Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. ,,Miklar og hraðar breytingar eiga sér nú stað í Evrópu. Löndin í Austur-Evrópu feta sig inn á braut blandaðs hagkerfis og lýðræðislegra stjórnarhátta. Evrópubandalagið er að hrinda í framkvæmd ákvæðum Rómarsáttmálans frá 1958 um innri markað og stefnir í áttina að ríkisheild. Ríkin í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, sem Ísland er aðili að leita aðlögunar að breyttum aðstæðum. Berlínarmúrinn er fallinn og járntjaldið sem skipt hefur álfunni í vestur og austur mun brátt heyra sögunni til. Skriður hefur komist á afvopnun í Evrópu með samningi um afnám meðaldrægra eldflauga og einhliða fækkun í hefðbundnum herafla. Góðar horfur eru á að þáttaskil verði í afvopnunarmálum á meginlandi álfunnar á næstu missirum með samningum um hefðbundin vopn og traustvekjandi aðgerðir. Íslendingar eiga að leggja sitt af mörkum til afvopnunar og bættra samskipta í Evrópu og á alþjóðavettvangi. Það gerum við best með því að vísa erlendum her úr landinu og draga okkur út úr NATO. Jafnframt þurfum við að leggja ríka áherslu á kjarnorkuafvopnun á og í höfunum sem Íslendingum stafar gífurleg hætta af.
    Afvopnun á meginlandinu og lýðræðisþróunin í Austur-Evrópu fela í sér mestu breytingar í málefnum álfunnar um langt skeið og minna á vorleysingu. Mestu varðar að þær hafa farið friðsamlega fram og geta leitt til stórbættra samskipta í okkar heimshluta.``
    Þannig, virðulegur forseti, er upphaf ályktunar um málefni Evrópu og hagsmuni Íslands sem samþykkt var einróma á landsfundi Alþb. sl. sunnudag. Þegar litið er til þeirra breytinga sem hafa verið að gerast í Austur-Evrópu undanfarið, þá verður að harma að ekki hafa komið fram jákvæðari viðbrögð af hálfu Norðurlanda og þeirra sem eru málsvarar Norðurlanda við óskum ráðamanna í Sovétríkjunum um aukin og bætt samskipti, m.a. að því er varðar sovétlýðveldi við Eystrasalt og á landamærahéruðum á milli Norðurlanda og Sovétríkjanna.
    Það var heldur nöturlegt upp á það að horfa með hvaða hætti forsætisnefnd Norðurlandaráðs brást við þeim hugmyndum sem Gorbatsjov hinn sovéski setti fram í Finnlandi í októbermánuði þar sem hann var í opinberri heimsókn. Í stað þess að taka á því máli af festu og með jákvæðum hætti, þá treysti forsætisnefnd Norðurlandaráðs, sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson er aðili að ásamt hv. þm. Páli Péturssyni fyrir Íslands hönd, sér ekki til að stíga stærra skref en bjóðast til og ákveða að senda embættismann á vegum forsætisnefndarinnar til Moskvu. Hugmyndir um að fulltrúar frá Eystrasaltsríkjunum kæmu á næsta þing Norðurlandaráðs sem haldið verður hér í Reykjavík fengu engar undirtektir af þessari forustusveit Norðurlandaráðs. Þetta harmaði ég á þeim vettvangi í síðustu viku þar sem Evrópumálin voru til umræðu, en auðvitað skiptir þessi þróun í löndunum sem verið hafa aflokuð bak járntjaldi verulegu máli fyrir þróun í álfunni.

    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson var að kveða hér upp dauðadóm yfir sósíalismanum. Ég vil segja við hv. þm., formann Sjálfstfl., hafi hann ekki vitað það, að í Austur-Evrópu hefur ekki verið neinn sósíalismi við lýði og það ekki frá því um stríð eða frá því að rússneska byltingin var gerð. Það er ekki sósíalismi sem þar hefur ráðið ríkjum heldur eitthvert allt annað kerfi og það er eins gott að menn átti sig á því að ríkiseinokun af því tagi sem þar hefur ráðið ríkjum og miðstýrt kerfi á ekkert skylt við sósíalískar hugsjónir. (Gripið fram í.) Þess vegna lifa þær áfram hvaða orð sem falla hér frá formanni Sjálfstfl. í þessum ræðustól og á öðrum vettvangi. ( FrS: Var einhver að kveða upp dóm?)
    Ég ætla í framhaldi af því sem ég kynnti hér sem upphaf að ályktun Alþb. á landsfundi að vísa til þeirrar þróunar sem nú á sér stað í álfunni í Vestur-Evrópu og gagnvart Evrópubandalaginu sérstaklega. Þar er einnig að finna afstöðu til margra þátta þeirra könnunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið sem eru tilefni þessarar umræðu hér í Sþ. í dag og til frekari málsmeðferðar á næstunni. En í samþykkt landsfundar Alþb. er einnig að finna álit flokksins á því hvernig halda skuli á samskiptum Íslands út fyrir Evrópu, við önnur svæði og heimshluta. Við þurfum að gæta þess, þrátt fyrir mikilvægi Evrópumálanna og tengsl okkar við þá álfu sem við erum og viljum
áfram vera hluti af, að líta ekki einangrað til Evrópu, hvað þá Vestur-Evrópu einvörðungu, heldur gæta jafnhliða að hagsmunum og tengslum annars staðar. Um Evrópubandalagið og hagsmuni Íslands ályktaði landsfundur Alþb. eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Íslendingar hljóta að fylgjast af sérstökum áhuga með þróuninni í Evrópu og leggja þar sitt fram í samstarfi við helstu viðskiptaþjóðir okkar og þær þjóðir sem eru okkur skyldastar að menningu og í félagslegum efnum. Aukin tengsl við Evrópu og Norðurlönd sérstaklega undanfarin ár hafa verið skýrt mótvægi við bandarísk áhrif og er ástæða til að styrkja þau enn.
