Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vil, eins og þeir tveir sem hér hafa talað á undan mér, fagna því að samningar hafa tekist við Sovétríkin um sölu á síld. Ég lýsi hins vegar furðu minni á því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. þegar hann deilir á stjórnvöld í þessu sambandi og telur að stjórnvöld hafi stofnað þessari samningagerð í hættu. Verkin tala, samningurinn hefur tekist og það er sú staðreynd sem við blasir.
    Ég vil einnig benda á það að þessi samningur var í raun gerður löngu áður en samningur um olíu var gerður. Hann fór þá til æðstu stjórnar Sovétríkjanna, með tilmælum frá íslenskum stjórnvöldum, og hefur verið þar til meðferðar síðan. Ég vísa því algerlega á bug að íslensk stjórnvöld hafi gert nokkuð sem stofnaði þessum samningi í hættu. Þvert á móti kom fram hjá íslenskum stjórnvöldum mjög mikil áhersla eftir öllum hugsanlegum leiðum á það að samningurinn tækist.
    Ég vil í upphafi míns máls um þá miklu vinnu sem fram hefur farið undir forustu okkar Íslendinga til undirbúnings samningsviðræðna við Evrópubandalagið taka það fram að þingflokkur framsóknarmanna telur að við eigum að ganga til þessara viðræðna á grundvelli þeirrar vinnu. En að sjálfsögðu eigum við ætíð að halda fram þeim sérhagsmunamálum svo sem gert hefur verið á öllum stigum þessarar vinnu, hvort sem menn vilja kalla það fyrirvara eða sérhagsmuni okkar Íslendinga, en ég kem að því nánar síðar. Áður en ég rökstyð þessa niðurstöðu nánar vil ég ræða um þær hugmyndir sem heyrst hafa, annars vegar um fulla aðild að Evrópubandalaginu, sem ég fagna að kom ekki fram hjá síðasta hv. ræðumanni, og hins vegar það sem samtök fiskvinnslumanna leggja nú áherslu á, að leita fremur eða a.m.k. samhliða eftir sérsamningi um sölu á sjávarafurðum, þ.e. um útvíkkun á þeim samningi sem við höfum nú og venjulega er vísað til sem bókunar 6. Ég held að þeir, sem lýsa áhuga á fullri aðild eða telja að rétta leiðin sé að sækja um fulla aðild og leita eftir þeirri leið að sérstakri undanþágu fyrir okkur Íslendinga, þekki ekki grundvallaratriði Evrópubandalagsins. Þar gildir svonefndur Rómarsáttmáli sem í raun er stjórnarskrá bandalagsins og verður ekki vikið frá nema öll aðildarríkin samþykki. Það hefur komið fram afar greinilega í öllum þeim viðræðum sem ég og ýmsir fleiri íslenskir ráðherrar hafa átt við forustumenn bandalagsins að í raun sé varla um að ræða undanþágu frá neinum ákvæðum Rómarsáttmálans. Í mesta lagi geti það orðið aðlögunartími. Eins og kemur m.a. fram í skýrslu þingmannanefndarinnar um sjávarútvegsmál innan Evrópubandalagsins er eitt af grundvallaratriðum Rómarsáttmálans að móta skuli sameiginlega sjávarútvegsstefnu og það er á grundvelli þess atriðis sem árið 1970 var ákveðin sú stefna af framkvæmdastjórninni í Brussel að aðgangur allra aðildarríkja Evrópubandalagsins skuli vera jafn að auðlindum sjávar.
