekki verið neinn ágreiningur milli ráðuneytisins og forustu Starfsmannafélags ríkisstofnana eða forustu BSRB um þessi efnisatriði, heldur þvert á móti. Á þessum fundi sem ég átti með þeim kom fram mjög skýrt að þeir staðfestu þetta sem sameiginlega niðurstöðu þessara viðræðna.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram vegna þess að nokkrum sinnum hefur borið á því í umræðunni að menn hafi talið að þetta verk hafi ekki verið unnið í samráði við viðkomandi stéttarfélög.