Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að fara fram á það að hæstv. utanrrh. verði kvaddur í salinn til að vera viðstaddur umræður um þá skýrslu sem hann fer fram á að rædd verði hér í dag. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til að hæstv. utanrrh. verði sóttur.) Er ráðherra í húsinu? ( Forseti: Hæstv. utanrrh. er í húsinu og kemur innan tíðar.)
    Hæstv. forseti. Evrópa dagsins í dag stendur frammi fyrir geysilegum breytingum á fjölmörgum sviðum. Þar er ekki síst átt við markaðsmál og þá umræðu sem fram fer um einn markað fyrir EB-löndin. Hér er um gríðarlega merkilegar hugmyndir að ræða sem, ef þær verða að veruleika, munu stórefla atvinnulífið í Evrópu og gera samkeppnisaðstöðu evrópskra framleiðenda betri gagnvart framleiðendum utan bandalagsins eins og t.d. Bandaríkjunum.
    Auðvitað munu slíkar breytingar hafa veruleg áhrif hér á Íslandi, hvort heldur við kjósum að vera með í slíku bandalagi eða ekki. Það er hins vegar mín skoðun að við eigum að fara varlega í málin en með opnum huga og jákvæðum. Samkomulag við EB getur skapað mörgum íslenskum fyrirtækjum framtíð, og ekki veitir af eins og staðan er því í dag sjá fáir íslenskir framleiðendur til sólar. Samkomulag við EB getur því stuðlað að endurreisn íslensks atvinnulífs. Það er alveg ljóst að það getur skipt okkur sköpum hvort við tökum þátt í slíku samstarfi eða hvort við ætlum að gerast einangrunarsinnar og loka okkur af hér úti í Norður-Atlantshafinu. Auðvitað verðum við að gæta vel að sjálfstæði okkar og koma fram af fullri reisn, og til þess treysti ég vel þeim aðilum sem með málið fara í dag.
    Þeim ber til að mynda að gæta vel að auðlindum okkar, sjávarútveginum og orkunni, að stefna ekki forræði okkar á þeim vettvangi í hættu. Þeim ber að gæta þess að sett verði lög um auðhringamyndanir sem loki fyrir þann möguleika að eitthvert risafyrirtækið verði einn góðan veðurdag orðið stærsti eigandi íslensks efnahagslífs. Ef svo færi þyrfti hæstv. utanrrh. ekki lengur að fara um landið og spyrja hver ætti Ísland.
    Þetta eru þau tvö meginatriði sem ber að gæta að, með öðrum orðum að hér verði engum erlendum framleiðendum hleypt inn í fiskveiðilögsögu okkar, og varnaglar slegnir gagnvart auðhringamyndun. Til þess að megintakmark þessara viðræðna EFTA og EB nái fram að ganga þarf að nást fram víðtæk samstaða aðildarþjóðanna. Til þess að svo megi verða tel ég að gífurleg vinna sé enn óunnin, og leyfi mér að efast um að þeirri vinnu verði lokið í árslok 1992 eða í upphafi 1992 eins og stefnt er að.
    Ég vil gjarnan inna eftir því hvenær Ísland gæti í fyrsta lagi orðið fullgildur þátttakandi í EB. Er það strax 1992, þ.e. ef við höfum sjálfir ákveðið það, eða hversu langan aðdraganda þarf? Erum við e.t.v. að tala um aldamótin eða enn síðar?
    Hæstv. forseti. Um skýrslu hæstv. utanrrh. er hægt

að segja margt eða öllu heldur spyrja margs. Ég vil þó áður en ég geri það lýsa yfir nokkurri ánægju með skýrsluna sem ég tel vel unna þó hún ef til vill segi ekki alveg nóg og skilji raunar eftir fleiri spurningar en svör. En það kemur ekki að sök því að hæstv. ráðherra mun væntanlega bæta úr því og svara öllum þeim spurningum sem til hans verður beint, eins og hans er von og vísa.