    Í þeim viðræðum sem ég hef átt við ýmsa af

þessum forustumönnum hefur greinilega komið fram að þeir hafi ekki heimild til þess að breyta út af þessari stefnu. Ég tel því í raun að hér sé full samstaða um það innan Alþingis, og ég fagna því alveg sérstaklega, að ekki skuli leitað fullrar aðildar að Evrópubandalaginu. Ég tel að við séum sammála um að slíkt samræmist ekki þeim eindregna vilja Alþingis að við afsölum okkur ekki yfirráðum yfir þeim náttúruauðlindum sem liggja til grundvallar okkar sjálfstæði, fyrst og fremst sjávarútveginum og sömuleiðis nýtingu orkulinda landsins. Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með þetta. Ég tel að það sé afar nauðsynlegt að kynna þessi sjónarmið betur almenningi en gert hefur verið því mér virðist sem nokkur misskilningur komi fram, t.d. í skoðanakönnunum, á þessum möguleika um fulla aðild að Evrópubandalaginu. Það kemur mjög réttilega fram í skýrslu þingmannanefndarinnar að sjávarútvegurinn vegur að sjálfsögðu miklu meira hér hjá okkur Íslendingum en öðrum þjóðum í Evrópu. Það er rétt sem síðasti hv. ræðumaður sagði að útflutningur t.d. Norðmanna á sjávarafurðum 1988 var um 6,5% þeirra útflutnings en okkar 75%. Innan landa Evrópubandalagsins er sjávarútvegur sem hlutfall af þjóðartekjum hvergi yfir, ef ég man rétt, 1,58% en okkar nálægt 20%. Svo þetta ákvæði, sameiginleg stjórn þessara náttúruauðlinda, þýðir vitanlega ekkert annað en afsal sjálfstæðis þessarar þjóðar.
    Um hitt atriðið sem mjög hefur komið fram upp á síðkastið, að leita sérstakra samninga um útvíkkun á bókun 6, vil ég segja þetta. Það er alrangt hjá síðasta hv. ræðumanni að þessa hafi ekki verið leitað. Ég veit að hv. þm. þekkir það. Við sátum saman í ríkisstjórn þegar ég fór til Brussel í des. 1987, sérstaklega til að kanna hvort slíkir samningar kæmu til greina. Ég átti þá viðræður við de Clercq, sem var eins konar utanrríkisráðherra framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, og sömuleiðis við þann mann sem fór með sjávarútvegsmálin. Það kom mjög greinilega fram hjá þessum mönnum að fyrst yrðum við, eins og de Clercq reyndar sagði, að fá fullt frelsi með fisk innan EFTA, Fríverslunarbandalagsins áður en við gætum gert okkur vonir um að fá útvíkkun á bókun 6. Sömuleiðis kom mjög greinilega fram hjá þessum
embættismönnum að til þess að fá útvíkkun á bókun 6 og þá með tilvísun til þeirrar stefnu sem hafði verið mörkuð 1970 og byggð, eins og ég sagði áðan, á grundvallaratriðum Rómarsáttmálans yrði öll slík útvíkkun að fara fyrir öll aðildarríkin og fá þar samþykki sem þessir menn sögðu og ég veit að síðar embættismenn sem þar hefur verið talað við hafa lagt mjög ríka áherslu á að yrði að gerast og töldu vonlaust að slíkt gæti gerst og vísuðu reyndar á bug vilja til slíkra viðræðna og lögðu áherslu á þá þegar, eins og kom fram á fjölmörgum sameiginlegum fundum bæði utanrrh. og fleiri forustumanna EFTA og EB, að leggja bæri áherslu á sameiginlegar viðræður hvorra tveggja samtakanna. Ég hef sannarlega ekki á móti því að enn verði látið á það reyna hvort slíkar

viðræður geti hafist. Ég hef ekki á móti því. Það er sjálfsagt að verða við því.
