Löggæsla í Reykjavík
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 14. þm. Reykv. Guðmundi H. Garðarssyni fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp í þessari utandagskrárumræðu.
    Ég kem fyrst og fremst upp til að láta þá skoðun mína í ljós að það eigi að gjörbreyta skipulagi lögreglumála hér á landi og að lögreglumál eigi að fara yfir til sveitarfélaganna. Fram til ársbyrjunar 1973 hygg ég vera, höfðu sveitarfélögin mikið með lögreglumál að gera. Lögreglumenn voru starfsmenn sveitarfélaganna og sveitarfélögin gerðu fjárhagsáætlanir fyrir lögregluna. Ríkið greiddi reyndar ákveðinn hlut. Það sem var hins vegar gallinn við það fyrirkomulag var að ríkið stjórnaði lögreglunni að miklu leyti þó að eðli málsins skv. hefðu tengslin milli sveitarstjórnanna og lögreglustjórnar verið miklu meiri undir þessu fyrirkomulagi heldur en nú er. Það varð hins vegar til þess að sveitarfélögin vildu losna við þennan kaleik og því var sú skipulagsbreyting gerð að lögreglumál urðu alfarið ríkismál.
    Það er enginn vafi á því að það er vaxandi óánægja með þjónustu lögreglunnar, ekki bara hér í Reykjavík, heldur og víða úti um land. Ég tel að lögreglumennirnir sjálfir geri það sem þeir geti gert, en ég held að skipulagið sé í grundvallaratriðum rangt. Lögreglunni er nú miðstýrt héðan úr Reykjavík, úr dómsmrn., og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Við höfum verið að lesa í blöðunumm núna að undanförnu dæmi um atvik, bæði slys og innbrot þar sem líður jafnvel sólarhringur áður en rannsókn hefst vegna þess að skipun hefur verið gefin úr dómsmrn. í Reykjavík um að ekki sé hægt að borga meiri yfirvinnu og því er frestað að senda lögreglumenn á vettvang í alvarlegum málum. Eitt slíkt tilvik er t.d. til meðferðar í DV í dag. Lögreglumál eru verkefni sveitarfélaga í mjög mörgum löndum hér í nágrenni okkar. Þess vegna tel ég að við eigum að gjörbreyta okkar skipulagi að þessu leyti. Við þurfum auðvitað að hafa ríkislögreglu að vissu marki, t.d. til rannsókna, til þess að sjá um vissa þætti í öryggismálum ríkisins en um öll þessi mál í heild þarf að vera náin samvinna á milli lögreglustjórnarinnar og sveitarstjórnanna.
    Þetta vildi ég láta koma hér fram í tilefni af þessari umræðu sem hv. 14. þm. Reykv. hefur hafið.