Ragnhildur Helgadóttir (frh.) :
    Frú forseti. Ég mun nú halda áfram þar sem frá var horfið. Ég var að skýra frá tillögu sem við fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. lögðum fram á fundi nefndarinnar nú í morgun. Það er nú ástæða til að ræða það mál í viðurvist utanrrh. og ekki viðfelldið að ræða það að honum fjarstöddum, sérstaklega vegna þess að hann kom ekki til nefndarfundarins í morgun eins og gert hafði verið ráð fyrir þannig að ef ég má biðja um að ... ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um að utanrrh. mun vera rétt að koma.) Ef ég má þá doka við, fara að dæmi ýmissa ágætra þingmanna og doka við litla stund eftir hæstv. ráðherra.
    Frú forseti. Það er nokkuð sérkennilegt að standa í ræðustóli til að tala um þessa mikilvægu skýrslu eftir að hún hefur nú verið rædd svo ítarlega án þess þó að nokkuð liggi fyrir um skýra afstöðu Alþingis. Mér virðist það hljóti nú að fara að líða að því að hæstv. utanrrh. komi. ( Forseti: Gengur nú hæstv. utanrrh. í salinn og þá vil ég biðja hv. þm. að halda áfram ræðu sinni.) Alltaf er það gleðiefni, frú forseti, þegar þeir birtast sem sárt var saknað.
    Ég ræddi um það hér í dag að fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. hefðu flutt þar tillögu um það sem kalla má tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið án þess að
vera tvíhliða viðræður í þeim skilningi að þar sé talað um víðtækt samstarf við Evrópubandalagið. Það sem við höfðum í huga voru viðræður um sérhagsmunamál Íslendinga og í raun og veru einungis hluta þessara sérhagsmunamála, það sem við teljum mest aðkallandi og augljóst sanngirnismál.
    Þegar við höfum rætt um tvíhliða viðræður á liðnu ári, þá hafa menn oft haft það í huga að í því fælist einhvers konar almennt samkomulag við Evrópubandalagið, jafnvel viðræður um einhvers konar aukaaðild, og þess vegna er það að menn hafa ekki tekið því með sérstakri hrifningu þegar rætt hefur verið um að samtímis viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins ættum við líka að vera í tvíhliða viðræðum um slík almenn atriði. Þá hefur það hvarflað að mönnum hvort það geti verið skynsamlegt að vinna þannig á tvennum vígstöðvum, berjast á tvennum vígstöðvum samtímis fyrir sama málefninu, en það er ekki þetta sem við erum að tala um. Við erum hins vegar að tala um málefni sem fullkomin rök eru fyrir og skilningur á og jafnvel yfirlýsing um af hálfu EFTA-ráðherranna í frægri og títtnefndri Oslóaryfirlýsingu, en í yfirlýsingu æðstu manna aðildarríkja EFTA í Osló 14.--15. mars 1989 segir í 16. tölul., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við viðurkennum sjálfsákvörðunarrétt hverrar einstakrar EFTA-þjóðar hvað varðar tvíhliða frumkvæði og samninga við EB með tilliti til sérhagsmuna þeirra.``
    Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta ákvæði í Oslóaryfirlýsingunni taki af tvímæli um það að með því að fara út í tvíhliða viðræður um þessi sérhagsmunamál okkar erum við ekki á neinn hátt að ganga á svig við það samkomulag sem við höfum gert

við önnur EFTA-ríki eða að skera okkur úr í þeim hópi eða segja upp samkomulagi við þá á neinn hátt eins og hæstv. utanrrh. lét að liggja í ummælum sínum nú fyrir helgina. --- Ég mun gera örlítið hlé. Ég skil það vel að hæstv. ráðherra þurfi að tala við utanríkismálanefndarmenn og ég gagnrýni það alls ekki. En ræðumaður er líka að tala við hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. hefur í mörgu að snúast og þarf að vera á mörgum stöðum í senn eins og eðlilegt er þegar svo er ástatt á stjórnarheimilinu og þar þarf að berja í ýmsa bresti. Við söknuðum hans líka mjög á fundi utanrmn. nú í morgun. Við teljum það í raun og veru alveg óhjákvæmilegt að hæstv. utanrrh. finni tíma og fái tækifæri til að sitja fund utanrmn. um þessi efni áður en hann hverfur á vit samstarfsmanna sinna eða starfsbræðra í EFTA-ríkjunum. Það er líka í samræmi við yfirlýsingar hæstv. ráðherra sjálfs á fundi utanrmn. þar sem hann hefur lýst yfir að hann muni formlega bera þetta mál undir utanrmn. áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um framhald viðræðna nú í desembermánuði. Enda er það svo að lögum samkvæmt ber ríkisstjórninni að ráðfæra sig við utanrmn. Alþingis um öll meiri háttar utanríkismál. Það er auðvitað sjálfsagt, bæði að gera þá kröfu að svo sé gert og líka að greiða fyrir því að það verði unnt. Þess vegna væri það langeðlilegast að ræða þessi mál þegar utanrmn. hefði fengið tækifæri til þess að sitja fund með hæstv. ráðherra. Ég þykist vita, án þess að ég hafi nokkurt umboð frá nefndinni að það muni ekki standa á utanríkismálanefndarmönnum að koma til slíks fundar því að við teljum að mikið sé í húfi.
