Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að tala við þessa umræðu en þar sem hér hafa orðið mjög málefnalegar og fróðlegar umræður um frv. tel ég rétt að segja hér nokkur orð.
    Ég held að fiskmarkaðir hafi sýnt að þeir gegni mjög miklu og þýðingarmiklu hlutverki í því að miðla á milli kaupenda og seljenda því hráefni sem til skiptanna er. Það hefur komið í ljós að með stofnun fiskmarkaða hafa komið upp mörg smáfyrirtæki sem hafa keypt af markaðinum og fullunnið ákveðnar vörur og selt á erlendan markað og fengið meiri verðmæti en ella, meiri en frystihúsin, þessi hefðbundnu. Þess vegna held ég að fiskmarkaðirnir, þótt þær miklu væntingar sem voru bundnar við þá, alla vega þeirra sem bjartsýnastir voru, hafi ekki komið í ljós, hafi eftir sem áður leikið ákveðið og mikilvægt hlutverk.
    Það er ekki aðeins það heldur hefur þetta leitt af sér hærra verð fyrir fiskinn og komið sjómönnum og útgerðarmönnum til góða. Á þessu ári skilst mér að hafi komið meira afli til fiskmarkaðanna en í fyrra og árið þar áður. Eftir því sem mér skildist er markaðurinn í Reykjavík að nálgast 20 þús. tonn og það er töluverð aukning frá því sem var á síðasta ári. Það eru ekki aðeins skipin sem eru gerð út frá Reykjavík og Reykjanesi sem nýta sér þetta, heldur hafa togarar og bátar frá landsbyggðinni í vaxandi mæli komið til Reykjavíkur á fiskmarkað og á Reykjanes og landað þar. Það er meira að segja orðin krafa hjá mörgum sjómönnum að hluti aflans verði seldur á fiskmörkuðunum. Þá er svo komið að útgerð Granda, eins stærsta fiskvinnslufyrirtækisins hér í Reykjavík, setur ávallt hluta af aflanum á fiskmarkaði og jafnvel kaupir hann sjálft. En þetta sýnir það að þessi markaður er mikilvægur.
    Þegar ég frétti fyrst af því að stofna ætti þessa markaði batt ég miklar vonir við fjarskiptamarkaði og taldi raunar að hægt væri að tengja landið betur saman í tölvum og koma upplýsingum með greiðum hætti í gegnum þessa fjarskiptamarkaði og kaupendur víðast hvar um landið gætu um leið og tilkynnt væri inn á móðurtölvu hvað væri til skiptanna boðið í þann afla. Það hefur þó ekki orðið. Þróunin hefur orðið sú að það hafa verið þessir tveir höfuðmarkaðir í Hafnarfirði og Reykjavík sem hafa staðið upp úr og að mínu viti, eins og ég sagði áðan, skipt töluverðu máli.
    Hér hafa orðið umræður um beina siglingu togara og báta á markaði erlendis og það hefur ekki minnkað þrátt fyrir tilkomu fiskmarkaðanna eins og sumir töldu. Tel ég það mjög miður þar sem þróunin núna, alla vega á þessu ári, hefur sýnt að það verð sem fæst á fiskmörkuðunum er fyllilega sambærilegt við það sem gerist erlendis þegar frádráttur hefur verið reiknaður vegna uppboðskostnaðar, vegna taps á veiðidögum, vegna olíukostnaðar o.fl. Sumir telja a.m.k. að það sé í flestum tilvikum hærra verð hérna á fiskmörkuðunum en erlendis.

    Þá hefur það komið fram í þessari umræðu að það sem fer í gegnum fiskmarkaðina fari aðallega til innanlandsneyslu eða neyslu á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Ég held að þarna sé um smámisskilning að ræða þar sem það hefur sýnt sig að mörg fyrirtæki hafa einmitt sprottið upp vegna þessara fiskmarkaða. Það er ekki svo mikið um það að fisksalar kaupi nema ákveðnar tegundir, ýsu held ég, á fiskmörkuðum.
    Ég vildi að hér kæmi fram sú skoðun mín að frv. sé mjög mikilvægt. Mér finnst áríðandi að efla fiskmarkaði frekar en að draga úr og vil lýsa því yfir að ég mun styðja frv. og vonast eftir að mega sitja í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um það. Ég á ekki sæti í sjútvn. og ekki minn flokkur, þannig að ég vænti þess að eiga þar seturétt.