Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram og óska sérstaklega eftir því við viðkomandi sjónvarpsstöð að hún leiðrétti nú þegar þær rangfærslur sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. um afstöðu Sjálfstfl. til virðisaukaskattsprósentu. Ég minni á það að Sjálfstfl. hefur lagt fram sína skoðun á því að hámarkið skuli vera 22%, þ.e. almenna prósentan. Það kom fram fyrr en við stjórnarslitin 1988 að ýmsir þingmenn Sjálfstfl. lögðu áherslu á tveggja þrepa skatt. Þess vegna vil ég einnig leiðrétta þá rangfærslu fjmrh. þar sem hann segir að þetta hafi verið samþykkt einróma af Sjálfstfl., Framfl. og Alþfl. hér á hinu háa Alþingi þegar virðisaukaskattsfrv. var samþykkt. Það voru nokkrir þingmenn Sjálfstfl. sem lögðu áherslu á að virðisaukaskatturinn yrði tveggja þrepa skattur. Meðal annars á grundvelli þeirrar óskar og þeirra hugmynda var nefnd falið að fjalla um það hvort ætti að vera tveggja þrepa skattur eða ekki. Fjmrh. fer með staðlausa stafi þegar hann heldur því fram að þetta hafi verið einróma samþykkt á sínum tíma.
    En það er athyglisvert að þegar einn af þingmönnum Framsfl., stjórnarþingmaður, stendur hér upp og segir: ,,Það hefur engin vinna verið lögð í að kanna tveggja þrepa skattsfyrirkomulagið, embættismönnum hefur ekki einu sinni verið falið að kanna þetta.`` Það sýnir að hæstv. fjmrh. ætlar að nota þá aðferð sem stundum er notuð í samningum að draga allt fram á síðustu stundu til þess að keyra þetta í gegn eins og hann er að gera núna. Þetta er meginatriðið og meginástæðan fyrir því hvernig komið er.
    Ég vil svo, virðulegur forseti, undirstrika það sem fram hefur komið hér að kjör fólksins, kjör heimilanna hafa þegar rýrnað og skerst um 13--14% í tíð núverandi ríkisstjórnar. Með virðisaukaskatti núv. ríkisstjórnar, þessum 26%, mun þessi kjaraskerðing eða rýrnun aukast um 3--4%, þannig að um næstu áramót mun þessi hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. fjmrh. hafa skert kjör heimilanna um 18%. Þess vegna mótmælir verkalýðshreyfingin því að virðisaukaskattur skuli vera 26% og einnig að það skuli ekki vera tveggja þrepa skattur. ( Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að hálftíminn sem leyfður var til þessarar umræðu er nú liðinn en enn þá eru tveir hv. þingmenn á mælendaskrá.)