Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það var býsna spaugilegt að hlýða hér á ráðherra Hagstofu, svo spaugilegt að manni kom helst í hug að hann væri hvort tveggja í senn ráðherra spaugstofu og Hagstofu. ( Fjmrh.: Er þetta nýi brandarinn úr Valhöll?) Það er nú einu sinni svo að þegar Sjálfstfl. lagði hér fram fyrst frv. um virðisaukaskatt var þar gert ráð fyrir því að virðisaukaskatturinn yrði að fullu endurgreiddur á brýnustu matvæli. Þegar söluskattur var settur á matvæli var það krafa Sjálfstfl. að hann yrði að fullu endurgreiddur á brýnustu matvæli og það var ákveðið, það varð niðurstaðan þegar sú breyting var gerð. Núna þegar helstu andstæðingar þessarar skattheimtu eru komnir í ríkisstjórn er ákveðið að endurgreiða aðeins helming af skattinum á brýnustu matvæli. Breytingin sem verið er að gera er sú að það er aðeins verið að endurgreiða helming en áður var endurgreiðslan að fullu á þessi tilteknu matvæli. Allur árangurinn sem ráðherra Hagstofunnar hæstv. hefur náð er þessi, að endurgreiðsla sem áður var full kemur nú aðeins að hálfu. Og það er aumkunarvert af þingmönnum Framsfl. að koma hér upp og freista þess að gagnrýna hæstv. fjmrh. fyrir sleifarlag í þessu efni. Auðvitað er það rétt að öll þjóðin ber fram þá gagnrýni. En bæði þingmenn og ráðherrar Framsfl. bera fulla ábyrgð, fulla ábyrgð á vinnubrögðum hæstv. fjmrh. í þessu efni, sem eru auðvitað forkastanleg. Ef þingmenn eða ráðherrar Framsfl. meintu eitthvað með gagnrýni sinni í þessu efni þá er rétt að minna þá á að þeir hafa völd og aðstöðu til þess að koma sjónarmiðum sínum fram, þeir einfaldlega kæra sig ekkert um það. Þess vegna falla þau ummæli hér dauð og ómerk. En hitt er svo alvarlegt að það er búið að upplýsa það hér í þessari umræðu að hæstv. fjmrh. hefur enn einu sinni farið með rangt mál, farið með hrein ósannindi bæði í fjölmiðlum og hér á Alþingi. Og hann hefur talað hér í tvígang án þess að biðjast afsökunar á því og nú er kominn tími til að hann biðjist afsökunar á rangfærslum sínum.