    Ástæðan til þess er að hér erum við að fjalla um og gera tillögu um tvíhliða viðræður allt annars efnis og allt annars eðlis en tvíhliða viðræður um almennt samstarf við EB, hugsanlega aukaaðild eða slíkt.
    Hér erum við að ræða um mál sem er algjörlega sjálfstætt, er í raun og veru algjörlega afmarkað efni, sjálfstætt að því leyti til að þetta er hlutur sem við verðum að afgreiða hvað sem öðru líður. En á hinn bóginn er það í samhengi við EFTA-viðræðurnar að því leyti til að það er ekki skynsamlegt að okkar mati í Sjálfstfl. að halda áfram með þær til hins ýtrasta án þess að afgreiða áður eða samtímis hagsmunamál okkar í sambandi við tollaniðurfellingu af
fiskafurðum. Ef við látum það undir höfuð leggjast, þá erum við í Sjálfstfl. sannfærð um að tíminn vinni gegn okkur, eins og sagt er, að þessu leyti. Það er margt sem bendir til þess að svo sé. Við vísum á bug þeirri röksemd sem hæstv. ráðherra setti reyndar fram í spurningu þegar hann sagði: ,,Hvað eigum við að bjóða á móti?`` Við erum þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða sanngirniskröfu vegna þess að við erum í raun og veru að tala um tollaniðurfærslu á saltfiski og á ferskum flökum. En þessi þáttur hefur stórlega vaxið að mikilvægi síðan bókun 6 kom til framkvæmda á sínum tíma því að þá var meiri hluti saltfiskútflutnings Íslendinga til landa utan Evrópubandalagsins, en núna fer megnið af saltfiskútflutningi til Evrópubandalagslandanna. Þess vegna er það miklu mikilvægara fyrir okkur að ná

fram þessari tollaniðurfærslu núna heldur en var þá. Að sögn samstarfsnefndar atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi var þá látið í veðri vaka að Íslendingum yrði gefinn eftir tollur af saltfiski, þó að hann hefði minni þýðingu þá heldur en nú. En eins og við vitum varð staðreyndin allt önnur og nú hefur verið tekinn upp 13% tollur á flöttum saltfiski og 20% á saltfiskflökum. Það var árið 1985 og ástæðan var sögð vera sú að það komu stórir framleiðendur inn í Evrópubandalagið þegar Spánn og Portúgal bættust í hópinn.
    Þetta eru auðvitað staðreyndir sem liggja fyrir í ýmsum gögnum og hafa komið fram í ræðum manna, en þetta eru líka staðreyndir sem gera það auðveldara að aðgreina þetta mál algjörlega frá heildarviðræðum EFTA við Evrópubandalagið. Núna þegar 97% af saltfiskútflutningnum fer til Evrópubandalagsins og þegar við horfum til þess hve mjög styrkir Evrópubandalagsins til sjávarútvegsins hafa aukist, þá sjáum við að það eru gjörbreyttar aðstæður að því er þessar tegundir varðar núna frá því sem var þegar bókun 6 tók gildi. Þess vegna er það mjög aðkallandi að við náum því fram sem hreinu sanngirnismáli að viðbótarbókun sé gerð, þannig að við þurfum a.m.k. ekki að búa við hlutfallslega hærri toll nú en þá var.
    Út á þetta gengur till. okkar sjálfstæðismanna og við teljum að við megum engan tíma missa. Við höfnum því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt, og reyndar fleiri hæstv. ráðherrar, okkur til mikillar hrellingar og allt að því skelfingar, þegar þessir hæstv. ráðherrar tala fullum fetum um að slíkt sé gjörsamlega þýðingarlaust og geti ekki gengið því að það rekist á sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins sem gangi út á sameiginlega nýtingu auðlinda innan bandalagsins. Þetta er auðvitað fráleitt því við erum ekki að tala um gagnkvæma nýtingu auðlinda eða neitt slíkt. Við erum ekki að tala um þátttöku í bandalaginu. Af þeirri ástæðu getur þetta ekki staðist. Það gegnir líka öðru máli í okkar tilfelli með samninga við Evrópubandalagið en við sjáum hér í norrænum gögnum að sé orðið með nágranna okkar og vini á Grænlandi. Eins og menn muna gerðu þeir sérstakan samning við Evrópubandalagið, eftir að þeir sögðu sig úr því, að því er varðar fiskveiðar við Grænland. Sá samningur átti fyrst og fremst að miða að því að tryggja þeim sjálfum réttinn til að ráða fiskveiðunum, en jafnframt létu þeir Evrópubandalagið hafa tiltekinn kvóta af fiskveiðiréttindum í sinni lögsögu sem bandalagið greiddi fyrir í beinhörðum peningum. Þessi samningur var gerður til 10 ára um það leyti sem Grænland gekk úr Evrópubandalaginu og hann hefur nú nýlega verið endurnýjaður til fimm ára. Hann á að gilda frá 1990 til 1995. Í þeim upplýsingum sem ég aflaði mér til að átta mig á innihaldinu í þeim samningi kemur fram að kvótarnir hafa verið minnkaðir en endurgjaldið hefur verið hækkað um 30%. Þetta ályktum við auðvitað að tengist að einhverju leyti aðild Dana, sem fara með utanríkismál Grænlands, að Evrópubandalaginu. En í greininni segir, og ég vitna enn í ritið

Nordisk kontakt, nýjasta hefti, að Grænland búi að sérstöku samkomulagi við Bandaríkin og Japan, þ.e. að þessi ríki viðurkenni Grænland sem þróunarland og þess vegna veiti þau því tollaniðurfærslu. Þetta eitt út af fyrir sig, tollaniðurfærslan, væri auðvitað ekki nægileg skýring á því sem segir hér í þessari grein, heldur er það greiðslan sem einnig kemur þarna til skjalanna og svo það þriðja að kvótarnir hafa verið minnkaðir frá því sem var þegar samningarnir voru gerðir fyrir 10 árum.