    Nú er það staðreynd að fulltrúar sjávarútvegs hér hafa tekið þátt í miklu af þessum viðræðum og þekkja þær mjög vel, en það er sjálfsagt að reyna enn einu sinni. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það ætti þá að kanna það í viðræðum við stjórnmálalega leiðtoga Evrópubandalagsins. Það hefur reyndar verið gert. Síðast á fundi með Mitterand hér á Íslandi fyrir nokkrum dögum var m.a. rætt um sérstöðu Íslands og henni mjög ítarlega lýst. Þá kom fram hjá Frakklandsforseta mikill vilji til þess að taka tillit til sérstöðu Íslands, en hann tók líka fram að slíkir sérsamningar yrðu að fylgja í kjölfar samninga EFTA og EB. Hann sagði reyndar að í kjölfar slíkra samninga og þegar ekki væri um fulla aðild að ræða kæmu vissulega ýmsar undantekningar til greina. Sama kom fram á fundi sem ég átti með forsætisráðherra Bretlands og reyndar einnig á fundi sem ég átti ásamt forseta Íslands með kanslara Þýskalands, Kohl. Ég get því ekki skilið orð þessara manna öðruvísi en svo að þeir séu að vísu mjög skilningsgóðir á okkar sérstöðu en leggi alla áherslu á að viðræður og hugsanlegir samningar við EFTA komi fyrst og hitt komi á eftir. Engu að síður segi ég að það er sjálfsagt að athuga hvort ná megi samhliða EFTA-samningum viðræðu við EB um tilslökun á 6. greininni. Ég lýsti hér áðan þeirri skoðun þingflokks framsóknarmanna að ganga ætti til þessara viðræðna og utanríkisráðherra eigi á fundinum 19. des. nk. að samþykkja að viðræðurnar hefjist.
    Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að þessar viðræður verði í raun tvíþættar. Það er gert ráð fyrir því að fyrst hefjist eins konar undirbúningsfundir sem geti jafnvel tekið nokkra mánuði og þeir verði áður en ákveðið verður að ganga til formlegra samninga milli EFTA og EB. Menn verða að gæta að því að þær viðræður sem hingað til hafa farið fram hafa fyrst og fremst verið í höndum embættismanna og það eru ýmsar pólitískar spurningar sem eftir er að fjalla um.
    Ég tek það fram og tek undir það sem hefur verið sagt um ágæta frammistöðu okkar Íslendinga í þessum viðræðum. Reyndar fannst mér þó einkennilegt að hv. síðasti ræðumaður undanskildi íslenska utanríkisráðherrann í sínum þökkum því að ég verð mjög mikið var við það, t.d. á fundi sem ég sat fyrir örfáum dögum um þessi mál, að talið er að mjög vel hafi verið á þessum málum haldið, bæði af hálfu íslenskra embættismanna og pólitískt af hálfu utanrrh. Og mér sýnist nú að viðurkenna megi það sem vel er gert.
    Hér var sagt áðan að við Íslendingar ættum ekki, eins og ég skildi hv. þm., að vera með sérstaka fyrirvara og vísað m.a. í umræður sem um það fóru fram eftir leiðtogafundinn í Osló. Ég vil, með leyfi forseta, lesa nokkur orð úr ræðu þeirri sem ég flutti þá. Eftir að ég hafði rakið nauðsyn þess að við Íslendingar hefðum full yfirráð yfir okkar sjávarútvegi, okkar orkulindum, og að það væri grundvöllur að

okkar sjálfstæði, þá segi ég:
    ,,Með þetta í huga verð ég að leggja áherslu á að af Íslands hálfu á fyllsta mögulega framkvæmd samstarfsins fyrst og fremst við frjálsa verslun með varning. Hins vegar verðum við að hafa fyrirvara hvað varðar frelsi á sviði fjármagnsflutninga, þjónustu og fólksflutninga. Hið litla og viðkvæma íslenska peningakerfi verður að styrkja og gera virkara en það er nú áður en unnt er að samþykkja fullt frelsi fjármagnsflutninga. Hið sama á við um frelsi á sviði þjónustu- og vinnuaflsflutninga. Við erum að sjálfsögðu fúsir að kanna þessi atriði en aðlögun verður að gerast smám saman og byggjast á vandlegu mati á áhrifum slíks á íslenskt fullveldi.``
    Þarna sagði þannig að ekki verður misskilið að um fyrirvara væri að ræða af hendi okkar Íslendinga. Þessi ræða var lögð fram í ríkisstjórninni og rædd þar eftir fundinn og lýstu allir fullum stuðningi við það sem þarna er sagt.
