Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er að vísu a.m.k. eitt rétt sem hæstv. utanrrh. sagði í sinni ræðu, að þeir stóðu að þessu Sjálfstfl. og hann, að koma á þessum virðisaukaskatti eins og hann var. ( Gripið fram í: Og Framsfl.) Það voru fyrst og fremst þessir tveir flokkar sem börðust fyrir því. Það er mér kunnugt um. En það er rangt að samið hafi verið um það að setja þennan skatt svona. Það var samið um --- (Gripið fram í.) Ég veit a.m.k. ekki annað. Þá hefur verið farið á bak við mig --- að þarna yrðu tvö þrep. Ég spurði hæstv. fjmrh. að því fyrir tíu dögum hvort það væri ekki rétt að það ættu að vera tvö þrep, 13% og 26%, og hann staðfesti það hér.
    Ég segi fyrir mig að ég tek ekkert mark á því þó að lofað sé að gera þetta t.d. um næstu áramót. Ef settur verður á skattur í einu þrepi --- ja, við vitum hvernig hefur verið staðið við sumt af því sem hefur verið lofað, t.d. af Alþfl., í þessu efni. Ég tek ekkert mark á því og tel að annaðhvort verði að fresta þessu, ef ekki er hægt að standa við það sem búið er að tala um, eða láta það standa, tvö þrep, og ég treysti hæstv. fjmrh. fullkomlega fyrir því að standa við það sem hann hefur sagt í þessu efni. ( Gripið fram í: Nei.) Það geri ég.