    Landsfundur Alþb. telur að ekki komi til greina að Ísland gerist aðili að Evrópubandalaginu. Aðild að Evrópubandalaginu fæli í sér valdaafsal til
yfirþjóðlegra stofnana. Slík aðild væri á engan hátt eftirsóknarverð fyrir okkur Íslendinga og bryti í bága við sjálfsákvörðunarrétt og efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar. Samskipti Íslands við Evrópubandalagið eru hins vegar mikil og hafa aukist samhliða stækkun bandalagsins og breytingum á mörkuðum. Ýmsir þættir innan Evrópubandalagsins snerta hagsmuni þjóða sem standa utan bandalagsins og kalla því á viðbrögð og samræmingu. Þetta varðar m.a. staðla á framleiðsluvörum, gæðakröfur, réttindi til náms og starfa, svo og rannsókna- og þróunarstarfsemi. Í samstarfi á þessum sviðum geta falist ýmsir jákvæðir möguleikar, en einnig eru þar mörg álitamál og þættir að varast.
    Samskipti norrænna þjóða við Evrópubandalagið sem stundum hefur verið kallað Evrópa auðhringanna

hljóta einnig að mótast af því hvernig Evrópubandalagsríkjunum gengur að koma í framkvæmd þeim fyrirheitum sem felast í yfirlýsingum forustumanna bandalagsins um félagsleg málefni. Við þurfum að eiga góð samskipti við Evrópubandalagið og gæta þess að bregðast við breytingum sem þar verða út frá langtímahagsmunum þjóðarinnar.``
    Þetta, virðulegur forseti, er mikilvæg stefnumörkun. Aðild að Evrópubandalaginu kemur ekki til greina að mati Alþb. en við eigum að hafa við það góð samskipti og sjáum jákvæða möguleika í samstarfi við bandalagið á mörgum sviðum. Slíkt samstarf varðar alla samskiptaþætti, menningarleg og félagsleg málefni, en mestu skipta okkur þó viðskiptalegir hagsmunir í því samhengi sem málin eru rædd hér í dag. Þar vega sjávarútvegsmálin þyngst og sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar. Viðhorf Alþb. um það efni koma skýrt fram í ályktun landsfundar flokksins þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Evrópubandalagið er nú mikilvægasta markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir. Viðskiptasamningur Íslands og bandalagsins frá 1972 ásamt bókun 6 hefur reynst vel, en þarfnast nú endurskoðunar, ekki síst að því er varðar tolla Evrópubandalagsins á saltfisk og fersk fiskflök. Gífurlegir styrkir til sjávarútvegs innan Evrópubandalagsins skerða einnig samkeppnisstöðu Íslendinga. Í því sambandi ber að hafa í huga að Íslendingar heimila tollfrjálsan og hindrunarlausan innflutning á iðnvarningi frá Evrópubandalaginu til Íslands.
    Íslendingar gera kröfu um fríverslun með fisk án tolla og styrkja. EFTA-ríkin hafa fallist á þá stefnu, en langt virðist í land að hún hljóti undirtektir innan Evrópubandalagsins þar sem með sjávarútvegsmál er farið svipað og landbúnað. Gæta verður þess í samningum um þessi mál að fríverslun gangi ekki svo langt að við missum möguleika til að stýra ráðstöfun fiskaflans og tryggja að vinnsla haldist í landinu.
    Ísland hefur algera sérstöðu hvað snertir mikilvægi sjávarafurða fyrir þjóðarbúskapinn. Því hljótum við að sækja það fast að ná viðbótarsamningi við Evrópubandalagið vegna útflutnings sjávarafurða til bandalagsins. Sjávarútvegsmál eru aðalatriðið í viðskiptalegum samskiptum Íslendinga við bandalagið og eðli málsins samkvæmt hljóta samningar um þau að vera viðfangsefni í tvíhliða viðræðum.
