Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að hv. 3. þm. Vestf. er horfinn úr salnum en ég ætlaði aðeins að ræða við hann. Mér er alveg ljóst að það stefnumið að selja allan afla hjá fiskmörkuðum getur ekki komist í framkvæmd í einu vetfangi eins og ég reyndar tók fram og ég tel að nokkur þróun eigi eftir að eiga sér stað í þessum málum sem öðrum. Það er rétt að 80--85% af útgerðinni er með fiskvinnslu líka og öfugt þannig að hagsmunir stangast sjálfsagt á í þessu efni. En ég vek athygli á því að Grandi hf. hefur gert mikið af því að selja á fiskmarkaði hér í Reykjavík, á Faxamarkaði, og hagræðingin sem þeir sjá við það er sú að geta sérhæft sig meira en ella, keypt þær fisktegundir sem skipta máli fyrir vinnsluna hverju sinni, gert vinnsluna hagkvæmari og látið þá aðra taka það sem er óhagkvæmt fyrir þá, þ.e. sem verður þá hagkvæmt fyrir báða.
    Ég sagði frá því hér áðan að Boston-markaðurinn er talinn hafa afgerandi áhrif fyrir alla austurströnd Bandaríkjanna hvað varðar verðlag og ég vildi vekja athygli hv. 3. þm. Vestf. á því að það er til sími víða og tölvur víða, a.m.k. hér fyrir sunnan. Það er eins og hv. þm. hafi ekki verið kunnugt um það. (Gripið fram í.) Þegar menn tala um fjarskiptamarkað, þá leysa menn málin í gegnum þau fjarskipti og það skiptir ekki öllu máli hvar menn eru að veiða. Menn ákveða í gegnum síma eða á annan hátt að gera tilboð í þennan eða hinn aflann og hægt er að gera það um allt land því að símakerfð nær blessunarlega um allt landið.
    Ég minni á það aftur að Verkamannasambandið hefur gert samþykktir í þessu máli og það er stefnumið þar að allur afli verði seldur innan lands fyrst. Á þann hátt getum við helst komið í veg fyrir þá hugsjón útvegsmanna að byggja upp fiskvinnslu á Humbersvæðinu í Englandi. Á þann hátt einan getum við komið því til leiðar að atvinna verði næg um allt land. Ég veit ekki um neina fyrirvara sem hugsanlega hafa verið gerðir við þessa samþykkt á Verkamannasambandsþinginu og ég veit ekki heldur um neina sem vita um þá fyrirvara.