Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Í ræðu síðasta hv. ræðumanns kom fram að Alþingi þyrfti að samþykkja umboð til hæstv. utanrrh. Ég vil því láta það koma fram að ríkisstjórnin telur ekki þörf á slíku. Við lítum svo á að hér sé um framhald á þeirri vinnu að ræða sem ákveðin var með leiðtogafundinum í Osló þegar tekin var ákvörðun sameiginlega af EFTA-ríkjunum að ganga til þessa verks sem nú í allmarga mánuði hefur verið undir okkar forustu. Þar var fallist á þá skoðun Delors að rétt væri að EFTA-ríkin gengju sameiginlega til þessa verks og viðræðna við Evrópubandalagið í framhaldi af þessum undirbúningi. Næsti áfangi eru könnunarviðræður sem við lítum á að utanrrh. hafi fullt umboð til að ganga til. (Gripið fram í.) Hann hefur það frá ríkisstjórninni. ( Gripið fram í: Það nægir ekki.) Hann er utanrrh. í meirihlutastjórn hér á landi, hv. þm. (Gripið fram í.) Hann hefur umboð frá okkur. Fyrst eru það nú könnunarviðræður og síðan samningaviðræður. Hins vegar vil ég taka mjög undir það sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni að það er afar nauðsynlegt að utanrmn. þessa þings fylgist nákvæmlega með því sem fer fram og vitanlega hefur utanrrh. ekki umboð til að binda þingið eða þessa þjóð á nokkurn máta. Það liggur í hlutarins eðli. Allt slíkt verður vitanlega að koma hér fyrir þingið svo að það er samráðið sem þarna er hið mikilvægasta í þessu máli. Það verður að vera.
    Fyrst ég er staðinn hér upp og nokkuð mikið hefur verið rætt um tvíhliða viðræður, þá vil ég aðeins segja þetta: Vitanlega hafa þær stöðugt verið í gangi þó að deila megi um það hvort þær hafi verið á því formlega stigi sem hér er verið að ræða um. Ég hef sjálfur lýst því að ég tel sjálfsagt að allt sé gert til þess að fá útvíkkun á bókun 6. En það er búið að reyna það af hverjum ráðherranum og sendiboðanum eftir annan.
    Menn verða að minnast þess að í ræðu þeirri sem Delors hélt 17. jan. sl. segir hann að kostir séu tveir: Annars vegar að fara í tvíhliða viðræður við hvert land og hitt, sem hann segir að Evrópubandalagið kjósi, að ræða við EFTA sameiginlega. Og á leiðtogafundinum í Osló í mars er fallist á þessa leið sem verður t.d. til þess að tvíhliða viðræður við Austurríki verða ekki. Þeim er vísað á bug. Ég verð að viðurkenna að það hljómar dálítið einkennilega fyrir okkur Íslendinga eftir að við höfum þarna samþykkt þessa leið sem Evrópubandalagið leggur áherslu á að koma svo og óska eftir því, ef ég má orða það svo, að fara hina leiðina. Ég held að menn þurfi að hugsa dálítið hvernig þetta getur borið að eftir að við erum búnir að samþykkja sameiginlegar viðræður og eftir að Evrópubandalagið er búið að tilkynna okkur að það sé sú leið sem það vilji kanna fyrst.
    Ég get upplýst að ég átti fyrir nokkrum dögum viðræður við Martin Bangeman sem er einn af ,,kommissörum`` eða ráðherrum Evrópubandalagsins og

þá sagði hann mér þetta enn einu sinni, að það væri eindregin skoðun Evrópubandalagsins að þessar viðræður við EFTA sem heild yrðu að ganga fyrir. Spurningin er: Vilja menn enn þá einu sinni fá svar við þessu, vilja menn fá neitun við þessu, formlega neitun við því að Evrópubandalagið gangi til tvíhliða viðræðna? Það mikilvægasta í þessu er það að halda vel til haga okkar sérhagsmunum og það hefur verið gert á hverju einasta skrefi þessa verks og kemur greinilega fram í skýrslu hæstv. utanrrh. Það veit ég að allir þingmenn, t.d. EFTA-nefndin þegar hún var þarna á ferðinni gerði mjög vel. Og ég leyfi mér að segja að það höfum við gert í viðræðum við Mitterrand, viðræðum við Margréti Thatcher, viðræðum við Kohl, viðræðum við Lubbers o.s.frv. Við höfum gert það alla tíð, það má segja byrjað og lokið hverjum fundi með því að leggja áherslu á þessa sérhagsmuni Íslands.
    Menn hafa sagt: Af hverju þá ekki að taka upp beinar viðræður við þessa æðstu menn, þessa forsætisráðherra o.s.frv.? Staðreyndin er sú að málin koma ekki þangað fyrr en þau eru búin að fara í gegnum embættismannaferilinn í Brussel. Þannig er það kerfi. Hins vegar tel ég afar mikilvægt að þegar málin koma þangað með sérstöðu okkar Íslendinga, þá erum við búnir að fá sterk vilyrði frá þessum aðilum sem við skulum þá vona að haldi. Aðalatriðið er að halda þessu til streitu og aldrei að slaka þar neitt á. En ég vildi sem sagt segja það hér að við lítum svo á að fundurinn núna í desember og framhaldið sé framhald á því sem var hafið með leiðtogafundinum í Osló og ekki sé þörf á sérstöku umboði frá Alþingi í því skyni.