    Í viðræðum við Evrópubandalagið er það ófrávíkjanleg forsenda að Íslendingar stjórni einir nýtingu fiskstofna við landið og krafa okkar er að fá tollfrjálsan og hindrunarlausan aðgang með sjávarafurðir að mörkuðum bandalagsins hliðstætt því sem gerist með iðnaðarvörur. Jafnframt því þurfa Íslendingar sjálfir að marka sér sjávarútvegsstefnu sem taki mið af heildarhagsmunum og þeirri nauðsyn að hafa í landinu öflug íslensk fyrirtæki í fiskiðnaði og til að annast sölu afurða. Á sviði sjávarútvegsmála eigum við aðeins takmarkaða samleið með öðrum EFTA-ríkjum, þar sem iðnaðarhagsmunir sitja í fyrirrúmi. Undirbúa þarf því hið fyrsta tvíhliða

viðræður við Evrópubandalagið, m.a. með því að móta skýra, íslenska sjávarútvegsstefnu.``
    Þetta er sá kafli sem varðar sjávarútvegsmálin sérstaklega og landsfundur Alþb. ályktaði um. Þær áherslur sem hér koma fram eru efnislega samhljóða þeim niðurstöðum sem samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi hefur komist að á sínum vettvangi og fyrst voru kynntar Evrópustefnunefnd Alþingis á fundi í fyrradag og í skýrslu sem allir alþm. og fjölmiðlar fengu afhenta í gær. Það er vissulega athyglisvert að Alþb. og þessi samstarfsvettvangur aðila í sjávarútvegi skuli meta aðstæður með svo líkum hætti og leggja ríka áherslu á tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Vissi þó hvorugur af hinum að mér sé kunnugt. Umrædd sjónarmið hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa ekki farið hátt til þessa þótt þau hafi vissulega heyrst frá einstökum talsmönnum í sjávarútvegi og við þeim röddum hefur Alþb. lagt hlustir. Það ber vott um þau tengsl sem Alþb. hefur við slagæðar íslensks atvinnulífs og undirstöðurnar í þjóðarbúskap okkar að áherslan á þessa þætti varðandi sjávarútveginn og beinar viðræður við Evrópubandalagið um málefni hans skuli birtast með þeim hætti sem gerðist í samþykktum flokksins á landsfundi.
    Þessi atriði, herra forseti, sem ég hef rætt hér út frá viðhorfum og nýrri stefnumörkun Alþb. um þessi efni, snerta afstöðuna til efnis þeirrar skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur mælt hér fyrir varðandi könnunarviðræður EFTA og Evrópubandalagsins. Kjarni þess máls og yfirlýsingar Oslóarfundar leiðtoga
EFTA eru um hvort og að hve miklu leyti Íslendingar eigi að aðlaga sig að skilyrðum innri markaðar Evrópubandalagsins, þeim þremur þáttum er varða fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu, þjónustuviðskipti að meðtalinni fjármálaþjónustu og varðandi atvinnu- og búseturétt, þar á meðal rétt útlendinga til að stunda atvinnurekstur hérlendis. Fyrir Oslóarfundinn í mars sló ég, sem fulltrúi Alþb. í utanrmn., varnagla um þessi efni og lagði þar fram sérstaka bókun um væntanlega yfirlýsingu leiðtogafundar EFTA í Osló eins og hún lá þá fyrir í drögum fyrir fundinn. Hæstv. forsrh. gerði ýmsa fyrirvara við málið í ræðu við upphaf fundarins í Osló en þeim fyrirvörum hefur aðeins að takmörkuðu leyti verið haldið til haga í könnunarviðræðum við Evrópubandalagið í framhaldi Oslóarfundarins.
    Þingflokkur Alþb. ályktaði um málið strax eftir fundinn í Osló þann 20. mars sl. og tók þá m.a. ákveðið undir fyrirvara eins og þeir birtust í ræðu íslenska forsrh. Í þessari ályktun þingflokksins var m.a. fjallað um fjármagnshreyfingar sem eru einn helsti þáttur þess máls þótt þær varði einnig samskipti við aðra en Evrópubandalagið og EFTA-ríki, þ.e. spurningar um fjármagnshreyfingar koma inn í viðræður á víðtækari vettvangi eins og t.d. innan GATT. Um fjármagnshreyfingar segir í samþykkt landsfundar Alþb. sem ég hef áður vitnað til, með leyfi forseta:
    ,,Íslendingar þurfa á næstu árum að meta hvort þeir

telji sér hagkvæmt að draga úr einhverjum hömlum varðandi fjármagnshreyfingar og erlenda fjármálaþjónustu. Í því sambandi er þó afar nauðsynlegt að gera sér ljóst að óheftar fjármagnshreyfingar og erlend bankastarfsemi í landinu geta haft ýmsar hættur í för með sér. Óheftar fjármagnshreyfingar takmarka verulega möguleika á að reka efnahagsstefnu sem tæki mið af íslenskum aðstæðum. Ekki liggur nú fyrir með hvaða hætti komið verður í veg fyrir að erlendir hagsmunir muni ná ítökum í íslenskum sjávarútvegi ef fjármagnshreyfingar yrðu óheftar, erlendir
bankar störfuðu í landinu og útlendingar fengju hér fullan búseturétt. Reynsla ýmissa jaðarsvæða bendir til þess að óheftar fjármagnshreyfingar geti leitt til útstreymis fjármagns og fyrir byggðaþróun á Íslandi gæti slíkt haft hörmulegar afleiðingar. Við Íslendingar eigum því ekki að gera breytingar á núverandi skipan á flutningi fjármagns og varðandi þjónustu- og búseturétt nema ljóst sé að það hafi jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og samfélag.``
    Þetta er sá þáttur sem snýr að fjármagnshreyfingum sérstaklega og ég hlýt að víkja aðeins að því, herra forseti, að Alþb. hefur verið samkvæmt sjálfu sér um þessi efni en hv. þm. Þorsteinn Pálsson var að furða sig á því að Alþb. skuli á vettvangi Norðurlandaráðs einnig gera fyrirvara um þessi efni með sama hætti og þeir fyrirvarar og varnaglar eru slegnir á landsfundi flokksins.
