Happdrætti Háskóla Íslands
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vildi gera örstutta athugasemd og taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan. Ég tel það mjög ánægjulegt að samkomulag hafi tekist milli Háskólans og menntmrn. varðandi þetta mál. Mér finnst mjög mikilvægt að Háskólinn hafi yfirráð yfir sjálfsaflafé sínu og tel raunar ekki nokkurn vafa á því að ríkisstjórninni er óheimilt að seilast þannig í vasa Háskólans. Burtséð frá því hvernig lagatúlkanir eru í þessu máli þá tel ég siðferðilega óverjandi að fjmrn. geti farið að eins og ætlunin var í fjárlagafrv. og vil bara endurtaka það að ég er mjög ánægð með að þarna hafi tekist samkomulag milli menntmrn. og Háskóla Íslands að því er þetta mál varðar.