    Að því er Ísland varðar stendur málið allt öðruvísi. Við höfum fríverslunarsamninginn, við höfum bókun 6. Skilyrði sem voru til staðar að því er varðaði saltfiskinn þegar sú bókun tók gildi eru breytt og vilyrði sem sagt er að veitt hafi verið um niðurfellingu tolla af þeim saltfiski hafa brugðist. Þess vegna hefur róðurinn þyngst fyrir íslenska útflytjendur.
    Þessi till. vonast ég til að fái samþykki í utanrmn. Og ég vonast líka til þess, þar sem ég sé nú hv. formann utanrmn., að hann boði fund í þeirri nefnd hið allra fyrsta og þess þá heldur sem ég hef heyrt það hér á göngum hússins að hæstv. utanrrh. sé á förum úr landi og muni e.t.v. ekki koma aftur fyrsta kastið, e.t.v. ekki fyrr en eftir jól, ekki veit ég það. Það segir sig sjálft að nú er heldur illt í efni ef við næðum því ekki að ræða þessa till. og fá það alveg svart á hvítu að þetta mál verði tekið upp hið bráðasta og helst áður eða a.m.k. ekki síðar en um leið og haldið er áfram viðræðum milli EFTA og Evrópubandalagsins ef hæstv. ráðherra fær þá umboð til þess frá
samstarfsflokkum sínum.
    Ég leyfi mér nú að víkja að því í framhaldi af þessu hvers vegna er nauðsyn á hinu almennara umboði fyrir hæstv. ráðherra. Ég get skýrt frá því að þingflokkur sjálfstæðismanna, sem ræddi þessi mál og fleiri nú síðdegis í dag, gerir þá eindregnu kröfu að formlegt umboð liggi fyrir til handa hæstv. utanrrh. og jafnframt að fyrir liggi tilmæli þingsins um að þegar verði undirbúnar samningaviðræður við Evrópubandalagið um að taka sérstaklega til greina hinar breyttu aðstæður að því er varðar saltfiskútflutning Íslendinga og þá miklu aukningu sem orðið hefur á saltfiskútflutningnum til Evrópubandalagslandanna. Samið verði um viðbótarákvæði við bókun 6 um að tollafríðindi fáist eins og ég ræddi um áðan. Með öðrum orðum að þessi tvö atriði, þessi tvenns konar umboð og fyrirmæli eða erindisbréf fylgist að.
    Það er náttúrlega algjör háðung fyrir Íslendinga --- og ég trúi því reyndar ekki enn --- að hæstv. utanrrh. skuli láta sér raunverulega detta í hug að ganga til áframhaldandi viðræðna, þeirra viðræðna sem fram eiga að fara 19. des. án þess að hafa formlegt umboð í höndum. Hvernig heldur hæstv. ráðherra að málstaður Íslands líti út þegar hæstv. ráðherra, formaður ráðherranefndar EFTA, utanrrh. Íslands úr margra flokka ríkisstjórn, mætir og það er ljóst að það er hver höndin upp á móti annarri í þessari hæstv. ríkisstjórn um stefnu gagnvart þessu máli? Eða svo er

a.m.k. að sjá. Það er lágmarkskrafa að við fáum það upplýst alveg undanbragðalaust hver er stefna þeirra hæstv. ráðherra sem ekki hafa þegar gefið það til kynna. Mér sýnist vera nokkuð ljóst að hæstv. ráðherrar Alþfl. og hæstv. forsrh. séu allir sammála um að ganga eigi til viðræðnanna milli EFTA og EB án þess að taka upp tvíhliða viðræður. Hæstv. utanrrh. fór heldur háðulegum orðum um þá hugmynd að taka upp tvíhliða viðræður í umræðunum hér fyrir helgi. Mér þykir sú afstaða með ólíkindum því ekki þarf annað en skoða skýrslu hæstv. ráðherra sjálfs, sem liggur hér á borðum okkar og við erum nú að ræða, til að sjá að það stenst ekki sem hæstv. ráðherra sagði að það geti ekki gengið við hliðina á EFTA-viðræðunum. Ég vísa um þetta til tölul. 16 í Oslóaryfirlýsingunni.