    Hv. þm. gerði einnig að umtalsefni þá samþykkt sem þarna var gerð. Vissulega má um það deila hve opin hún er en ég vil einnig, með leyfi forseta, lesa hér eina málsgrein úr þessari samþykkt, sameiginlegri samþykkt Oslóarfundarins. Þar segir:
    ,,Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður mundu leiða til samkomulags, að svo miklu leyti sem það er mögulegt, um óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, með það að markmiði að koma á einu samræmdu evrópsku efnahagssvæði. Verum því reiðubúnir að kanna ýmsa möguleika og leiðir til að
styrkja formleg tengsl milli EFTA-ríkjanna og EB.``
    Þetta er nú ekki mjög nákvæmt. Á þeim fundum sem þarna fóru fram, m.a. sérstökum fundum forsætisráðherranna, kom m.a. fram að Svisslendingar, sem voru raunar með að sumu leyti ákveðnari fyrirvara en við, töldu þetta vera það opið að þeir gætu sætt sig við það. Svíar, sem t.d. vildu endilega fá hér inn sem valkost númer eitt tollabandalag en fengu það ekki af því að hin ríkin vildu ekki binda sig við neina ákveðna leið, töldu jafnframt að þetta væri það opið að innan þessa orðalags gæti falist tollabandalag. Ég tel því að ég hafi verið í fullum rétti þegar ég lýsti því að í þessu samkomulagi er svo sannarlega lýst vilja til að ganga til viðræðnanna. Á því leikur ekki nokkur vafi. Hins vegar er því haldið afar opnu á hvaða forsendu slíkar viðræður verði og sömuleiðis eru þarna fyrirvarar, ég leyfi mér að kalla þá svo, eða a.m.k. mjög opið hverjar niðurstöður þessi ríki geti sætt sig við. En í raun og veru er þetta ekki aðalatriðið heldur hitt að eftir að þessi vísbending var gefin frá leiðtogafundinum í Osló hefur farið fram mjög mikil, ítarleg og mjög vandlega unnin vinna að undirbúningi að þessum viðræðum.
    Ég ætla ekki að rekja hér eftir ítarlega ræðu utanrrh. þá niðurstöðu sem fengin er úr þeim nefndum sem þarna voru skipaðar enda ítarlega rakið sömuleiðis í þeirri skýrslu sem liggur á borðum þingmanna. Ég vil þó láta koma skýrt fram og sérstaklega ítreka að í þessari vinnu hefur sömuleiðis

--- ef menn vilja ekki kalla það fyrirvara, þá a.m.k. sérstök aðstaða Íslands verið ítarlega tíunduð. Það kemur fram hvað eftir annað. Það kemur t.d. fram hér hvað eftir annað, og EFTA-ríkin hafa stutt það, að fríverslun með fisk verði að ríkja á væntanlegu evrópsku efnahagssvæði. Það hefur aldrei farið neitt á milli mála að þetta er sá mikli fyrirvari sem Ísland setur við niðurstöðu þessara samningaviðræðna.