    Fjmrh. hæstv. og formaður Alþb. gerði þannig fyrirvara varðandi þann kafla í efnahagsáætlun Norðurlanda fyrir tímabilið 1989--1992 sem snertir fjármagnshreyfingar og fjármálaþjónustu.
    Með svipuðum hætti gerði ég skýran og ákveðinn fyrirvara við álit efnahagsnefndar Norðurlandaráðs þann 9. okt. sl. og eins og sú ályktun birtist á Norðurlandaráðsþingi í Mariehamn 14. nóv. sl. Fyrirvarinn er einmitt varðandi þessi efni, fjármagnshreyfingar og fjármálaþjónustu. En hvað gerir hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl.? Hann skrifar undir ályktun efnahagsnefndar Norðurlandaráðs fyrirvaralaust og fram hefur komið af hans hálfu að hann skilji ekkert í því að íslensk stjórnvöld skuli hafa áhyggjur af því að opna hér hagkerfið upp á gátt fyrir erlendu fjármagni, fjármálaþjónustu og erlendum bönkum. Hver eru markmiðin sem hv. þm. skrifar undir á vettvangi Norðurlandaráðs? Jú, það er að ganga framar, feti framar en markmiðin eru samkvæmt Hvítbókinni varðandi innri markað Evrópubandalagsins að ljúka opnun á fjármagnshreyfingum milli Norðurlanda og gagnvart Evrópubandalaginu fyrir lok ársins 1990. Það er sú stefna sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson skrifar upp á á vettvangi Norðurlandaráðs. Sama gildir um fjármálaþjónustu, erlenda bankastarfsemi, og ég bið hv. þm., einnig þm. Sjálfstfl., að hugleiða hvaða áhrif það hefði ef formaður Sjálfstfl. væri hér í valdaaðstöðu og mundi knýja fram hér á Íslandi þessa stefnu sem hann skrifar upp á á vettvangi Norðurlandaráðs.
    Ég sé, virðulegur forseti, í þessu sambandi ástæðu

til þess að vekja sérstaka athygli á því hve efnahagslegar undirstöður íslensks atvinnulífs eru veikar um þessar mundir sem afleiðing af óstjórn fyrri ára, ekki síst þegar Sjálfstfl. og hv. 1. þm. Suðurl. hafði mest áhrif á stjórn landsins. Þetta á ekki síst við um fyrirtæki í sjávarútvegi sem auðvelt væri fyrir fjársterka aðila að ná ítökum í og kaupa upp með skuldaviðurkenningum einum saman ef hér yrði opnað upp á gátt fyrir erlendu fjármagni.
    Mér þætti fróðlegt að heyra hér í þessari umræðu í öðrum talsmönnum Sjálfstfl. eins og hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, sem væntanlega á eftir að tala hér við umræðuna, hvernig honum líst á þá stefnumörkun formanns flokksins að opna hér upp á gátt fyrir erlendu fjárstreymi til og frá landinu og að koma hér upp erlendri bankastarfsemi hindrunar- og hömlulaust fyrir lok næsta árs. Hvernig heldur hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson að staðan væri hjá íslenskum
sjávarútvegi og sjávarútvegsfyrirtækjum við núverandi aðstæður, miðað við hvernig þróun hefur verið á undanförnum árum, ef þessi stefna næði fram að ganga?
    Annað vil ég nefna hér í þessu sambandi, virðulegur forseti, sem er nauðsynlegt og skylt að taka inn í þessa umræðu og það varðar þær hugmyndir um fyrirvara af Íslands hálfu sem hæstv. utanrrh., hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Suðurl. viku hér að í sínu máli og hv. 12. þm. Reykv. gerði skil hér í ræðu sinni áðan með ekki ósvipuðum hætti og ég lít til þeirra mála. Þetta snertir möguleikana á því að halda fyrirtækjum í einstökum atvinnugreinum á Íslandi eins og í sjávarútvegi, í fiskveiðum og fiskvinnslu, utan seilingar erlendra hagsmuna, fjárfestinga og ítaka, fjármálalegs eðlis, ef hér verður opnað upp á gátt í sambandi við fjármagnshreyfingar eins og boðað er af ýmsum aðilum. Þar er ekki gerður fyrirvari af hálfu hæstv. utanrrh. í könnunarviðræðunum við Evrópubandalagið til þessa, ekki hef ég séð þá fyrirvara og ég tala nú ekki um ef stefna hv. 1. þm. Suðurl. næði fram að ganga. Það hefur komið fram í Evrópustefnunefnd Alþingis nú undanfarnar vikur, en nefndin hefur átt samtöl við fjölda hagsmunaaðila á Íslandi, fulltrúa heildarsamtaka og einstakra hagsmunasamtaka, og þeir hafa sagt það skýrt og ótvírætt: Við höldum ekki fyrirtækjum í sjávarútvegi, hvorki veiðum eða vinnslu eða á öðrum sviðum, utan við áhrifavald erlendra hagsmuna, erlendra fjárfestinga ef opnað verður fyrir fjármagnshreyfingar hér í landinu, inn í landið, að því er varðar erlent fjármagn.