    Í öðru lagi hljótum við að gera þá kröfu að fá fram hver er afstaða hins ráðandi flokks, eða þess flokks sem til skamms tíma hefur verið ráðandi í ríkisstjórninni, Alþb. Hver er afstaða hæstv. ráðherra Alþb.? Við höfum í höndum niðurstöðu landsfundar Alþb. sem er flokksþing þess flokks og stefnumörkun í þessu máli. Hún er allt önnur en stefna þeirra hæstv. ráðherra frá Framsfl. og Alþfl. sem ég gat hér um áðan.
    Í yfirlýsingu Alþb. stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta, þ.e. í ályktun landsfundar Alþb.: ,,Íslendingar gera kröfu um fríverslun með fisk án tolla og styrkja. EFTA-ríkin hafa fallist á þá stefnu en langt virðist í land að hún hljóti undirtektir innan EB þar sem með sjávarútvegsmál er farið svipað og landbúnaðinn. Gæta verður þess í samningum um þessi mál að fríverslun gangi ekki svo langt að við missum möguleika til þess að stýra ráðstöfun fiskaflans og tryggja að vinnsla haldist í landinu.`` Ég hnaut um þetta orðalag, frú forseti. ,,Möguleika til að stýra ráðstöfun fiskaflans.`` Hvað þýðir þetta, hvaða dyrum er verið að halda opnum þarna?
    Síðar í þessari grein, þar sem vikið er að ófrávíkjanlegri forsendu í viðræðum við Evrópubandalagið, stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í viðræðum við EB er það ófrávíkjanleg forsenda að Íslendingar stjórni einir nýtingu fiskistofna við landið og krafa okkar er að fá tollfrjálsan og hindrunarlausan aðgang með sjávarafurðir að mörkuðum bandalagsins.`` Ég vek athygli á þessu orðalagi. Það eru notuð orðin ,,að stýra ráðstöfun fiskaflans`` og ,,að stjórna nýtingu fiskistofna við landið``. Það segir ekki að Íslendingar skuli sjálfir ráðstafa fiskaflanum og að Íslendingar skuli sjálfir nýta fiskistofnana. Þeir ætla að tryggja sér áhrif í þessu rétt eins og Alþb. hefur nú sagt eftir að það komst að því að rétt væri að skipta um skoðun í stóriðjumálunum, að þeir ætli þar að tryggja sér áhrif með einhverjum hætti þegar útlendingar verði með í spilinu. Hér eru þessir hæstv. ráðherrar ekki viðstaddir svo að það er nú e.t.v. þýðingarlítið að spyrja um hug þeirra. Ég veit að hér er sérfræðingur Alþb. í utanríkismálum, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. En hæstv. ráðherrar, hvað ætla þeir að fela hæstv. utanrrh. að gera? Ætla þeir að láta málið afskiptalaust? Ætla

þeir að hafa þá stefnu sem boðuð er í þessu plaggi landsfundar Alþb. þar sem hafnað er viðræðum á grundvelli EFTA og EB samkomulags en krafist tvíhliða viðræðna? Hæstv. utanrrh. hafnar tvíhliða viðræðum en virðist ráðinn í að ganga til EFTA-EB-viðræðna. Þetta eru gjörsamlega ósamrýmanleg sjónarmið, a.m.k. í bili. Það má vera að umþóttunartími, einhverjar klukkustundir sem eftir lifa þangað til hæstv. ráðherra fer úr landi, verði til þess að ríkisstjórnin komist að sameiginlegri niðurstöðu.
    Hér er enn eitt dæmið um það að ríkisstjórnin er ekki samstiga í stóru hagsmunamáli.
    Það er ekki einungis til að sýna fram á ósamlyndi ríkisstjórnarinnar sem ég legg þessa miklu áherslu á nauðsyn umboðs hæstv. ráðherra til handa heldur er
það svo að ég óttast um hagsmuni Íslands. Ég óttast um hagsmuni Íslands þegar utanrrh. fer til viðræðna í einhverjum þýðingarmestu málum sem við höfum fjallað um á þessari öld, að frátöldu sjálfu sjálfstæðismálinu. Þetta varðar ekki svo lítið sjálft frelsi Íslendinga sem ríkis og alla hagsmuni þessarar þjóðar. Og ég óttast að þessir hagsmunir verði tæpast teknir alvarlega þegar hæstv. ráðherra kemur og hefur hvorki umboð ríkisstjórnar né Alþingis til þess að semja. Hvað þá með umboð atvinnulífsins? Hvað með almenning í landinu? Hvernig var skoðanakönnunin nú á dögunum? Það kom í ljós ótrúlegur upplýsingaskortur. Einhvern veginn höfðu upplýsingar ekki náð eyrum almennings þannig að engin leið var að giska á hvað almenningi þætti um þetta mál þegar upplýsingarnar lægju fyrir. Hvert er þá lýðræðislegt umboð hæstv. ráðherra? Hver er staða þessa máls séð frá lýðræðislegu sjónarmiði? Hæstv. ráðherra hefur hvorki ríkisstjórnina, þingið, atvinnulífið né þjóðina á bak við sig og hvernig í ósköpunum er hægt að ganga til viðræðna, til undirbúnings samningaviðræðna um jafnmikilvæg málefni og þetta þegar svona stendur á?
