Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það kemur í ljós nú við þessar umræður að allir stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa lýst því yfir að þeir vilja virðisaukaskatt með tveimur þrepum, þeir sem á annað borð eru fylgjandi virðisaukaskatti.
    Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að það sé enginn þingmeirihluti fyrir núverandi stjórnarstefnu og hann hefur beðið um frest á málinu fram eftir næsta ári. Undir það hefur reyndar tekið hv. þm. Stefán Valgeirsson þegar hann segir að hann hafi spurt um það hvort virðisaukaskattur verði lagður á með einu eða tveimur þrepum og fengið skýr svör um það sem eru önnur en þau sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. við þessa umræðu.
    Það eru tveir hv. þm. sem þurfa að taka hér til máls, fyrst hæstv. forsrh. sem verður að koma hér í pontu og gera grein fyrir skoðunum Framsfl., sem hélt fund núna um helgina, og segja skýrt og skorinort frá því hvort Framsfl. hafi sömu stefnu og hæstv. fjmrh. og ef ekki hvaða skoðun Framsfl. hefur á þessu máli, og það er líka hlutverk hæstv. forsrh. sem á að heita fyrirliði í þessari hæstv. ríkisstjórn að kveða upp úr um það hver sé stjónarstefnan því að hún finnst ekki við þessa umræðu.
    Loks vil ég víkja máli mínu til hæstv. ráðherra Júlíusar Sólnes. Hver er skoðun Borgfl.? Þegar Borgfl. kom inn í ríkisstjórnina fengu þeir því framgengt að gróft brauð kom inn í upptalninguna um þá vöruflokka sem áttu að verða undanþegnir fullum virðisaukaskatti eða að endurgreiðsla ætti að fara til bakaranna vegna grófs brauðs. Það var það eina sem þeir fengu fram. Nú er það horfið úr tillögum sem er verið að ræða. Af þessu tilefni, þegar gengið er svona á stefnu Borgfl., að hann fær ekki lengur endurgreiðslu vegna grófs brauðs, hlýtur þjóðin auðvitað að spyrja formann Borgfl. um það hver sé stefna flokksins í dag þegar það eina sem hann lagði til hefur fallið brott
úr fyrirhuguðum hugmyndum hæstv. ríkisstjórnar, ef á annað borð er hægt að tala um einhverjar hugmyndir í þessu sambandi. ( Utanrrh.: Þú lifir ekki á brauði einu saman, hv. þm.) Ég veit að ýmsir menn hafa gert mikið úr brauði, þar á meðal einn sem hæstv. utanrrh. vill helst líkjast því að hann breytti litlu brauði í brauð fyrir marga. En því miður verð ég að segja við hæstv. utanrrh. að þó að hann sé mikill maður hugsa ég að hann geti nú ekki að öllu leyti farið í föt þess manns sem var uppi fyrir tæpum tvö þúsund árum. ( ÞP: Hann er alla vega kominn í sandalana.)
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hér í dag skýrir auðvitað betur en flest annað að stærsta vandamál þjóðarinnar í dag er hæstv. ríkisstjórn. Ef ekki kemur fram frv. á næstu tveimur dögum sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi lýsir yfir að hann sé samþykkur er þetta mál auðvitað dautt, og enginn virðisaukaskattur verður settur á um næstu áramót.