    Ég ætla að leyfa mér að fara lauslega yfir skýrsluna og byrja á bls. 9 í henni en þar segir í III. kafla, Yfirliti yfir niðurstöður stjórnarnefndar EFTA og EB, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi óhindruð vöruviðskipti viðurkenndu báðir aðilar að líta yrði á gagnkvæma viðurkenningu á söluhæfni vöru ef hún uppfyllti skilyrði til markaðssetningar í upprunalandinu.``
    Hér vil ég spyrja hvort þetta eigi við um allar vörur, þar með talin t.d. lyf og hvort þetta gildi þá einnig t.d. um litarefni í matar- og drykkjarvörum. Um báða þessa vöruflokka gilda mjög mismunandi reglur. Ef við ættum að aðlaga okkur þeim reglum sem gilda, til að mynda um litarefni, annars staðar í Evrópu yrðum við að leyfa efni sem við segjum í dag að séu hættuleg og bönnum þar af leiðandi. Getum við sagt, eftir samkomulag við eitthvert bandalag, að hættan af slíkum efnum sé liðin hjá bara vegna samkomulagsins? Það er líka spurning hvernig taka á á innihaldslýsingum og á hvaða tungumáli þær eiga að vera og svo framvegis.
    Varðandi atvinnu- og búseturéttindi vil ég spyrja um réttindaflutninga, uppsafnaðan lífeyri til dæmis. Stendur til að samræma þennan málaflokk þannig að hægt verði að færa áunnin réttindi milli landa? Þá má einnig spyrja um niðurgreiðslur í hvaða atvinnugrein sem er. Er það ekki stefna bandalagsins að leggja af allar niðurgreiðslur, eða í það minnsta að samræma þær þannig að um eðlilega samkeppni geti orðið að ræða? Og hverjar eru þessar sameiginlegu reglur sem talað er um að setja til að tryggja samkeppnisskilyrði innan evrópska efnahagssvæðisins? Það væri fróðlegt ef ráðherra vildi nú vera svo góður að fara aðeins nánar út í það.
    Ein afleiðingin sem við munum sjá við það að opna markaðinn og afnema alls
kyns hömlur er sú að ÁTVR mundi opna dyr sínar upp á gátt fyrir hvaða áfengistegund sem mönnum dytti til hugar að selja hér á Íslandi. Það mætti ekki lengur leggja neinar hömlur á innflutning hvorki á áfengi né tóbaki, alla vega ekki frá EB-löndum. Þessu mundi ég fagna, enda er þessi rekstur bæði ríkinu gríðarlega dýr og þar fyrir utan á hann miklu fremur heima í höndum einkaaðila. Í þessu sambandi er auðvitað freistandi að spyrja hæstv. fjmrh., sem nú er ekki lengur í salnum, um stefnu hans í áfengismálum, um stefnu ríkisstjórnarinnar sem ver tilteknum fjármunum til þess að berjast gegn áfengisneyslu í landinu, en hefur síðan farið inn á nýjar brautir í sölu á áfengi. Það hefur ekki nægt að hafa umboðsmenn fyrir áfengi á Íslandi og verðleggja vöru þeirra um mörg hundruð og jafnvel þúsund prósent, nei það

hefur ekki dugað, heldur er nú íslenska ríkið sjálft orðið umboðsaðili að allnokkrum áfengistegundum og auðvitað hirðir það af því umboðslaun, eða afslátt ef menn kjósa að kalla það því nafni. Og nú spyr ég ráðherra sem er ekki í salnum en spyr þann eina ráðherra sem situr nú í þingsal og þann ráðherra sem var reyndar fjmrh. fyrir ekki mjög löngu síðan: Hversu há voru þessi umboðslaun eða afsláttur á síðasta ári og hversu há er talið að þau verði á þessu ári? Og ég spyr hann einnig: Hvernig hefur þessum fjármunum verið varið? Og spyr áfram: Telur ráðherrann eðlilegt að íslenska ríkið sé umboðsaðili fyrir áfengi? Samræmist það stefnu stjórnvalda í hollustu- og neytendamálum? Um þennan málaflokk er hægt að hafa langt mál sem ég ætla ekki að gera hér.
