Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár til að ræða olíuleka frá olíubirgðastöð ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli. Fréttir af þessu slysi hafa verið plássfrekar í fjölmiðlum sl. daga og ekki að ástæðulausu.
    Það virðist hafa verið tilviljun ein sem varð til þess að upp komst um lekann þriðjudaginn 14. nóv. En ástæða er til að ætla að allt frá því að olían var sett á tankana 1. eða 2. nóv. sl. hafi lekið.
    Fimmtudaginn 16. nóv. var Siglingamálastofnun og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja tilkynnt um slysið. 17. nóv. fóru svo menn frá þessum aðilum vestur til að kanna þá mengun sem orðin var vegna lekans og þá fyrst, þrem dögum eftir að upp komst um slysið, var bæjarstjóranum í Bolungarvík gert viðvart. Sl. mánudag fékk síðan bæjarstjórn Bolungarvíkur bréf frá utanrrn. þar sem stóð, með leyfi forseta:
    ,,Athugun hefur leitt í ljós að engin jarðvegsmengun hefur átt sér stað í kringum stöðina sjálfa.``
    Í bréfinu var þess einnig getið að við athugun úr lofti og af sjó hafi mælst um það bil 190 hektara olíuflekkur út af Stigahlíð. Siglingamálastofnun mældi olíuflekkinn í lok sl. viku, líklegast á föstudaginn, og þá reyndist hann vera um 9 hektarar. Hér munar verulegu og bið ég hæstv. utanrrh., og þá e.t.v. með hjálp hæstv. samgrh. að gera grein fyrir þessum mun. Þess má geta að það magn sem talið er að hafi lekið alls úr geymunum gæti fræðilega dreifst mest á um 200 hektara svæði að því tilskildu að sjórinn væri sléttur og algjört logn, en það mundi þá merkja að ekki hefði dropi farið inn í bergið.
    Það skal viðurkennt að að mér læðist sá grunur að utanrrn. hafi þekkt fræðilegu möguleikana á því hver flekkurinn gæti stærstur orðið. Ég tel fráleitt að um prentvillu hafi verið að ræða í bréfi varnarmálaskrifstofu, enda hafa fjölmiðlar birt hærri töluna, 190 hektara, án athugasemda frá utanrrn.
    Reyndar hafa tölur um það magn sem talið er að hafi farið úr tönkunum farið vaxandi frá degi til dags. Fyrst var talið að hér væri um 16.800 lítra að ræða, þá 18.000, síðan 20.000 og 22.000, en í gær fékk ég þær upplýsingar hjá Siglingamálastofnun að magnið hefði líklegast verið um 25.500 lítrar. Hvernig stendur á því að ekki var hægt að meta lekann strax í byrjun? Þessari spurningu hlýt ég að beina til samgrh. þar sem það er í verkahring Siglingamálastofnunar að meta magnið.
    Þá hefur komið í ljós að nokkuð er um olíupolla uppi á Bolafjalli þrátt fyrir tilvitnaðar athugasemdir í bréfi utanrrn. til bæjarstjórnar. Og þar sem efstu jarðlög eru gljúp má búast við því að eitthvað hafi seytlað niður í bergið. Komið hefur fram að Siglingamálastofnun hefur ekki fengið til athugunar teikningar af olíubirgðastöðvum við ratsjárstöðvarnar eins og lög gera ráð fyrir. Hvernig má standa á því? Sérstaklega þegar það er haft í huga að við hönnun og byggingu slíkra mannvirkja í Helguvík var náið

samstarf á milli byggingaraðila og Siglingamálastofnunar. (Forseti hringir.) --- Ég er rétt að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. --- Varnarliðinu hefði því átt að vera vel kunnugt um þessi lög. Og þó svo væri ekki, eins og gefið hefur verið í skyn, þá vita starfsmenn varnarmálaskrifstofu af lögunum.
    Þá hefur einnig komið í ljós að varnarmálanefnd var ekki kunnugt umn að olía hefði verið flutt á fjallið. Hvernig er háttað samstarfi þeirrar skrifstofu, varnarmálaskrifstofu og varnarliðsins, fyrst atburður sem þessi getur átt sér stað? Hver er ábyrgur fyrir lekanum og hvernig stóð á því að réttum aðilum var ekki strax tilkynnt um hann eins og lög gera ráð fyrir? Hvað hyggst hæstv. utanrrh. gera vegna þessa máls og hvað finnst hæstv. samgrh. um þetta? Er hann sáttur við þær boðleiðir sem virðast vera á milli aðila vegna þessara framkvæmda varnarliðsins?
    Í Þjóðviljanum í gær er haft eftir Gunnari Ágústssyni hjá Siglingamálastofnun að þrátt fyrir lög hafi stofnunin aldrei, nema í Helguvík, fengið að yfirfara mannvirki Bandaríkjahers með tilliti til mengunarvarna. Hvað hyggst hæstv. samgrh. gera í því ef rétt er?