Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar frv. um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla var lagt fram á síðasta kjörtímabili studdi Kvennalistinn frv. og gerðu þingkonur hans þá grein fyrir afstöðu Kvennalistans til þessarar tilraunar sem í raun var verið að gera þá.
    Með minnkandi sjávarafla er nauðsynlegt fyrir okkur að reyna að auka gæði þess afla sem kemur úr sjó og gefa fiskvinnslustöðvum möguleika til sérhæfingar. E.t.v. hefur þróun þessara markaða ekki orðið jafnhröð og jákvæð og menn höfðu vænst, en þó tel ég þá eiga fullan rétt á sér. Það er aðeins eitt sem ég vildi gera athugasemd við í 1. gr. um að leyfi til reksturs skuli aðeins veitt til eins árs í senn. Ég get ímyndað mér að það sé dálítið stuttur tími fyrir þá sem ætla að leggja í slíkt fyrirtæki því að þetta eru stór fyrirtæki og töluverður stofnkostnaður sem þeim fylgja. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi stutti tími hafi ekki reynst mönnum erfiður í þeirri tilraun sem nú þegar hefur verið gerð.
    Víða erlendis er það lögboðið að allur fiskur sé settur á slíkan markað og reyndar hefur sú hugmynd komist á kreik hér í umræðum um sjávarútvegsmál núna á þessu ári hvort ekki væri rétt að gera slíkt hið sama hér á landi, hvort ekki þurfi einhverjar reglur, ekki síst vegna þess mikla útflutnings á ferskum fiski sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.
    Í ljósi þeirrar umræðu sem nú er um innri markað EB, Evrópubandalagsins, vil ég fagna sérstaklega a-liðnum í 2. gr. þar sem tiltekið er að þeir sem slíkan uppboðsmarkað reka og eiga skuli hafa íslenskan ríkisborgararétt og fasta búsetu á Íslandi, og sömuleiðis það sem kemur í framhaldinu, að hlutafé skuli allt vera í eign íslenskra ríkisborgara. Margir óttast í umræðunni um Evrópubandalagið að við séum að glata yfirráðarétti yfir auðlindum okkar með
því að hleypa útlendingum jafnvel bakdyramegin inn í auðlindir okkar og m.a. í fiskmarkaðina. Þess vegna tel ég vera nauðsynlegt og mjög gott að hafa þetta ákvæði hér skýrt.
    Ég ætla við þessa 1. umr. aðeins að lýsa þeirri skoðun okkar kvennalistakvenna að við erum fylgjandi því að fiskmarkaðarnir fái að lifa áfram, en það er ýmislegt fleira sem þarf að gera varðandi sjávarafla okkar. Hér liggur fyrir annað frv. sem varðar sjávarútveginn um þróunarstarf og rannsóknir sem ég tel líka ástæðu til að fagna. En ég vildi hér við þessa 1. umr. rétt lýsa því að við teljum að fiskmarkaðirnir eigi rétt á sér. Það var reyndar talað nokkuð mikið um fjarskiptamarkaði hér áður fyrr því að margir óttuðust að landsbyggðin gæti ekki notið þeirra kosta sem fiskmarkaðirnir byðu upp á, enda hefur komið í ljós að þeir eru aðallega hér á suðvesturhorninu, en það getur auðvitað orðið þróun í þá áttina þó að lög taki gildi um þá fiskmarkaði sem nú þegar eru fyrir hendi.