    Sömuleiðis hefur komið fram að Íslendingar hafa sett ákveðinn fyrirvara, og kemur það hér fram í skýrslunni, eða, ef menn vilja heldur segja það, komið vel á framfæri sinni sérstöðu í sambandi við frjálsa flutninga fjármagns. Ég vek athygli á því að innan Evrópubandalagsins er ekki gerður greinarmunur á frjálsum kaupum á verðbréfum og frjálsum kaupum á hlutabréfum. Þetta er ein meginástæðan fyrir því að ég tel að skoða þurfi þetta frelsi mjög vandlega. Við erum, eins og hér hefur komið fram, öll sammála um það að glata ekki stjórn og yfirráðum yfir okkar auðlindum, eða, með öðrum orðum, við viljum ekki að erlendir aðilar geti t.d. eignast þau fyrirtæki sem stunda hér sjávarútveg, og við viljum vitanlega heldur ekki að þeir geti eignast þau fyrirtæki sem nýta orkulindir landsins. Á þessu er ekki gerður greinarmunur í dag í þeim reglum sem gilda innan Evrópubandalagsins. Og þó að ég sé þeirrar skoðunar að frelsi með fjármagnsflutninga muni smám saman aukast hér á landi er þetta svo stórt atriði að við getum ekki á þessari stundu sagt að fullkomið frelsi verði innleitt hér á næstu mánuðum eða jafnvel árum. Þetta þarf að skoðast miklu nánar og þá að sjálfsögðu í nánum tengslum við þetta grundvallaratriði sem við höfum öll lagt svo mikla áherslu á.
    Það hefur heldur aldrei farið á milli mála að íslenska peningakerfið er mjög veikt í samanburði við hið stóra peningakerfi nágrannaþjóðanna, og hér eru ýmsar þær reglur sem þarf að skoða áður en aukið frelsi getur orðið. Þær verða skoðaðar og eru vitanlega í athugun og skref hafa verið stigin, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, í þá átt að auka frelsi á þessu sviði og þau munu verða stigin áfram. Ég vara hins vegar við að menn rasi þar um ráð fram og framkvæmi hluti án þess að skoða mjög vandlega heildaráhrifin.
    Við höfum einnig haft fyrirvara í sambandi við fólksflutninga og þeir fyrirvarar hafa verið þeir sömu í raun og við höfum haft gagnvart frjálsum fólksflutningum á milli Norðurlandanna. Við höfum sem sagt heimild þar til að grípa inn í ef þessir fólksflutningar verða svo víðtækir að þeir kunni að valda verulegu jafnvægisleysi á hinum litla íslenska vinnumarkaði. Fleiri þjóðir eru með þennan fyrirvara, t.d. Svisslendingar. Þeir eru í raun og veru með enn þá ákveðnari fyrirvara að þessu leyti. Það má svo sem geta þess að Svisslendingar hafa einnig verið með ýmsar athugasemdir í sambandi við frjálsa flutninga fjármagns og hafa lýst yfir hvað eftir annað að þeir muni aldrei fallast á að aðrir ákveði hvernig þeir fari með sinn frjálsa fjármagnsmarkað. Við höfum einnig ætíð tekið fram að við getum ekki fallist á

yfirþjóðlegar stofnanir í Brussel, og fleiri þjóðir hafa haft þá afstöðu. Á það hafa Svisslendingar lagt mjög ríka áherslu og eftir nokkra umræðu í því starfi sem nú hefur farið fram er samstaða um það að fallast ekki á yfirþjóðlegar stofnanir.
    Ég vil því leggja á það áherslu að í þessum undirbúningi öllum hefur okkar sérstöku aðstöðu verið, að mínu mati, komið ágætlega á framfæri. Það fer ekkert á milli mála. Það er öllum ljóst að aðstaða okkar er sérstök, hvort sem menn vilja kalla það fyrirvara eða fyrirvara ekki.