    Þá er einnig nauðsynlegt að fá að heyra hugmyndir ríkjanna um einföldun á landamæraeftirliti. Hvernig sjá menn það fyrir sér, og hvaða afleiðingar getur það haft að slaka um of á eftirliti með fólki þó að það komi frá einhverju EB-landi? Í því sambandi er ég hræddastur við eiturlyfin. Ég er hræddur um að þó að talið sé auðvelt að smygla inn eiturlyfjum til Íslands í dag, þá verði það hreinn barnaleikur í framtíðinni ef við ætlum að fara að slaka eitthvað á við landamæraeftirlit.
    Hæstv. forseti. Á bls. 15 í skýrslunni er sagt frá því að Íslenska járnblendifélagið hf. hafi verið tekið til skoðunar innan EB vegna meintra undirboða. Ég vildi gjarnan heyra meira um þetta mál og niðurstöðu þess.
    Á sömu síðu kemur það einnig fram að varðandi ábyrgð á vöru á EB-markaði er það framleiðandinn sem ber ábyrgðina á gæðum vörunnar en ekki eins og í EFTA þar sem það er seljandinn sem ber ábyrgðina. Þetta er mjög mikilvægt og mikið réttindamál innflytjenda og seljenda. Og auðvitað er það rétt sem segir í skýrslunni að á meðan EFTA stendur fyrir utan EB og t.d. heildsali er að velja um það hvort hann eigi að kaupa sömu vöru frá annaðhvort EB-landi eða EFTA-landi, þá velur hann að sjálfsögðu EB-landið vegna ábyrgðar framleiðenda.
    Varðandi tollabandalag, sem er mín trú að verði ofan á, hvort sem það verður í upphafi eða eitthvað seinna, þá langar mig að spyrja hvort í því sambandi hafi ekki verið rætt um samræmda tollskrá, og þá á ég við samræmda að fullu, ekki aðeins höfuðflokkar heldur einnig undirflokkar í tollskrá. Í því sambandi ætti ráðherrann að sjá til þess að þeirri verklagsreglu verði komið á að allir reikningar frá framleiðanda fyrir selda vöru milli landa skuli merktir tollskrárnúmerum á hverja vörutegund. Með þessu fyrirkomulagi mundi tollþjónusta hvar sem er innan bandalagsins stórbatna og verða til muna fljótari í afgreiðslu.
    Um fjármagnshreyfingar er auðvitað hægt að hafa langt mál. Ég vil þó segja að það er algjör misskilningur að álíta sem svo að hér muni rísa fjöldinn
allur af erlendum bönkum og tryggingafélögum strax

daginn eftir að við gerum samkomulag við EB, ef við á annað borð gerum það. Ég get ekki séð það fyrir mér að erlendir bankar muni hópast hingað eins og málum er háttað í dag, og það sama má segja um tryggingafélög. Ísland er það lítill markaður og mun verða það verndaður að það er vandséð að stórar peningastofnanir telji sér hag í því að reisa hér mikla starfsemi.
    Hvað varðar hins vegar hið almenna atvinnulíf og einkafyrirtæki þá er þar meiri hætta á ferðinni, enda teljast sæmilega stæðir menn víða erlendis ríkir samkvæmt íslenskri merkingu og það þyrfti engan auðkýfing til þess að kaupa hér upp eins og eitt stykki sjávarpláss. Það eru slíkir hlutir sem við verðum að slá varnagla við þó að Alþb. á nýafstaðinni landsfundarorrustu kúvendi og vilji nú fyrir alla muni koma því til leiðar að útlendingar geti átt sem allra stærstan hlut í íslensku atvinnulífi og íslenskum fyrirtækjum.
