Heilsugæslustöðvar í Reykjavík
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. enn svör hans. En sannleikurinn er nú sá að það er ekki fyrr en rétt nýlega sem upplýsingar um fjárþörf hafa legið fyrir, enda, eins og hæstv. ráðherra minntist á, munaði þar verulega í áætlunum þegar loksins var leitað til þeirra sem um málið vissu.
    Síðan fsp. mín var lögð fram hefur komið fram, eins og ég sagði áðan, frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og af því að ráðherra kom sjálfur inn á áætlun um 13 heilsugæslustöðvar í Reykjavík sem ég hef þegar rekið augun í er mér t.d. fullkunnugt um að ekkert samráð um þá áætlun hefur verið haft við heimilislækna í Reykjavík. Ég leyfi mér að fullyrða að það er engin þörf fyrir 13 heilsugæslustöðvar í Reykjavík og ég mun berjast gegn því þegar málið kemur niður í hv. Nd.
    Ég held að líta verði mjög vandlega á þetta að nýju vegna þess að það er tvennt ólíkt að skipuleggja heilsugæsluþjónustu í Reykjavík og að skipuleggja hana utan þéttbýlissvæðisins. Það var mikil framför og stórkostlegt átak þegar heilsugæslustöðvarnar voru skipulagðar í tíð fyrrv. hæstv. heilbrrh. Magnúsar Kjartanssonar og gjörbreytti allri heilbrigðisþjónustu í landinu. En það eru einfaldlega allt aðrar forsendur hér á þéttbýlissvæðinu og óþarfi að gera hana meira og dýrara bákn en nauðsyn krefur.
    Ég vil því biðja hæstv. heilbrrh. að eiga nú sem allra fyrst fundi með þjónandi læknum í Reykjavík og leita ráða hjá þeim hvernig skuli unnið að þessari uppbyggingu. Við erum ekki að deila um það að ríkið beri kostnaðinn, það er ekki ágreiningsefni okkar, heldur að ekki sé eytt meira fé í þessa uppbyggingu en þörf krefur og umfram allt að leitað sé ráða hjá þeim sem til málanna þekkja þannig að íbúar Reykjavíkurborgar njóti þeirrar allra bestu þjónustu sem völ er á.
    Ég vænti þess að það sé rétt sem hæstv. ráðherra segir að nú liggi fyrir raunhæf fjárþörf heilsugæslunnar í Reykjavík. Ég á hins vegar dálítið erfitt með að skilja þetta vandamál með stjórnirnar vegna þess að þó að heilsugæslustöð starfi í tengslum við sjúkrahús starfar hún í raun og veru meira og minna alveg sjálfstætt og hefur sjálfstæðan rekstur, þannig að ég held að það þyrfti nú ekki að vera mikið ágreiningsefni hvernig stjórnin yrði skipuð og létt verk að breyta því.
    En í lok allrar þessarar umræðu um þennan þátt verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, og nú skal ég ljúka máli mínu, hæstv. forseti, er ég hrædd um að þetta sé bara byrjunin á vandanum. Það er augljóst að það var ekki nægur tími til að undirbúa það að þessi lög taki gildi ætli menn að keyra þetta í gang núna um áramótin. Og það er alveg hárrétt sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að þetta var keyrt með slíku offorsi í gegnum þingið, og sakna ég nú vinar í stað, hæstv. félmrh., sem lagði mikla áherslu á að þessi lög tækju gildi þó að auðvitað væri séð fyrir að þetta mundi skapa gríðarlegan vanda þegar þessi stutti

tími var til stefnu til að koma málum í lag.
    Ég þakka hæstv. heilbrrh. og raunar hæstv. fjmrh. fyrir svör við þessum spurningum, en ég hygg að þau svör kalli einfaldlega einungis á fleiri spurningar.