Vinnubrögð við undirbúning virðisaukaskatts
Föstudaginn 24. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það er örstutt. Ég vil þakka hv. þm. Jóhannesi Geir fyrir að hafa staðið upp og mótmælt því að hæstv. fjmrh. kallaði þennan stjórnarþm. ósannindamann. Hann hefur rækilega afhjúpað hvernig hæstv. fjmrh. hagar sínum málflutningi þar sem hann upplýsir, hv. þm., að tveir embættismenn hafi mætt á þingflokksfundi hjá Framsfl. og skýrt frá þeirri staðreynd að embættismönnum hafi ekki verið falið að vinna að þessu verki. Þetta undirstrikar hvernig vinnubrögð hæstv. fjmrh. eru þegar hann fjallar um þessi mál sem mörg önnur.
    Ég vil einnig undirstrika það sem ég sagði hér áðan að upplýsingar mínar um kjaraskerðingu heimilanna eru frá kjararannsóknarnefnd þar sem segir að kjaraskerðing á þessu ári sé um 13%, þannig að það sem hæstv. fjmrh. sagði um það sem til viðbótar kemur er alrangt. Þegar 26% virðisaukaskatturinn kemur til framkvæmda mun kjaraskerðing heimilanna verða komin upp í 17--18% á þessu eina ári.