    Ég bið hv. þm. um að tjá sig um það hvort þeir séu sammála þessu mati eða hvort þeir kunni einhver ráð til þess að girða fyrir þannig að þetta gerist ekki sem talsmenn atvinnurekstrar í landinu hafa þó áhyggjur af og telja í rauninni óumflýjanlegt. Ég segi þó ekki að það séu allir sem hafi sömu áhyggjurnar í þeim efnum.
    Ég minni á það að margir alþm. hafa óskað eftir sérstakri skýrslu frá hæstv. forsrh. um fjárfestingar í atvinnurekstri hérlendis eins og það blasir nú við og

upplýsingar um hvaða ráðagerðir séu um að setja löggjöf varðandi þessi efni nú á næstunni. Það skiptir auðvitað meginmáli að menn átti sig á því út í hvað hér er verið að fara í einstökum atriðum áður en menn flana út á svellið og taka þá skelli sem því munu fylgja, ef menn gæta ekki að sér. En það er það sem virðist vera hér á döfinni. Það er ekki verið að slá varnagla, það eru ekki áhyggjur af því. Nei, formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins vill opna hér allt upp á gátt fyrir erlent fjármagn, allt upp á gátt, þó að hagsmunasamtök í sjávarútvegi viti og viðurkenni að sjávarútvegurinn stendur berskjaldaður gagnvart erlendum fjármagnseigendum eða erlendum hagsmunum, m.a. vegna skuldastöðu og bágrar efnahagslegrar afkomu.
    Virðulegur forseti. Ég kem nú að þeim þætti sem varðar samskipti EFTA og Evrópubandalagsins sérstaklega eða hið svonefnda Osló-Brussel-ferli eins og það er kallað í skýrslu hæstv. utanrrh. Enn leyfi ég mér að vitna til samþykktar nýafstaðins landsfundar Alþb. um þetta efni þar sem segir:
    ,,Viðræður á vettvangi EFTA við Evrópubandalagið á grundvelli Oslóaryfirlýsingarinnar frá í mars 1989 snúast fyrst og fremst um að yfirfæra innri markað Evrópubandalagsins til EFTA-ríkjanna og mynda þannig svokallað evrópskt efnahagssvæði. Þótt afnám á einhverjum hömlum varðandi fjármagn, þjónustustarfsemi og búsetu geti verið jákvætt á vissum sviðum hefur það um leið í för með sér augljósar hættur fyrir efnahag okkar og sjálfstæði. Því verður að fara að með fyllstu gát. Íslendingar þurfa á næstunni að freista þess að ná hagstæðum viðskiptasamningum við Evrópubandalagið. Í því efni hefur verið litið til formlegra samningaviðræðna milli EFTA og Evrópubandalagsins. Mörgum stórum og erfiðum spurningum er þó ósvarað varðandi þær viðræður eins og mál standa nú.``
    Virðulegur forseti. Ég vænti að hæstv. utanrrh. sé einhvers staðar nálægur. ( Utanrrh.: Hann er hér.) Já, það er gott, ég hafði áhyggjur af því að mál mitt næði ekki til ráðherrans.
    Mörgum stórum og erfiðum spurningum er þó ósvarað varðandi þær viðræður eins og mál standa nú. Evrópubandalagið hefur engin svör veitt um fyrirvara sem gerðir hafa verið um náttúruauðlindir og búseturétt. Ég ítreka það hér að það er heldur ekki ljóst að það sé hægt að verja þessar auðlindir fyrir erlendu fjármagni, það hefur ekki verið sýnt fram á það. Eftir viðræður milli Evrópubandalagsins og EFTA að undanförnu um evrópskt efnahagssvæði liggur það m.a. fyrir að af Íslands hálfu hafa engin sérstök skilyrði eða fyrirvarar verið settir fram um fjármagnsflutninga. Engar niðurstöður eru fengnar innan EFTA um breytingu á skipulagi samtakanna en flest bendir til þess að tilkoma evrópsks efnahagssvæðis leiði af sér yfirþjóðlegt vald innan EFTA varðandi stofnanir, eftirlit og dómstóla.
    Ég gæti haft um þetta, herra forseti, mörg orð, en ég tel nægja að vitna til þess sem hér liggur fyrir í skýrslu hæstv. ráðherra um þessi efni þar sem allt er

í þoku varðandi þessa þætti, hina stofnanalegu þætti, eftirlit og dómstóla. Sjálfur ráðherrann, hæstv. utanrrh., lætur fram koma hér í sínu máli að sumar
þessara hugmynda varðandi dómstóla geti rekist á stjórnarskrár viðkomandi ríkja, þar á meðal væntanlega Íslands.
