Glasafrjóvganir á Landspítalanum
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Fyrirspyrjandi hefur hér borið fram fsp. sem varðar fyrirhugaðar glasafrjóvganir og gert grein fyrir fsp. sinni sem er í fjórum liðum.
    Fyrsti liðurinn er svohljóðandi:
    ,,Hvenær er áætlað að fyrstu glasafrjóvganirnar verði framkvæmdar hér á landi og hve langt á veg er undirbúningurinn vegna þeirra kominn?``
    Þegar ljóst var að heimildir fengjust í fjárlögum ársins 1990, skv. fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir, til þess að hefja glasafrjóvgun á Landspítalanum hefur Kvennadeild Landspítalans unnið að málinu. Er þar gert ráð fyrir að glasafrjóvganir geti hafist fyrri hluta næsta árs, ársins 1990, sennilega í apríl eða maí. Takist ekki að hefja þær svo snemma verður það ekki fyrr en að loknum sumarleyfum eða í ágúst--september á næsta ári. Þess má vænta að um 40--50 konur geti komist í meðferð á Landspítalanum á næsta ári.
    Annar liður fsp. var:
    ,,Hvaða fagaðilar verða ráðnir til starfa við Landspítalann vegna glasafrjóvgana?``
    Það er gert ráð fyrir því að þar starfi sérmenntaður læknir í 0,75 stöðu, líffræðingur með sérmenntun í frumulíffræði í fullri stöðu, hjúkrunarfræðingur sem hefur umsjón með daglegum rekstri starfsins, einnig í fullri stöðu og meinatæknir í hálfri stöðu. Þetta eru líklega 3,25 stöður eða þrjár stöður og einn fjórði hluti úr einni, þannig að það ætti alla vega að vera svigrúm fyrir þetta í þeim tillögum sem liggja fyrir í fjárlagafrv.
    Þriðji liðurinn var: ,,Má búast við að Tryggingastofnun ríkisins hætti greiðslum til þeirra kvenna sem kjósa að fara utan í glasafrjóvgun í stað þess að þiggja hana hér, og ef svo verður, hvenær?``
    Tryggingastofnun ríkisins gerði samning við Bourn Hall Clinic í Englandi hinn 1. jan. 1988 til þriggja ára, þannig að sá samningur er í gildi út næsta ár. Svo sem fyrr sagði getur starfsemin á Landspítalanum hafist næsta vor hugsanlega, eða síðsumars 1990, og er því eðlilegt að samningurinn við Englendingana verði notaður á næsta ári með svipuðu sniði og verið hefur fram til þessa. Það þarf að taka afstöðu til þess á næsta ári hvort reynt verður eða hvort ástæða er til að framlengja þann samning og þá í ljósi þess hvernig starfsemin fer af stað hér og hvernig hún muni ganga.
    Það er alveg ljóst að þær konur sem hafa byrjað meðferð í Englandi munu halda henni áfram þar þannig að meðferðinni ljúki á þeim stað sem hún hófst.
    4. liður fsp. var: ,,Verður tilkoma glasafrjóvgana hér á landi til þess að konur þurfi að bera einhvern hluta af kostnaði við meðferðina?``
    Það er gert ráð fyrir því að meginhluti þessarar meðferðar fari fram á göngudeild og er þar gert ráð fyrir að konur greiði venjulegt göngudeildargjald sem gæti orðið allt að 15 skiptum vegna þeirrar meðferðar en göngudeildargjald er nú 630 kr. Til samanburðar má geta þess að hjón þurfa nú að borga ferðakostnað

til Bretlands, uppihald þar og kostnað vegna túlks ef með þarf, því að ekkert af þessu borgar Tryggingastofnun ríkisins eins og nú er. Hún borgar hins vegar meðferðina alveg og dvöl á stofnun eftir því sem þarf. Mismunurinn er sem sagt sá að einstaklingar sem núna nota sér þessa þjónustu og fá heimildir til þess að fara erlendis þurfa að borga þennan ferðakostnað og aukakostnað en fá hina faglegu meðferð sér að kostnaðarlausu. En ef þetta verður rekið hér heima á næsta ári, þá spara menn sér auðvitað allan þennan ferðakostnað og alla þá fyrirhöfn, en greiða svokallað göngudeildargjald.