    Ég væri ekki að ræða um þetta núna ef ég væri ekki farin að efast dálítið um að hæstv. ráðherra ætlaði að koma með þáltill. Ég hélt það í dag og ég hélt það til klukkan sex, hálfsjö í dag, að hæstv. ráðherra ætlaði að leggja fram till. til þál. á Alþingi Íslendinga um að hann fengi umboð, á grundvelli skýrslu um EFTA-viðræður og um samstarf EFTA til undirbúnings viðræðna við Evrópubandalagið, stuðning til að halda áfram þessum viðræðum á grundvelli þess mikla og góða starfs sem þegar hefur verið unnið, því að hann þyrfti umboð til þess að halda áfram, ekki af lögfræðilegum ástæðum, heldur pólitískum.
    Hæstv. ráðherra sýnir Alþingi og þjóð sinni þá lítilsvirðingu að fara ekki einu sinni fram á slíkt umboð eða stuðning. Mér þykir það afar einkennilegt og mér þykir það allt að því hlutur sem maður blygðast sín fyrir sem þm. á Íslandi að nú muni okkar utanrrh., ég segi okkar utanrrh. úr hvaða flokki sem hann kemur, hann er okkar utanrrh., sitja á fundi til undirbúnings samningaviðræðna um þessi mikilvægu mál með sundraða ríkisstjórn að baki sér
þegar aðrir ráðherrar hafa fengið umboð frá sínum

þjóðþingum þessa dagana. Ráðherrar Evrópubandalagsins fara ekki heldur til þessara viðræðna umboðslausir. Þeir ætla ekki, samkvæmt fréttum, að mæta til viðræðna 19. des. fyrr en þeir eru búnir að fá formlegt umboð frá ráðherraráði EB. En utanrrh. Íslands, sem þarf að ræða um þátt af lífshagsmunum lands síns í leiðinni, hann fer til viðræðnanna án sérstaks umboðs.
    Ég segi, frú forseti, það er ekki um seinan að bæta úr þessu og ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ráðherra og til ríkisstjórnarinnar allrar að standa nú með hæstv. ráðherra að því að biðja um slíkt umboð, formlega, í þáltill., ásamt umboði til þess að ræða um framhald bókunar 6. Þetta segi ég í trausti þess að hv. 2. þm. Austurl. komi þessum skilaboðum til samherja sinna í ríkisstjórninni því að ég efast, eftir það sem á hefur gengið hér í öðrum málum í dag, um að hæstv. utanrrh. eða hæstv. viðskrh. eða hæstv. forsrh. taki að sér að koma þeim skilaboðum áfram. En svo gæti hv. 2. þm. Austurl. auðvitað réttilega sagt sem svo að hann væri enginn sendiboði fyrir þm. Sjálfstfl. Ég er vissulega að tala hér um málefni sem Sjálfstfl. leggur höfuðáherslu á. Það er alveg ljóst. Ég er líka að tala um málefni sem snertir hagsmuni Íslendinga mjög. Og ég er að tala um að gera málstað Íslands sterkari. Þess vegna bið ég hæstv. forseta að taka að sér að koma þeim skilaboðum til hæstv. ráðherra Alþb. að drjúgur hluti þingheims, a.m.k. allur þingflokkur sjálfstæðismanna, væntir þess að þeir greini frá stefnu sinni í þessum málum og væntir þess að ráðherrarnir standi, ásamt hæstv. utanrrh., að till. til þál. um þetta efni. Ef hæstv. utanrrh. sér hins vegar ekki ástæðu til að biðja um slíkt umboð þá sýnir það í hvaða farveg þingræði á Íslandi stefnir. Því ríkisstjórnin situr svo lengi sem þingið veitir henni traust. Ríkisstjórn sem ekki nýtur trausts þingsins er ekki þingræðisstjórn. Ríkisstjórn sem ekki sýnir þinginu fyllstu virðingu á ekki heldur að sitja. Og hæstv. utanrrh., sem ætlar sér að ganga til viðræðna eins og á stendur án þess að biðja um þetta umboð, á ekki að gegna því embætti.
    Ég tel sem sagt að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða að það varði því að þingið geti ekki sýnt traust þeirri ríkisstjórn sem kemur fram með þessum hætti gagnvart því og gagnvart borgurum landsins. Þetta felur nefnilega í sér miklu meiri áhættu en einungis þá að við, hvert og eitt okkar, tökum afstöðu með eða á móti ýmsum hugmyndum sem fram koma í þeim skjölum sem við höfum undir höndum um þessi mál. Þetta varðar meiru. Þetta varðar virðingu þessa lands okkar sem okkur hefur verið trúað fyrir. Það varðar virðingu þessa lands í samfélagi þjóðanna og það er okkur lífshagsmunamál að hagur okkar sé virtur, að staða okkar sem þingræðisríkis og menningarríkis sé virt. Ef gengið er fram hjá þessu þá geta þessi verðmæti skerst af völdum þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Mér hefur orðið tíðrætt um þetta mál, frú forseti, því að ég get ekki neitað því að mér er mikið niðri fyrir og ég hygg að svo sé um fleiri þm. en þm.