    Hafa menn ekki áhyggjur af þessari þróun og heyrðu menn hvað hér var talað um? Ég held það hafi verið hæstv. forsrh. sem vék að því að æskilegast væri að fara í gegnum endurskoðun á lagabálkum, fjölmörgum lagabálkum, sem snerta þessa fjóra þætti og þar sem breytinga er þörf áður en til samninga kæmi við Evrópubandalagið um evrópskt efnahagssvæði. Ja, það er ekki lítið verk sem við eigum fyrir höndum hér á Alþingi Íslendinga að kemba þetta og aðlaga lög okkar að því sem ákveðið hefur verið nú þegar suður í Brussel, því það er ,,aquis communantaire``, það eru þær reglur sem þegar liggja fyrir um innri markaðinn sem okkur er ætlað að kyngja óbreyttum. Það er sá matseðill sem liggur hér fyrir og menn eiga að taka hér við til þess að koma á þessu sameiginlega efnahagssvæði, evrópska efnahagssvæði, sem á að vera lækning meina samkvæmt máli ýmissa manna hér í þessum umræðum.
    Og hvernig er svo, virðulegur forseti, almenningur á Íslandi í stakk búinn til þess að gera sér grein fyrir því sem hér er á döfinni? Og hvernig eru samtökin, Fríverslunarsamtök Evrópu, í stakk búin til þess að takast á við Evrópubandalagið um hagsmuni sem þau næðu saman um á sínum vettvangi?
    Í ræðu sem ég hélt á þingi Norðurlandaráðs um daginn líkti ég fríverslunarsamtökunum EFTA við skakka turninn í Pisa, ásigkomulagi þeirra eftir að Austurríki hefur sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Fyrir liggur að pólitískur vilji sterkra afla í Svíþjóð og Noregi stendur til hins sama og það er talað hér um tveggja súlna módel af hæstv. utanrrh. þar sem burðarásarnir eiga að vera tveir, EFTA annars vegar og Evrópubandalagið hins vegar. Er skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að gerast aðili að formlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið eins og málin liggja nú fyrir? Er ekki réttmætt að spyrja sig þeirrar spurningar hér á Alþingi Íslendinga? Ef taka ætti ákvörðun um aðild að slíkum viðræðum er alveg ljóst að af hálfu Alþb. er talin þörf á vandaðri athugun á öllum málavöxtum og að aðrir, og þá skýrir og marktækir, fyrirvarar liggi fyrir af Íslands hálfu þannig að þing og þjóð geti áttað sig á því fyrir fram út í hvað er verið að fara. Þetta á m.a. við um þær breytingar sem stefnt væri að varðandi fríverslunarsamtökin EFTA en ég hef vikið að því hvernig þar er allt með óljósum hætti eins og lesa má út úr skýrslu hæstv. utanrrh.
    Ég minni líka í þessu sambandi á fsp. sem ég hef lagt fyrir hæstv. forsrh. hér í Sþ. og beðið um skriflegt svar við um það til hvaða ráðstafana hæstv. ríkisstjórn hyggist grípa af sinni hálfu til að upplýsa og fræða þjóðina um Evrópumálefni og hvað hér er í raun á ferðinni og í húfi fyrir langa framtíð.

    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að staðhæfa að málsmeðferðin varðandi þessa þætti er andstæða lýðræðislegra vinnubragða og er þó oft haft á orði af mönnum hér að við þurfum að gæta þeirra og undir slík orð tek ég. Haldið þið að það sé sómasamlegt að ætla að fara að ganga til formlegra samningaviðræðna við þær aðstæður að þriðjungur Íslendinga hefur ekki áttað sig á að við séum aðilar í Fríverslunarsamtökum Evrópu ef marka má skoðanakannanir og um helmingur landsmanna, ef marka má sömu könnun frá í október sl., veit ekkert um uppbyggingu Evrópubandalagsins eða hvaða þjóðir eru aðilar að því bandalagi? Það er efnilegt veganesti fyrir stjórnmálamenn sem telja sig vera fulltrúa þjóðarinnar! Og hér á Alþingi eru ætlaðar örfáar vikur, í raun bara fram að 10. des., til að átta sig á þessum málum, hvert verið er að fara, því að þann 10. des. ætlar hæstv. utanrrh. að hitta kollega sína, starfsbræður sína í EFTA til þess væntanlega að samræma sjónarmiðin fyrir 19. des. þegar fundurinn stóri með forráðamönnum Evrópubandalagsins og EFTA, hinn sameiginlegi fundur á að fara fram. Innan við mánuður fram að þeirri dagsetningu og jólaannir og jólafasta fram undan.
    Er ekki skynsamlegt fyrir hv. alþm. að hugsa aðeins sitt ráð og ræða við fólkið í landinu um það og heyra raddir þess áður en slíkt umboð er afhent og sama í rauninni hver þar á heldur? Ég er ekkert að tortryggja einn fremur öðrum varðandi það. En eigum við ekki þær skyldur við þjóðina að ræða málin við hana, komast í snertingu við almenning í landinu og hlusta á raddir hans? Ég held t.d. að það væri þörf á því fyrir okkur fulltrúa landsbyggðarinnar að heyra svolítið í fólki úti um hinar dreifðu byggðir Íslands og gera okkur sjálfum grein fyrir því og reyna að gera fólkinu á landsbyggðinni grein fyrir því hvaða áhrif það sé líklegt að hafa ef við göngum inn í hið evrópska efnahagssvæði, ef við opnum hér upp á gátt, eins og formaður Sjálfstfl. vill, fyrir erlendu fjármagni og erlendum bönkum. Ég held að það væri þess virði aðeins að doka við og skoða þann þátt.
