Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Í 32. gr. þingskapalaga segir svo: ,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar.``
    Nú gerist það æ tíðara að hv. þm. geri þær kröfur til forseta að hálftíminn verði allt að klukkutíma og þar kemur að forseti hlýtur að stöðva þetta. Nú hafa tveir hv. þm. beðið um orðið að nýju og þessi umræða hefur þegar staðið í þrjá stundarfjórðunga þannig að ég mælist til þess við hv. þm. að þeir geri sér grein fyrir því að þessari umræðu verður nú að fara að ljúka.