Sjálfstfl. Hæstv. ráðherrar hafa lýst því hér hvað eftir annað að það sé ljóst að við njótum mikils skilnings ráðamanna Evrópubandalagsins, þess vegna getum við hin --- það liggur í orðunum --- tekið lífinu nokkuð rólega. Þeir hafa rætt persónulega við ýmsa ráðamenn. Hæstv. forsrh. hefur rætt við starfssystkin sín í ýmsum voldugum ríkjum Evrópubandalagsins. Þau hafa mikinn skilning á sérstöðu Íslendinga. Hvers vegna þá ekki að láta þennan skilning sjást í orðum sem eru skráð á blað og verða að viðbót við bókun 6 í fríverslunarsamningnum?
    Hver segir ekki við okkur að hann hafi mikinn skilning á sérstöðu okkar? Ég efa ekki að þessir ráðamenn hafi það, en ég held hins vegar að hlutur okkar liggi eftir að nýta þann byr sem okkar ráðamenn segjast hafa orðið varir við. Þann byr verðum við að nýta núna, en ekki einhvern tíma seinna þegar kannski hefur orðið samningur á milli EFTA og Evrópubandalagsins. Það hefur e.t.v. fjarað ýmislegt burt á þeim tíma.
    Við vitum að það er sitthvað sem bendir til þess að sjálfur undirbúningur Evrópubandalagsins til raunverulegra samningaviðræðna við EFTA sé í raun og veru hvergi nærri kominn í höfn. Við vitum að miklir erfiðleikar eru í sambandi við vissa þætti, í sambandi við félagslega sáttmálann t.d. þar sem ágreiningur er um það meðal ríkjanna hvort fella eigi vissa þætti inn í nýjan, félagslegan sáttmála með þeim afleiðingum að hann verði hluti af lögum landanna. Þá er verið að tala um efnisatriði, lagaleg efnisatriði, sem ekki hafa fengist samþykkt í aðildarríkjunum í þau 30 ár sem félagsmálasáttmáli Evrópu hefur verið til. Það væri með ólíkindum ef þau fengjust samþykkt allt í einu núna á örskömmum tíma. Þess vegna er ágreiningur um hvort félagsmálasáttmáli Evrópubandalagsins á að vera pólitísk yfirlýsing eða bindandi samningur. Ef hann yrði bindandi þá er ljóst að ráðamenn margra landa telja að verið sé að koma lagaákvæðum inn eftir óeðlilegum leiðum, reglum sem ekki hafa komist á með samningum launþegasamtaka og atvinnurekenda í ríkjunum eða þá inn í lög ríkjanna. Með öðrum orðum að ósamræmi í samsetningu Evrópuþingsins annars vegar og þjóðþinganna hins vegar, geti haft þessar afleiðingar.
    Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði. Það yrði allt of langt mál, en mér er það hins vegar ljóst að Evrópubandalagsmönnum er mikið í mun að láta á þetta reyna og margnefndur Jacques Delors, formaður ráðherraráðs Evrópuráðsins, sagði á þingi Evrópuráðsins nú í haust: ,,Við skulum ekki fara í grafgötur um það að við munum láta á þetta reyna. Yfirlýsing ríkjanna tólf verður prófraun á það hvort þau eru í raun og veru sammála um að viðurkenna viss sameiginleg gildi og að breyta þessum gildum í réttindi.`` Þetta er í raun og veru tilraun sem Delors er að tala um og menn hafa svo mjög fjallað um. Hann segir að við megum ekki halda að neinu af því, sem þessi tólf ríki muni ætla að koma sér saman um, verði breytt á neinn hátt fyrir tilstilli eða áhrif EFTA-ríkjanna með hinum breiðari viðræðum, eins

og hann segir.
    Það er því ekki alveg óskiljanlegt sem haft var eftir forseta Frakklands í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum þegar hann fjallaði um mismunandi viðhorf innan Evrópubandalagsins og sagði um EB-EFTA-viðræðurnar að það kynnu e.t.v. einhverjir að vera núna í Evrópubandalaginu sem vildu heldur ganga í EFTA eftir þetta samkomulag. Þetta er hlutur sem við þurfum að velta fyrir okkur. Þetta er ein af hinum mörgu óþekktu stærðum í þessu dæmi að það á e.t.v. eftir að koma nýtt munstur innan þessa svonefnda tveggja stoða kerfis.