    Hér er að sjálfsögðu fjallað um þessi fjögur frelsi sem um er talað og hefur utanrrh. lýst því í smáatriðum og skal ég ekki fara yfir það. Hér er einnig fjallað um ýmis jaðarverkefni sem eru afar mikilvæg og við höfum reyndar
tekið þátt í að móta nú í nokkur ár. Þó að þar hafi sumt gengið hægar en að var stefnt hygg ég að þar sjái jafnframt fyrir endann á því starfi. Ég vil þar sérstaklega nefna samstarf á sviði vísinda og þróunarstarfsemi sem getur orðið afar mikilvæg fyrir okkur Íslendinga og við tökum nú þátt í. Ég vil nefna samræmingu á menntakerfinu sem nú hefur loksins komist á nokkurt skrið og er að mínu mati afar mikilvægt fyrir íslenska námsmenn sem þurfa að leita í ríkari mæli erlendis til menntunar en almennt gerist um hin stærri ríki. En rétt er að geta þess í því sambandi að innan Evrópubandalagsins er þessi samræming á menntun og heimild allra þjóða sem þátt taka í henni, að sækja menntun á jafnræðisgrundvelli í hvaða ríki sem er, tengd atvinnuheimildinni. Þarna kann að vera um einhverja erfiðleika að ræða en ég tel að fyrir okkur Íslendinga sé heimild fyrir námsmenn til að leita sér þjálfunar, leita sér starfs eftir menntun erlendis, afar mikilvæg. Og það fer náttúrlega ekkert á milli mála að fjöldi íslenskra námsmanna sem nýtir sér þetta er mjög mikill og reyndar miklu meiri fjöldi Íslendinga sem starfa erlendis en erlendra aðila hér á landi þegar á heildina er litið.
    Samstarf á sviði umhverfismála er annað sem er afar mikilvægt og verður vitanlega aldrei bundið af landamærum. Það leiðir að sjálfsögðu af eiginleika þess máls, og ég tel að það sé fullt samkomulag á milli EFTA og EB um víðtækt samstarf á því sviði. Þannig eru ýmis mál sem eru afar mikilvæg fyrir okkur Íslendinga í þessari vinnu sem nú fer fram.
    Ég vil svo að lokum segja örfá orð um þann þáttinn sem að mínu mati verður erfiðastur í þessu sambandi og það er það sem kallað er hinn lagalegi og stofnanalegi þáttur. Þar ber vitanlega í raun mjög mikið á milli Evrópubandalagsins og EFTA. Það gerir það í grundvallaratriðum. Evrópubandalagið hefur kosið að veita sinni stjórn í Brussel mjög mikil völd, sem við köllum gjarnan yfirþjóðleg völd. EFTA-löndin hafa hafnað þessu. Þarna verður áreiðanlega um mjög flókna samninga að ræða sem ég hygg að útilokað sé á þessari stundu að sjá fyrir hvernig verður lokið. Markmiðið mun vera það að ljúka sem allra mestu af slíkri samræmingu laga og reglna þegar fyrir eða við

gildistöku hugsanlegs samnings á milli EFTA og EB. Og ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta sé eina skynsamlega leiðin. Hins vegar verður aldrei hjá því komist að fjölmörg atriði komi upp á síðari tímum sem þurfa þá að koma til meðferðar annars vegar innan Evrópubandalagsins og hins vegar hjá EFTA-ríkjunum. Þar er náttúrlega mikil aðstöðumunur á, því að í flestum slíkum tilfellum, ef ekki öllum, mun Evrópubandalagið geta tekið sína ákvörðun einhliða í Brussel en hjá EFTA-ríkjunum verður slíkt að koma til einstakra þjóðríkja.
    Utanrrh. fór ítarlega yfir það samráð sem þarf að vera o.s.frv. og sömuleiðis það réttarkerfi sem þarf að setja á fót. En ég taldi þó nauðsynlegt að vekja athygli á þessu jafnframt því að þarna tel ég að við mesta erfiðleika verði að etja.
