Olíuleki frá birgðastöð á Bolafjalli
Fimmtudaginn 23. nóvember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði að óska eftir utandagskrárumræðu í gærdag þegar ég frétti að það hefði verið búið að biðja um það svo að ég vil aðeins ítreka þakkir mínar til málshefjanda fyrir að biðja um þær umræður. Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál sem gera verður allar hugsanlegar ráðstafanir til að ekki komi fyrir aftur með einhverjum hætti.
    Sem betur fer er talið að vatnsból Bolungarvíkurkaupstaðar hafi sloppið þó engan veginn sé víst að það sé að öllu leyti. Ég tel að hér sé um mjög vítavert kæruleysi að ræða sem átt hefur sér stað og tek alveg undir það sem fram kom í máli hæstv. samgrh. og sömuleiðis vil ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög skýra og greinargóða skýrslu á þessu stigi málsins, en hún felur í sér atburðaröð, olíukerfið, olíulekann og stöðu málsins nú. Hún er að vísu ekki til loka leidd vegna atburða málsins og þess sem á eftir kann að koma og ég verð að treysta því að hæstv. utanrrh. og hæstv. samgrh. fylgi þessu máli mjög ítarlega eftir.
    Það er nauðsynlegt að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að vernda vatnsból kaupstaðarins sem og við önnur hliðstæð mannvirki eins og hæstv. samgrh. gat um. Hitt er óskiljanlegt hvernig á því stendur að aðili lætur flytja allt þetta magn af olíu áður en afhending stöðvarinnar fer fram og það er líka óskiljanlegt að það skuli gleymast að skrúfa fyrir krana sem veldur því, að mér sýnist, að lekinn á sér stað. Allt þetta þarf frekari rannsóknar við til þess að varpa skýru ljósi á það sem gerst hefur. En höfuðatriðið er eftir því sem nú standa mál að slíkt slys sem þetta endurtaki sig ekki.