    Ég vil víkja að fleiri atriðum sem ég tel nokkuð óljós. Þetta var afar lauslegt um félagsmálin, en fleiri atriði eru vandasöm. Ég geri ekki lítið úr því að nauðsynlegt sé að ná samkomulagi fyrir EFTA- og EB-ríkin um það í hvaða formi reglur um félagsleg réttindi þurfa að vera. En það er einnig fleira, sem getur ráðið úrslitum og hefur verið vanmetið að nokkru, a.m.k. ef dæma má eftir því sem oftast hefur verið rætt um og það er þetta: Fimmti hópurinn svokallaði sem fjallaði um lagaleg og stofnanaleg málefni, eins og það er þýtt í skýrslu hæstv. utanrrh., hefur, samkvæmt skýrslunni, bent á ýmis atriði sem til greina geta komið um aðferð við ákvarðanatöku og um meðferð ýmiss konar reglna. Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni hér fyrir helgina: ,,Ef vilji er fyrir hendi að ganga til samninga við hið fjóreina frelsi finnast vafalaust leiðir til að leysa hin lagalegu vandamál í framkvæmdinni.``
    Ég hefði, frú forseti, haldið að hin lagalegu vandamál væru e.t.v. það af því sem eftir er sem mestur vandi væri að leysa. Og ég hefði líka haldið að lausn þeirra réði úrslitum um það að hve miklu leyti ríkin sjálf hefðu ákvörðunarrétt. Lausnin gæti þess vegna ráðið úrslitum um þátttöku í hinu evrópska efnahagssvæði þó að samkomulag yrði um önnur efni. Ég hefði talið að hæstv. utanrrh. ætti að leggja áherslu á það í viðræðunum að fá þau atriði sem allra skýrast fram því að reynslan af hinum lagalegu vandamálum innan Evrópubandalagsins sýnir okkur samkvæmt frásögnum sem birst hafa um Evrópudómstólinn í Lúxemborg að þar fara vandamálin vegna lagalegra ágreiningsatriða sívaxandi. Þess vegna hefur þurft að stofna nýja deild í dómstólnum í Lúxemborg til þess eins að greiða úr lagalegum spurningum vegna
viðskipta landanna þannig að það verkefni hefur margfaldast. Það segir sig því sjálft hver nauðsyn það er að hafa reglurnar skýrar til þess að komast hjá sem allra flestum árekstrum og líka hver nauðsyn það er að ríkin viti fyrir fram með hvaða hætti verður staðið að ákvörðunum um ýmis efni sem í raun og veru varða hversdagslíf borgaranna.
    Í skýrslu hæstv. ráðherra segir m.a.: ,,EFTA-ríkin telja að því meiri sem þátttaka EFTA-ríkjanna verður í ákvarðanamótun í EB því auðveldara verði að ná sameiginlegum ákvörðunum innan EES. Jafnframt telja þau að viðeigandi þátttaka þingmanna eigi að vera í sameiginlegri ákvarðanamótun. Ekki hefur enn verið rætt með hvaða hætti slík þátttaka gæti verið.`` Hér

eru með öðrum orðum mörg spurningarmerki í þessu litla atriði. Og ég verð að segja að miðað við núverandi formennsku í EFTA er ég haldin nokkrum efasemdum um það hvað verður talin viðeigandi þátttaka þingmanna. Á þingi formanns ráðherranefndar EFTA er það ekki talið viðeigandi af hans hálfu eða þeirrar ríkisstjórnar sem hann situr í að þingið samþykki umboð ráðherranum til handa. Hver verður þá talin viðeigandi þátttaka þingmanna í ákvörðunum sameiginlegs efnahagssvæðis?
    Ég held að við þurfum að fá skýrari afstöðu hæstv. ráðherra og eitthvað sem sannfærir okkur um það að hann ætli sér að fá umboð þingsins til þess að við
getum treyst því að hann haldi á þessum málum eins og við vildum að yrði. Og ég held að með umboði gætum við gengið svo frá.
    Hins vegar er alveg ljóst, og ég tek undir það, að auðvitað verða EFTA-ríkin á þessu stigi og framvegis að fylgjast með frekari framvindu mála í EB á allan þann hátt sem heimilt er samkvæmt samningum. Það er ljóst að Evrópubandalagið hefur tryggt sig í bak og fyrir gegn að því er virðist of miklum áhrifum EFTA með því að segja í viðræðunum, að ítreka, eins og segir á bls. 36 í skýrslunni, að EES megi ekki hafa áhrif á forræði EB til sjálfstæðrar ákvarðanatöku en hins vegar komi EB til með að leggja megingrunn að EES-reglum.
    Þetta er auðvitað allstrangt skilyrði, þetta er töluverð þrenging á svigrúmi EFTA í þessum viðræðum, en jafnframt virðist vera opnuð sú leið að einhvers konar sameiginlegur úrskurðaraðili eða sameiginlegur dómstóll komi til. Og auðvitað verður að viðurkenna að það mundi stuðla að því að ekki kæmi til árekstra á milli þeirra stofnana. En engu síður eru hugmyndir um það, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum enn þá, of óljósar. Þess vegna tel ég að í framhaldsviðræðunum verði það að vera tryggt að hæstv. ráðherra hafi jafnan samráð við Alþingi og að hann sinni miklu, miklu betur þeirri þinglegu og lagalegu skyldu sinni að hafa stöðugt samráð við utanrmn. um þetta efni. Það verður enn nauðsynlegra á næsta ári að því er ég tel, ef hæstv. ráðherra fær umboð ríkisstjórnarinnar til að halda þessu verki áfram.