    Hv. alþm. Ragnar Arnalds gerði þessi mál að því er snertir byggðirnar á Íslandi að sérstöku umtalsefni í ræðu sem hann flutti við útvarpsumræður hér á dögunum. Ég veit að það voru margir sem tóku eftir orðum hans. Og við þingmenn utan af landi ættum að gaumgæfa þessi mál en ekki að elta mýrarljósin umhugsunarlítið og stimpla inn formlegar samningaviðræður sem hafa munu hinar afdrifaríkustu afleiðingar fyrir landið allt, en ekki síst fyrir byggðirnar
vítt um Ísland utan þeirrar miðju sem hugsanlega kynni að njóta tímabundins hagnaðar af kröftunum, hinum miðsæknu kröftum sem ráða munu ferðinni í hinu evrópska efnahagssvæði.
    Og af því að hv. þm. Þorsteinn Pálsson vék að því að nú væri tími vopnanna liðinn og heimsstyrjalda til þess að ná hagsmunum fram, nú gerðu menn þetta með fríverslun. Það var nefnilega ansi vel til fundið hjá hv. þm. að minna á þetta. Nú ætla menn að ná

sömu markmiðum með því að opna fyrir frelsi, svokallað frelsi og gáttir fjármagnsins, að ná þeim markmiðum sem fjármagnseigendur háðu styrjaldir til að ná fram fyrr á þessari öld, m.a. í Evrópu. Því auðvitað eru það þessir hagsmunir sem eru drifkrafturinn í því evrópska efnahagssvæði og ég tala nú ekki um í Evrópubandalaginu þar sem menn síðan eru að reyna að bregðast við og vernda eitthvað af hinum félagslegu ávinningum eftir á, en án fótfestu í stjórnarskrá Evrópubandalagsins, hinum svokallaða Rómarsáttmála. En þar hafa hin félagslegu gildi engan stuðning. Og hér á Alþingi vilja menn hraða sér að yfirfæra lögmál Rómarsáttmálans um innri markað yfir á Ísland, Ísland sem á að tala einni röddu með Svíþjóð t.d., þar sem efnahagsstarfsemin er byggð upp fyrst og fremst af nokkrum stórfyrirtækjum sem sum hver eru alþjóðlegir hringar með útibú og eignir í yfir 100 ríkjum, eins og ABB, Sandvik og fleiri, svo dæmi séu nefnd.
    Ég held að það sé líka ástæða til að staldra við varðandi þróunina í Evrópu austanverðri sem ég vék hér aðeins að í upphafi máls míns. Fulltrúar Póllands og Ungverjalands, sem eru að brjóta af sér viðjarnar, eru að leita eftir aðstoð í vestri. Hafa m.a. átt viðræður við hæstv. utanrrh. Og hvað hafa þeir verið að nefna við hæstv. ráðherra? Jú, þeir vildu gjarnan ná tengslum við EFTA sem fríverslunarsamtök til þess að ná þeim kostum sem í slíkum samskiptum felast. En hvaða svör eru þeim veitt af hálfu íslenska utanríkisráðherrans, talsmanns EFTA-ráðsins? Jú, þetta er skiljanlegt, herrar mínir og frúr, þetta er skiljanlegt, en þið verðið bara að bíða því við erum að fara í viðræður við Evrópubandalagið um evrópskt efnahagssvæði og á meðan þau mál eru í deiglu og ekki upp gerð þá þýðir ekkert fyrir ykkur að óska eftir aðild að EFTA. Við erum að stefna að öðru EFTA en nú liggur fyrir.
    Ég harma það í raun að sú staða skuli vera uppi að það sé ekki hægt að taka við slíkum óskum frá þjóðum sem eiga mjög á brattann að sækja í efnahagslegu tilliti með því að veita þeim aðild að fríverslunarsamtökum og styðja a.m.k. þann málstað sem þar er borinn fram, styðja hann í raun.
    Ég hef vikið að því, virðulegur forseti, að við þurfum að líta á þessi mál öll í víðu samhengi og taka til þess þann tíma sem við teljum okkur þurfa. Liggur okkur þessi lifandis ósköp á? Eigum við að láta reka okkur til að taka ákvarðanir án þess að hafa góða samvisku af því að hafa athugað okkar gang og hafa rætt við okkar umbjóðendur, fólkið í landinu? Ég sé ekki að það sé nein nauðung sem rekur okkur til að tengjast einu viðskiptabandalagi umfram annað. Á þessi atriði er minnt í niðurlagi samþykktar Alþb. sl. sunnudag. Og ég leyfi mér að vitna til þeirra, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Landsfundur Alþb. telur mikla þörf á að fram fari víðtæk og vönduð athugun á samskiptum Íslands við umheiminn, jafnt í viðskiptalegum, menningarlegum og félagslegum efnum. Leita á samvinnu til allra átta án þess að skerða svigrúm og sjálfsákvörðunarrétt

þjóðarinnar. Þátttaka í EFTA er eðlileg nú sem fyrr, sem og þátttaka í samstarfsverkefnum á mörgum sviðum gagnvart Evrópubandalaginu á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984. Jafnframt þarf að fara fram ítarleg athugun á möguleikum til að efla samskipti við önnur lönd og svæði, m.a. í Austur-Evrópu, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og Austur-Asíu. Þannig þarf sem fyrst að draga upp skýra mynd af viðskiptalegum hagsmunum landsins í víðu samhengi og taka ákvarðanir á grundvelli slíkrar athugunar.``
    En varðandi þá spurningu sem við stöndum hér frammi fyrir og sem hæstv. utanrrh. leggur fyrir þingið og leggur væntanlega fyrir þá ríkisstjórn sem hann er aðili að og Alþb. er aðili að, þá segir í samþykkt landsfundar Alþb., eins og hér hefur þegar raunar verið vitnað til af öðrum ræðumanni, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ekki er hægt að fallast á að á næstu vikum verði knúin fram afstaða um aðild Íslands að formlegum samningaviðræðum EFTA við Evrópubandalagið um myndun evrópsks efnahagssvæðis. Nauðsynlegt er að frekari umræður fari fram áður en til slíkrar ákvörðunar er gengið og að almenningi gefist kostur á að setja sig inn í málavexti. Landsfundurinn telur óhjákvæmilegt að farið verði vandlega yfir málið í heild og þá skýru fyrirvara sem nauðsynlegt er að fyrir liggi áður en afstaða er tekin til formlegra samningaviðræðna.