    Í EB er ekki gerður neinn greinarmunur á verðbréfum og hlutabréfum. Við það skapast náttúrlega sú hætta sem ég var hér að lýsa, þ.e. að eignarhluti útlendinga geti orðið alger. Ég skal hins vegar viðurkenna að það er vandséð hvernig koma á í veg fyrir frjálsa sölu hlutabréfa ef við á annan borð tökum þátt í því samstarfi sem hér er verið að ræða um.
    Við það að ganga inn í EB mundu íslenskir flutningsaðilar eins og t.d. Eimskip og Flugleiðir væntanlega fá alvöru samkeppni, samkeppni sem þau geta ekki keypt af sér, sem ekki verður myrt eins og Hafskip var á sínum tíma, sem ætti reyndar að vera alveg sérstakt rannsóknarefni. Sú samkeppni sem mundi
koma á samgöngur yrði mjög af hinu góða og mundi vafalaust leiða til lækkandi vöruverðs og kaupmáttaraukningar, þó það sé reyndar orð sem hæstv. ríkisstjórn veit ekki hvað þýðir, enda hennar meginmarkmið að skerða kaupmátt með öllum hugsanlegum ráðum.
    Í skýrslunni kemur fram að sjálfstætt starfandi ríkisborgarar í einu aðildarríki eigi rétt á að starfa í öðru aðildarríki við sömu skilyrði og ríkisborgarar þess ríkis þar sem starfsemi fer fram. Þetta er afar athyglisverður punktur og ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort þetta þýði að skattlagning fyrirtækja verði samræmd að einhverju leyti. Yrðu t.d. opinberir sjóðir opnir fyrir útlendingum sem vilja hefja hér atvinnurekstur?
    Varðandi aðbúnað fólks sem flytur er sagt að óheimil sé mismunun varðandi húsnæði. Ég óska eftir skýringum á þessum lið.
    Mikið hefur verið rætt um fólksflutninga milli landa EB-ríkja og hafa menn hræðst að hingað mundi streyma inn fólk alls staðar að. Reynsla EB-ríkja er ekki þannig eins og sjá má í skýrslunni. Með okkar veðurfar, legu landsins, tungu og menningu í huga hef ég ekki nokkrar áhyggjur af þessum málum. Fólksflutningar hingað geta ef til vill aukist eitthvað örlítið fyrstu árin, en það fólk verður flest farið aftur

innan fárra ára. En það væri athyglisvert að heyra frá ráðherra vegna þess að það tengist fólksflutningum og niðurbrotum á innflutningshöftum hvort með inngöngu í EB sé þar með opnað fyrir innflutningi á heimilisdýrum sem víða eru nú talin til ,,fjölskyldumeðlima`` og við eyddum svolitlum tíma í að ræða hér á síðasta þingi. Verður nú opnað fyrir blessaða hundana? Þetta er nú kannski útúrdúr.
    Innan EB hafa verið settar reglur um viðurkenningu prófa eins og fram kemur í skýrslunni. Þar eru tilteknar ýmsar stéttir manna. Ég vil spyrja hvort þetta þýði það að t.d. lögfræðingur frá einhverju aðildarríkinu mætti þar með hefja lögfræðistörf á Íslandi. Mætti danskur ökukennari fara að kenna á bifreið á Íslandi o.s.frv.? Spurningin er því hvort í þessari viðurkenningu á prófi felist heimild til að praktísera í öðru aðildarríki EB.
    Ég vil spyrja hverju það sætti að Ísland undirritaði ekki fyrr en í október á þessu ári rammasamning um vísinda- og tæknisamstarf á milli Íslands og EB, svokallaða SCIENCE-áætlun sem eins og segir í skýrslunni er samdóma álit bæði EFTA og EB, að samstarf þeirra á því sviði hafi verið mjög gagnlegt og verið mikill hvati á sviði þróunar og tækni í Evrópu.
