Gildistaka virðisaukaskatts
Mánudaginn 27. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Eins og þeir þekkja sem hafa séð samþykktir aðalfundar miðstjórnar Framsfl. kemur þar greinilega fram að Framsfl. er reiðubúinn að standa við það sem segir í málefnasáttmála, að innleiða virðisaukaskatt með einu þrepi. Framsóknarmenn hafa hins vegar sagt, og reyndar fjallað alloft um það á þingflokksfundum, að sjálfsagt sé að skoða framkvæmd þessa viðamikla máls og ef ná megi betri árangri með því að fara í tveggja flokka kerfi eigi að gera það --- (Gripið fram í.) Tveggja þrepa, fyrirgefið þið. Tveggja flokka kerfi væri að vísu ágætt --- tveggja þrepa kerfi eigi að skoða, og við teljum sérstaklega eftir samþykktir flestra félagssamtaka, VSÍ, ASÍ, BSRB, Neytendasamtakanna og Stéttarsambands bænda, að það eigi að skoða. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að eftir þann mikla undirbúning sem hefur orðið, og mörg fyrirtæki eru reiðubúin til þess að taka upp virðisaukaskattinn eins og kom fram, að því er mér er tjáð, mjög greinilega hjá Verslunarráðinu á fundi í hádeginu, væri skynsamlegast að taka hann upp og halda síðan áfram skoðun á því hvernig þetta verður gert sem best. Virðisaukaskattur er mjög flókin skattmeðferð, og mér dettur ekki í hug annað en að þar þurfi að skoða ýmsa þætti í framkvæmdinni eftir því sem reynsla fæst.