    Í ljósi ofangreindra sjónarmiða felur landsfundurinn þingflokki Alþb. að höfðu samráði við framkvæmdastjóra flokksins að taka endanlega afstöðu til málsins á Alþingi og í ríkisstjórn.``
    Þetta er sú staða sem málið liggur fyrir í á vettvangi Alþb. og ég vil segja í fullri vinsemd við samstarfsflokka okkar í ríkisstjórn að það er skynsamlegt að þeir átti sig á því að Alþb. telur nauðsynlegt að yfir þessi mál sé farið
með öðrum hætti en fyrir liggur af framkominni skýrslu hæstv. utanrrh.
    Hversu langan tíma það tekur, hvaða efnislegir þættir koma þar við sögu, það verður tíminn að leiða í ljós og þær viðræður sem eðlilegt er að fram fari milli aðila að ríkisstjórn. En hér er svo stórt mál á ferðinni að Alþb. verður ekki dregið til ákvarðana þar að lútandi nema fyrir liggi og hafi verið skýrt að flokkurinn telur að það sé fært vegna hagsmuna Íslendinga að leggja út í þær viðræður og taka þær áhættur sem því mundu fylgja að leggja út í sameiginlegar viðræður með EFTA-ríkjunum.
    Hitt liggur einnig fyrir í þessari samþykkt að við leggjum ríka áherslu á að tvíhliða viðræður hefjist við Evrópubandalagið um okkar sérstöku málefni, það þýðingarmesta efnahagslega sem eru sjávarútvegsmálin og útflutningur sjávarafurða frá Íslandi. ( Gripið fram í: Er þetta krafa Alþb.?) Það er okkar krafa að slíkar umræður fari fram og verði upp teknar. Það kemur skýrt fram í okkar samþykktum og rökin fyrir því eru þar einnig tíunduð. Ég vil segja af því tilefni að ég tel að það sé ekki frambærilegt að halda því fram að

það séu lokuð sund gagnvart Evrópubandalaginu til þess að taka upp tvíhliða viðræður um þessa hagsmuni. Ja, hvar erum við stödd ef EFTA-leiðin ein væri farin með sjávarútvegsmálin og sérhagsmuni Íslands á leiðarenda eftir þeirri leið? Og í millitíðinni eigum við að taka afstöðu til hinna fjögurra þátta, fjármagnshreyfinga, þjónustuviðskipta og búseturéttar með rétt fyrir erlenda aðila til að stofna fyrirtæki á Íslandi áður en við komumst að meginhagsmunum Íslendinga í þeim viðræðum.
    Ég verð, virðulegi forseti, að lýsa nokkurri undrun yfir því hvernig málin eru lögð fyrir, en ég hlýt jafnframt að lýsa yfir von um það að umræður þær sem nú fara fram hér á Alþingi og viðræður milli aðila að ríkisstjórn Íslands leiði til þess að menn nái bærilegum áttum, að menn átti sig með öðrum hætti á því hvernig áherslurnar þurfa að liggja ef við ætlum að vera þeir vörslumenn íslenskra hagsmuna sem væntanlega er í allra huga þó að áherslurnar séu mismunandi og ég hafi gagnrýnt margt af því sem fram hefur komið í þeim efnum.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að taka hér tíma frekar til að svara hér ýmsum þáttum sem fram hafa komið við umræðurnar til þessa. Til þess verður tækifæri ef ástæða er til af minni hálfu síðar við þessa umræðu.
    Ég vil aðeins að lokum segja þetta. Við höfum sjaldan fjallað um stærri mál hér á Alþingi Íslendinga og kannski aldrei þann áratug sem ég hef setið hér á þingi. Ég tel því að við eigum að taka hér þann tíma sem þarf til þessarar umræðu, svo og þann tíma sem við metum nauðsynlegan til þess að átta okkur á okkar undirstöðuhagsmunum og lýsa mun betur inn í króka og kima þessa viðfangsmikla máls áður en nokkrar skuldbindandi ákvarðanir eru teknar eða farið út í viðræður sem leitt geta til neikvæðrar niðurstöðu fyrir íslenska hagsmuni.