Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það er athyglivert að hlýða hér á svör hæstv. fjmrh. Þau hljóða eitthvað á þessa leið:
    Fyrst fer ég með fullyrðingar í fjölmiðla, svo hlýði ég á upplýsingar um það að ég hafi haft rangt fyrir mér og ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því en kannski leita af mér einhvern grun um það hvort einhverjir aðrir kunni líka að hafa sagt ósatt um afstöðu Sjálfstfl.
    Þetta er nú hinn eiginlegi og raunverulegi málflutningur hæstv. fjmrh. Það er þetta sem hæstv. ríkisstjórn ber á borð fyrir Alþingi Íslendinga. Þetta er forystumaður hæstv. ríkisstjórnar, þetta er sá maður sem til að mynda ráðherrar Framsfl. bera mest traust til og láta leiða stjórnarsamstarfið hér á Alþingi. Með þessum vinnubrögðum og með þessum málflutningi gagnvart Alþingi Íslendinga. Og það er athyglivert fyrir fjölmiðlamenn sem hampa þessum hæstv. ráðherra meira en nokkrum öðrum manni að hlýða á hvernig hann játar fyrir Alþingi Íslendinga að rétt mál og sannsögli skipti hann engu máli. Einungis það að fá tækifæri til þess að henda fram fullyrðingum, hvort sem þær eru sannar eða ósannar, í fjölmiðla. Ef hann getur notað fjölmiðlana með þeim hætti, þá er hans metnaði fullnægt. Og það er athygli vert, ekki einasta fyrir Alþingi Íslendinga, heldur líka fyrir fjölmiðla að hlýða á hugarfarið að baki málflutningi hæstv. fjmrh. sem hann hefur viðurkennt og staðfest hér á Alþingi nú með síðustu ræðu sinni.