    Í skýrslunni er kafli um umhverfismál en um hann ætla ég ekki að fjalla hér en ætla að fara þess á leit við hæstv. annaðhvort orðinn eða verðandi umhverfisráðherra að hann gæfi okkur sínar skoðanir á þeim málaflokki, en eins og endranær er hann eins og fló á skinni og getur ómögulega setið hér í salnum nokkra einustu stund og því til marks, eins og kannski hæstv. forseti þingsins veit, hef ég reynt að fá að inna hæstv. hagstofuráðherra eftir svörum við ákveðinni fyrirspurn núna í tvær vikur, en það hefur ekki verið nokkur einasta leið því að hæstv. ráðherra hefur ekki fundið tíma til að sitja eða sinna þingstörfum hér. ( Forseti: Forseti vill taka það fram að það eina sem hann veit er að samkvæmt töflu hér er hæstv. hagstofuráðherra ekki í húsinu og þar af leiðandi er ekki hægt að óska eftir því að hann verði hér viðstaddur umræðuna.) Hæstv. forseti. Þetta kemur mér ekkert á óvart.
    EFTA-ríkin leggja þunga áherslu á að komið verði á sams konar stöðlum fyrir ársreikninga fyrirtækja og grundvelli fyrir sameiningu hlutafélaga milli ríkja. Þetta er auðvitað afar brýnt mál sem ber að taka upp. Hins vegar er það nú svo að meðferð ársreikninga hjá íslenskum fyrirtækjum virðist í mörgu ábótavant og væri því ekki úr vegi að nota tækifærið og koma skikk á þau mál. Ég vil í því sambandi minna á þáltill. sem ég og hv. þm. Hreggviður Jónsson höfum lagt fram þar sem þess er farið á leit við ríkisstjórnina að gerð verði könnun á störfum íslenskra endurskoðenda og íslenskum reikningsskilum.
    Samhliða þessum viðræðum EFTA og EB eigum við að taka upp viðræður um aðgang Íslendinga að erlendum menntastofnunum. Það er mál sem þolir ekki neina bið. Nú þegar er farið að bera á því að íslenskir námsmenn komist ekki að hjá hinum ýmsu

menntastofnunum EB-ríkjanna. Um þetta atriði verður að nást samkomulag sem allra fyrst, hvort sem niðurstaðan verður sú að við förum inn í þetta samstarf eða ekki. Hins vegar mælir það með því að fara í slíkt samstarf að hér er skortur á atvinnutækifærum fyrir langskólagengið fólk. Ungt fólk fær ekki lengur vinnu við hæfi menntunar þess, en með því að ganga til samstarfs við EB mundi vinnumarkaður opnast fyrir unga fólkið og nýtist þá menntun þess.
    Í skýrslunni er örstuttur kafli með yfirskriftinni ,,Evrópa fólksins``. Ég vil gjarnan fá skýringar á þessu orðatiltæki. Felst í því að stefnt sé að nokkurs konar Bandaríkjum? Er það stefna EB að ná öllum aðildarríkjunum undir einn fána, með einum gjaldmiðli? Ég tel reyndar að það sé aðeins tímaspursmál. Eitt hagkerfi, einn gjaldmiðill.
    Þá vildi ég gjarnan, hæstv. forseti, fá nánari skýringu á þátttöku Íslands í ferðamálaári Evrópu 1990, hvernig að henni verði staðið fyrir okkar hönd, hvernig ferðalög ungs fólks innan Evrópu verða aukin eins og segir í skýrslunni og hverjir standa að nefndinni.
