Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 28. nóvember 1989


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins til þess að leiðrétta það sem mér fannst koma fram í máli hv. þm. Karvels Pálmasonar. Hann sagði að hér væri verið að yfirfæra starf Fiskimálasjóðs yfir á Fiskveiðasjóð. Það er út af fyrir sig rétt, en í því formi sem frv. er er aðeins gert ráð fyrir því að Fiskveiðasjóður geti lánað til slíkra verkefna en hann muni því aðeins styrkja slík verkefni að hann fái til þess sérstakar tekjur. Það er ekki gert ráð fyrir því að gengið verði á eigið fé Fiskveiðasjóðs með styrkveitingum, en hins vegar opnar þetta frv., ef að lögum verður, möguleika til þess að Fiskveiðasjóður láni til slíkrar starfsemi. Það er mikil framför frá því sem er í dag, því enginn sjóður getur lánað til slíkrar starfsemi svo nokkru nemi sem er allmikill munur frá því sem gildir í iðnaðinum. Og ég bið hv. þm. að huga til þess að sjávarútvegurinn geti búið við sambærileg þróunarskilyrði og aðrar atvinnugreinar í landinu. Hvort það er í höndum Fiskveiðasjóðs eða annars sjóðs er e.t.v. ekki aðalatriðið. Ég tel hins vegar óheppilegt að vera að hafa allt of marga sjóði starfandi í landinu. Það felst veruleg hagræðing í því að sameina sjóði og það ætti að vera okkar stefna, en ekki að vera trúaratriði að sjóðir starfi áfram. Jafnvel þótt þeir hafi lifað góðu lífi og gert mikið gagn á löngu æviskeiði, þá er það nú svo með alla þróun að hún breytist og það verða umskipti í lífi sjóða eins og annarra dauðra hluta nema þeim sé þá gefið það líf sem til þarf og þeim skaffaðar tekjur og eignir.