Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. fór héðan úr þessum ræðustól áðan með hrein ósannindi. Hann fullyrti að Sjálfstfl. hefði á liðnu hausti samþykkt að virðisaukaskattur gæti verið 25%. Þetta hefur aldrei gerst. Ég skildi hann þannig að það væri einn skattur, almennur virðisaukaskattur. Sjálfstfl. hefur aldrei léð máls á hærri virðisaukaskatti en 22% og það er rétt að geta þess hér að þegar Sjálfstfl. á liðnu hausti flutti tillögu um að skattur á öll matvæli, virðisaukaskattur eða söluskattur, yrði ekki hærri en 10% þá varð það til þess að Alþfl. rauf stjórnarsamstarfið, Alþfl. og Framsfl. og þessi stjórnarmynd sem nú er við lýði varð til. Ég endurtek að Sjálfstfl. hefur aldrei mælt með hærri virðisaukaskatti en 22%. Mér er sagt að hæstv. ráðherra hafi haldið því sama fram í sjónvarpi í gærkvöldi eða fyrrakvöld og hann gerði hér. Hafi hann gert það, þá er ekkert annað fyrir hann að gera en aðeins eitt: Það er að taka þau orð aftur til að vera ekki opinber ósannindamaður og taka þau aftur á sama stað og hann mælti þau hér nú og í þessari sömu sjónvarpsstöð þar sem hann mun hafa fullyrt þetta sama.
    Nú ætlar hæstv. ráðherra að framlengja allar skattahækkanir og bæta við nýjum sköttum og ofan á það á að dengja virðisaukaskatti upp á 26%. Verði þeim að góðu, þeim stjórnarherrum sem ætla sér að mæta þjóðinni eftir að hún sér framan í skattkúgunina, atvinnuleysið, hrunið í þjóðfélaginu sem er óhjákvæmileg afleiðing svona stjórnarhátta.