    Í VIII. kaflanum, Réttarreglur og stofnanir, er stjórnskipun Evrópubandalagsins lýst. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Innan EB getur EB-ráðið sett reglur sem gilda sem lög í aðildarríkjunum.`` Og í kaflanum um bein réttaráhrif EES-reglna segir, með leyfi forseta: ,,Reglur innan EB eru settar með mismunandi hætti. EB-reglur, reglugerðir fá sjálfkrafa lagagildi í aðildarríkjunum þegar þær hafa verið birtar í stjórnartíðindum EB.`` Og seinna í þessum sama kafla segir, með leyfi forseta: ,,Innan EB ganga EB-reglur framar landslögum.`` --- Hér finnst mér við vera komnir út á ansi þunnan ís, þegar EB-reglur eiga að fara að ganga framar landslögum. Og mér er spurn: Samræmist þetta stjórnarskránni? Í mínum huga er þetta atriði afar varasamt og maður spyr sjálfan sig hvort hér sé ekki verið að gefa eftir hluta af sjálfstæði okkar, þegar reglur einhvers staðar utan úr heimi eiga að fara að ganga íslenskum landslögum framar, jafnvel þó við eigum fulltrúa á þeirri samkundu.
    Það kemur fram í skýrslunni að þau EFTA-ríki, þar sem þjóðréttarsamningar verða ekki sjálfkrafa hluti af landsrétti við fullgildingu, hafa lýst því yfir að þau muni leitast við að lögfesta EES-reglur sem ætlað er að hafa bein réttaráhrif. Nú getur vel verið að það hafi farið fram hjá mér, en ég man ekki eftir þessari yfirlýsingu frá íslenskum yfirvöldum, en það getur hæstv. ráðherra náttúrlega upplýst hér síðar í umræðunni.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að sinni. Ég minni þó á að íslenskir útvegsmenn hafa samþykkt áskorun á stjórnvöld að snúa sér í æ ríkara mæli að EB þar sem þeir hafa eðlilega áhyggjur af framvindu mála. Við getum endað sem einangrunarsinnar hér lengst úti á Atlantshafi. Þeir fara fram á beinar viðræður við EB um frjálsan aðgang að mörkuðum EB fyrir sjávarafurðir okkar. Undir þessar óskir þeirra LÍÚ-manna vil ég taka og

skora á ráðherra að gera slíkt hið sama. Hvernig væri nú að hæstv. utanrrh. tæki það upp hjá sér að berjast fyrir því að höfuðstöðvar EB verði staðsettar á Íslandi? Og þegar menn eru búnir að ná því í gegn, eigum við þá ekki að kippa inn Evrópuþinginu líka?
    Hæstv. forseti. Það er skoðun Frjálslynda hægriflokksins að við eigum að taka þátt í samningaviðræðunum sem væntanlega verða ákveðnar þann 19. des. nk. Við verðum hins vegar að fara að öllu með gát og gæta alveg sérstaklega að auðlindum okkar og sjálfstæði. Það er hins vegar áhyggjuefni að ríkisstjórnin skuli ekki enn hafa myndað sér neina skoðun á málinu sem eru vinnubrögð sem að vísu koma ekkert á óvart. Hæstv. utanrrh. er hins vegar alveg með sína skoðun á hreinu, enda lýsti hann því yfir í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi að þann 19. des. mundi hann skrifa undir fyrir Íslands hönd þannig að það virðist hreinn óþarfi að vera að tefja ríkisstjórnarfundi með slíku smámáli sem þessu. Það hlýtur að teljast eðlilegt að hv. Alþingi fjalli hins vegar nánar um málið og að það liggi alveg ljóst fyrir hvort það er meirihlutavilji fyrir þessum viðræðum eða ekki. Persónulega tel ég að svo sé en tel hins vegar gott fyrir ráðherrann að hafa það veganesti með sér út að hann hafi meiri hluta Alþingis að baki sér.
    Ég vil í lokin, hæstv. forseti, fá að inna hæstv. utanrrh. eftir því hvort samstarf sem þetta sem hér er til umræðu kosti nú ekki eitthvað. Þurfum við að greiða í sameiginlega sjóði EB? Verðum við skattlögð eftir einhverjum sérstökum leiðum eða aðferðum o.s.frv.? Þetta er auðvitað mikilvægt að fá fram í umræðunni.
    Hæstv. forseti. Ég hef þegar sagt að ég styðji það að við tökum þátt í þessum viðræðum, enda tel ég að skammstöfunin EB geti alveg eins staðið fyrir eitthvað betra.