    Óneitanlega hefði verið nokkur freisting fyrir mig að víkja að nokkrum þáttum í jaðarmálefnunum sem svo eru kölluð. Ég hef aðeins vikið að félagsmálefnunum lítils háttar. Mér þætti freistandi að undirstrika það sem raunar hefur komið fram hjá öðrum hve mikla þýðingu samstarf okkar við EB-ríkin og EFTA-ríkin á sviði menntamála hefur. En um það gilda nú þegar ýmsir samningar. Þau mál eru núna í þeirri mótun innan Evrópubandalagsins að þar er margt óafgreitt enn þá. Þó að Evrópubandalagsríkin eða háskólar þess haldi til haga nokkrum kvóta, háskólaplássum fyrir stúdenta úr Evrópubandalagslöndunum, þá er ekki þar með sagt að þessi mál séu komin á skýran grundvöll innan Evrópubandalagsins. Það skortir enn töluvert á að menn nái raunverulega að framkvæma ýmsa sáttmála

sem þegar eru í gildi í álfunni um gagnkvæma viðurkenningu prófa, t.d. í háskólum sérstaklega, og það gilda ekki einu sinni sömu reglur innan sumra ríkjanna. Við getum nefnt Þýskaland sem dæmi. Það eru mismunandi reglur, það eru mismunandi próf tekin gild á mismunandi stigum í mismunandi landshlutum. Próf sem er viðurkennt t.d. í Karlsruhe er ekki viðurkennt sem jafnlangt nám í Bayern og svo mætti lengi telja. Ég hef leitað upplýsinga um það hvernig þessi lönd ætli að framkvæma þetta víðtæka samstarf á meðan þessi mál hafa ekki verið leyst og mér hefur einfaldlega verið svarað á þann veg að þetta misræmi sé ákvörðunarefni hinna einstöku þýsku ríkja --- af því að ég nefndi Þýskaland hér sem dæmi --- en það sem skiptir máli í þessu sambandi er fyrst og fremst það að ævinlega væru frátekin nokkur pláss og þeim haldið til haga fyrir stúdenta frá Evrópubandalagslöndunum sem kynnu að vilja flytja sig á milli.
    Að því er varðar vísindasamstarf tel ég að samstarf Íslendinga við þessi ríki skipti meginmáli af því að það tengist nýjum þáttum í atvinnustarfsemi ríkjanna. Það er undirbúningur nýsköpunar á sviði atvinnulífsins. Það getur verið um að ræða sameiginleg verkefni margra landa. Þar sem við erum of smátt samfélag til að sinna þeim nægilega í samkeppni við aðra og með nægilegum árangri til að það standist í samkeppni við aðra, tel ég það eitt af stærstu hagsmunamálunum varðandi svokölluð jaðarmálefni að við gerumst þátttakendur í vísindasamstarfinu. Og ég hef trú á því að þar eigum við eftir að geta lagt fram þekkingu og aðstöðu á sumum sviðum sem verulegu máli skiptir og reyni ég þá að komast hjá þeirri freistingu að nefna að ég miði þar við fólksfjölda. Ég á við að raunverulega er sérstaða Íslands slík að við ættum að geta lagt fram
skerf sem máli skiptir í samstarfi þessara háþróuðu ríkja.
    Frú forseti. Að lokum einu sinni enn um hagsmuni okkar í sjávarútvegsmálum. Á það hefur verið bent að sjávarútvegurinn hér á landi jafngildi iðnaðinum í EB-ríkjunum að því er varðar framleiðsluverðmæti. Hæstv. ráðherrar hafa hér hver af öðrum sagt að við gætum ekki náð hagsmunum okkar fram núna vegna þess að við þyrftum að láta fiskveiðiréttindi í lögsögu okkar á móti. Má ég minna á ummæli sem ég hlustaði á í sjónvarpinu nú fyrir nokkrum dögum þegar viðtal var haft við aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands, frú Adam Schwatzer, þegar hún sagði: ,,Við sækjumst ekki eftir fiskveiðum í ykkar lögsögu. Ekki Þýskaland og ekki Evrópubandalagið.`` Mér þykir þessi yfirlýsing skipta miklu því að hér er um að ræða ráðherra sem hefur með Evrópubandalagsmálin að gera í þýsku ríkisstjórninni og þetta kemur heim og saman við það sem sá embættismaður, sem fer með málefni Íslands og Noregs í embættismannaskrifstofunum í Brussel, sagði við okkur í Evrópustefnunefnd Alþingis nú fyrir ári síðan, en hún sagði að sér þætti það leitt og óskiljanlegt að heyra það hvað eftir annað frá íslenskum ráðamönnum að Evrópubandalagið sæktist

eftir fiskveiðiréttindum í lögsögu Íslands. Þetta kvað hún alrangt. Ekkert slíkt væri uppi á teningnum og þetta væri misskilningur sem þyrfti að eyða. Þess vegna þykir mér það tímabært að hæstv. ráðherrar leggi þennan misskilning nú til hliðar. Hann kann að hafa komið upp einhvern tíma í einhverjum bollaleggingum um aðild eða eitthvað slíkt. Ekki veit ég hvað hæstv. ráðherrar hafa verið að ræða þegar þetta hafði verið sagt í óformlegum viðræðum. En umfram allt er slíkt ekki á dagskrá, slíkt er fjarri öllu lagi og það er ekki það sem við erum að tala um heldur einungis sanngirni í framhaldi af því samkomulagi sem við höfum þegar gert og í samræmi við þær reglur sem bæði við og Evrópubandalagið hefur undirgengist.
    Ég læt þessu máli lokið, frú forseti, og vonast til þess að við getum nú séð hér á borðum og afgreitt þáltill. um þessi efni áður en hæstv. ráðherra fer úr landi.