    Ég vil einnig lýsa nokkrum áhyggjum yfir því sem mér finnst koma mjög áberandi fram hjá öllum fulltrúum Evrópubandalagsins, að í raun verði EFTA-ríkin að samþykkja eða hafna, og þá um leið hafna samstarfi, þeim reglum sem Evrópubandalagið ákveður fyrir hinn innri markað, sem sagt að það sé í raun ekki til viðtals um neinar breytingar á þessum innri markaði. Þetta er dálítið erfitt að þola, en ég er ansi hræddur um að með þeirri vaxandi áherslu sem Evrópubandalagið leggur nú á miðstýringu frá Brussel, sem kom m.a. fram mjög ítarlega á fróðlegri ráðstefnu sem ég sat um þessi mál fyrir örfáum dögum, muni verða æ erfiðara að fá Evrópubandalagið til að fallast á miklar tilhliðranir vegna EFTA-ríkjanna. Ég er ekki þar með að segja að sérstakir samningar við einstök EFTA-ríki, eins og um sjávarútvegsmál eða með fisk o.s.frv., kunni ekki að takast. Ég á hins vegar við hinar almennu reglur sem muni ráða á þessu væntanlega eða hugsanlega evrópska efnahagssvæði.
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mikið en vil að lokum leggja áherslu á að það sem hér er að gerast er í raun alls ekkert nýtt af nálinni eins og kom nokkuð fram hjá síðasta hv. ræðumanni. Þetta er þróun sem hefur verið í Evrópu nú alllengi, í a.m.k. um 40 ár, fór mjög hægt af stað en hefur síðan vaxið fiskur um hrygg og farið hraðar og má reyndar rekja til þess að fyrir 40 árum ákváðu ríki hinnar evrópsku Efnahagssamvinnustofnunar í París að vinna að því að leggja niður alls konar hindranir fyrir verslun, fyrst og fremst tolla, samræma tolla o.s.frv., á milli ríkjanna. Við höfum tekið mjög ákveðinn þátt í þessu í raun frá upphafi og við erum einnig þátttakendur í næsta skrefinu sem var myndun EFTA og EB. Við erum einnig þátttakendur í raun í þriðja skrefinu þegar einstök EFTA-ríki gera sérstaka samninga við Evrópubandalagið um fríverslun sem var náttúrlega afar stórt skref í þá átt að mynda eitt fríverslunarsvæði í Evrópu og ég vil leyfa mér að halda því fram að við höfum notið góðs af þessu. Ég held það sé vafalaust að sú niðurfelling tollamúra, sem hér hefur orðið á þessum tíma, hafi orðið okkur til góðs. Ég
vara hins vegar við því ef menn telja að þetta sé einhvers konar lausn allra okkar vandamála. Það held

ég að sé alls ekki. Mér heyrðist það hálfpartinn á
síðasta ræðumanni að svo væri. Jafnvel þótt við næðum hinum hagkvæmustu samningum við Evrópubandalagið, fengjum okkar kröfur viðurkenndar um frjálsa verslun fyrir fisk, fengjum t.d. að hafa sértök skilyrði í sambandi við fjármagnsflutninga og takmarkanir á því að erlendir aðilar geti eignast hér fyrirtæki í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna, og hefðum heimild til að stöðva fólksflutninga ef þar gætti jafnvægisleysis, þá mun framtíð þessarar þjóðar ekki byggjast á slíkum samningum. Hún mun byggjast á okkar eigin krafti. Hún mun byggjast á því að okkur hér á landi takist að halda jafnvægi í okkar efnahagslífi og okkur takist að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem við erum í, sem við tvímælalaust munum gera, og koma í veg fyrir það að við lendum aftur í slíkum sveiflum sem einkennt hafa íslenskt efnahagslíf. Framtíðin mun umfram allt byggjast á því að hér verði nýjar atvinnugreinar sem byggist upp á hugviti okkar Íslendinga sjálfra en ekki með erlendri fjárfestingu þó að hún komi svo sannarlega til greina á fjölmörgum sviðum. Hún mun byggjast á því að hér verði framleiðniaukning fyrst og fremst, framleiðniaukning sem ég hygg að hafi skort hér upp á síðkastið. Hér þarf að verða framleiðniaukning og helst meiri en verður í okkar samstarfsríkjum. Því aðeins getum við gert okkur vonir um að við höldum höfði og stöndum upp úr í þessari mjög róttæku þróun sem hefur orðið og er eflaust fram undan í Evrópu.